Eiginmaðurinn gaf sérstaka gjöf og gerðist blóðgjafi

Hjördís Ólafsdóttir er búsett í Keflavík og starfar í farþegaþjónustu IGS í Flugstöð Leifs Eiríkssonar. Hún er móðir Óla Frosta, sem hún lýsir sem fjörugum ungum dreng. Hún er í háskólanámi á íþróttafræðibraut í Háskóla Reykjavíkur og þess á milli stundar hún líkamsrækt af fullum krafti. Hjördísi finnst persónulegar jólagjafir bestar og ætlar að gæða sér á hamborgarhrygg á aðfangadag.

Hvar ætlar þú að verja aðfangadegi?
„Aðfangadagur er uppfullur af hefðum, en þetta árið eru hann þó aðeins óvenjulegur þar sem við hjónin vinnum bæði vaktarvinnu og þurfum að vera í vinnu framan af deginum. En á aðfangadagskvöld verðum við heima saman litla fjölskyldan eins og við höfum verið síðustu fimm ár.“

Ert þú byrjuð að kaupa jólagjafir?
„Nei, ég er nú ekki byrjuð á því en þarf að fara að koma mér til þess. Mér finnst svo erfitt að ákveða hvað skal gefa hverjum og hver er hin fullkomna jólagjöf? Mér finnst persónulegar jólagjafir alltaf bestar.“

Ert þú með einhverjar hefðir um jólin?
„Við fjölskyldan förum alltaf á einhverja tónleika á aðventunni, hvort sem þeir eru hér heima eða í borginni. Þorláksmessuröltið er mikilvægt, gaman að fara, sýna sig og sjá aðra og ná síðustu jólagjöfunum. Ég reyni að hitta vini og spila. Við hittum líka stórfjölskylduna yfir hátíðardagana. Einnig er mikilvægt að fara í ræktina yfir hátíðarnar þegar vel er verið að gera við sig í mat og drykk. Á aðfangadagsmorgun er alltaf lúxus bröns með öllu tilheyrandi og einnig svolítið af jólasérréttum sem verður þó með öðru móti þetta árið vegna vinnunnar.“

Hvað munt þú borða á aðfangadag?
„Það verður hamborgarhryggur sem er græjaður með öllu tilheyrandi. Ég reyni alltaf að prófa eitthvað nýtt meðlæti á hverju ári, sem vekur þó mismikla lukku.“

Er eitthvað hér á Suðurnesjum sem þú mælir með að fólk nýti sér/geri um jólin?
„Það er ótrúlega mikið af tónleikum í boði hér í bæ, hvor sem það er í kirkjunum, Hljómahöllinni eða annars staðar. Ég hef farið síðustu ár á jólatónleikana hjá Kvennakórnum og Vox felix og er stefnan að fara á þá aftur þetta árið. Það er svo hátíðleg stund að fara saman á tónleika og setur inn jólastemmingu.“

Ætlar þú að láta eitthvað gott af þér leiða um jólin? Ef svo er, hvernig?
„Já, við fjölskyldan útbúum alltaf jólagjafir og setjum undir tréð í Nettó í Krossmóa og í Smáralindinni, gjafir til þeirra sem minna mega sín. Það er líka gaman að segja frá því að fyrir nokkrum árum gaf eiginmaðurinn mér mjög sérstaka afmælisgjöf og gerðist blóðgjafi. Hann fer meðal annars alltaf á aðventunni og gefur blóð og þannig finnst okkur við gefa til samfélagsins.“