„Eignaðist vini til lífstíðar, öðlaðist mikilvæga lífsreynslu og fékk tengsl við atvinnulífið“
– segir Snævar Ingi Sveinsson, nýstúdent frá Menntaskólanum á Ásbrú.
Snævar Ingi Sveinsson er átján ára gamall nýstúdent frá MÁ. Hann fékk viðurkenningu fyrir framúrskarandi námsárangur, félagslíf og þrautsegju við útskrift MÁ. Áhugasviðið hans hefur alltaf verið fjölbreytt en fasti liðurinn hefur alla tíð verið tölvur og tölvuleikir.
Hvenær byrjaðir þú í náminu?
Ég hóf nám í Menntaskólanum á Ásbrú í ágúst árið 2020. Ég man eftir því hvernig kennarar jafnt og nemendur tóku manni opnum örmum frá fyrsta degi, það var gott andrúmsloft jafnt yfir skólann, maður vissi að þetta var ekki líkt skóla eins og maður þekkti hugtakið áður fyrr. Enginn í skólanum kveið fyrir því að vakna fyrir skólann, heldur reyndu flestir að komast fyrr að í skólann. Það breytir svo miklu að vera spenntur fyrir náminu og MÁ er heldur betur að rækta þannig umhverfi.
Hvernig gekk námið?
Námið gekk mjög vel, ekki síður vegna frábærra kennara, starfsfólks og að sjálfsögðu þeirra yndislegra nemenda sem gera skólann að svona frábærum stað. Ég get ekki minnst á einn kennara sem ég taldi vera síðri en annar kennari, allir kennarar í skólanum eru frábærir á sinn eiginn hátt. Það mætti halda að ég væri að skálda þetta en ég er svo ótrúlega heppinn að hafa gengið í MÁ því ég og mínir samnemendur voru svo heppnir með kennara.
Hver er lykillinn að velgengni þinni í náminu?
Aldrei hugsa til styttri tíma, þ.e.a.s. ekkert er seinni tíma vandamál þegar kemur að námi. Einbeittu þér að standa þig sem allra best öll þín ár í námi því þau skipta öll jafnmiklu máli. Þetta fjallar ekki um það að vera bestur af öllum, þetta fjallar um að vera besti þú sem þú getur orðið.
Af hverju valdir þú MÁ?
Ég vildi prófa eitthvað öðruvísi og ekki ganga hinn hefðbundna veg og MÁ var tiltölulega nýr skóli sem kennir fög á mínu áhugasviði. Ég er svo ofsalega feginn að ég valdi MÁ. Að velja Menntaskólann á Ásbrú sem minn menntaskóla er ákvörðun sem ég hef aldrei séð eftir. Ég eignaðist vini til lífstíðar, öðlaðist mikilvæga lífsreynslu og fékk tengsl við atvinnulífið sem ég er viss um að munu nýtast mér seinna meir.
Myndir þú mæla með náminu og þá af hverju?
Ef þú hefur tök á að stunda nám við Menntaskólann á Ásbrú og hefur áhuga á þeim sviðum sem kennd eru í MÁ, þá mæli ég hiklaust með námi við Menntaskólann á Ásbrú.
Hvað er það besta við MÁ að þínu mati?
Félagslífið (ugghm, týpískt að fyrrum varaforseti nemendaráðs segir það) en félagslífið er sífellt vaxandi og dafnandi. Það er eitthvað fyrir alla í félagslífinu í MÁ.
Hvað tekur við?
Ég fékk samþykkt í BSc-nám í tölvunarfræði í Háskólanum í Reykjavík í haust. Einnig var ég ráðinn í upplýsingatæknifyrirtæki (Byxa ehf.) strax eftir skólalok. Bjartir tímar framundan.