Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Mannlíf

Eiga eina tígrisdýrið á Íslandi
Seweryn og eiginkona hans Natalia
Thelma Hrund Hermannsdóttir
Thelma Hrund Hermannsdóttir skrifar
sunnudaginn 4. september 2022 kl. 13:00

Eiga eina tígrisdýrið á Íslandi

Forvitnileg andlit, skopmyndir og litrík götulistaverk eftir listmálarann Seweryn Chwala má sjá víða um Reykjanesbæ. Seweryn kemur frá Póllandi en hann og kona hans, Natalia, fluttu til Reykjanesbæjar eftir að þau giftu sig, með það í huga að stoppa stutt og safna sér fyrir íbúð í Póllandi. Þremur árum seinna eru þau enn búsett í Reykjanesbæ og sjá meðal annars um listanámskeið fyrir pólsk börn í bænum.

Seweryn er með meistaragráðu í myndlist frá Skłodowska-háskólanum í Lublin og var sjálfstætt starfandi í Póllandi. Þar sá hann um vinnustofur fyrir fólk á öllum aldri og kenndi þeim meðal annars götulist. Seweryn segist hafa lært að gera götulistaverk með því að horfa á aðra. „Í Póllandi var ég mikið í kringum annað fólk sem var að graffa svo lærir maður líka mest á því að prófa sjálfur,“ segir hann.

Götulist góð auglýsing

Listaverk hans sem prýða veggi húsa í Reykjanesbæ hafa vakið mikla athygli bæjarbúa en hann segir listaverk hans við Ungmennagarð 88 hússins hafa vakið hvað mesta lukku. Þá hafa þau Seweryn og Natalia fengið önnur verkefni vegna sýnileika andlitanna. „Við fengum verkefni í hendurnar frá Íslandshúsum fyrir sýninguna Verk og vit sem var haldin í Laugardalshöll. Við fengum það verkefni út frá listaverkunum við Hafnargötu 88. Þau hringdu sem sagt í okkur og sögðust hafa séð andlitin á steinunum og báðu okkur um að taka þetta að okkur. Þannig það má segja að þetta sé fínasta auglýsing,“ segir Natalia.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024
Listaverk eftir Seweryn við Hafnargötu

Líður vel á Íslandi

Seweryn og Natalia eru bæði frá Austur-Póllandi en þau kynntust í gegnum vefsíðu. Eftir að þau giftu sig, árið 2019, fluttu þau frá Póllandi til Reykjanesbæjar og var planið að vera þar um stutt skeið til að safna pening fyrir íbúð í Póllandi. Nú þremur árum síðar eru þau enn búsett í Reykjanesbæ. „Þetta áttu svo sem bara að vera u.þ.b. sex mánuðir en núna þremur árum seinna erum við enn hér og við elskum það,“ segir Seweryn. Hjónin hafa komið sér vel fyrir í bænum en Seweryn vinnur á bílaleigunni Europcar og Natalia vinnur á leikskólanum Akri og líkar vel við. Þrátt fyrir það sjá þau fyrir sér að flytja aftur til Póllands. „Við höfum ákveðið það að við munum einn daginn flytja aftur til Póllands, aftur á móti held ég að við munum alltaf leita aftur til Íslands, lífið hérna er bara allt öðruvísi,“ segir Natalia. Aðspurð hvað hún meinar með því segir hún: „Til dæmis þegar kemur að vinnu, hér fer maður í vinnuna og utan vinnu er maður með frelsi til þess að gera það sem manni sýnist án þess að taka vinnuna með þér heim. Svo er lífið bara svo kyrrlátt hér, kannski finnst okkur það vegna þess að í Póllandi eru stórar borgir og meira „kaos.“ Hér er lífið rólegra, ef mann langar að fara að skoða náttúruna þá er stutt að sækja. Við elskum það og kunnum að meta þannig lifnaðarhætti.“

Listaverk eftir Seweryn má sjá víða um bæinn, meðal annars á Svarta Pakkhúsinu

Rækta móðurmál pólskra barna með listanámskeiðum

Seweryn og Natalia segja pólskt fólk á Íslandi eiga það til að hópa sig saman. „Flestir Pólverjar hér á svæðinu þekkjast, við erum ennþá frekar ný og okkur líður alveg þannig. Margir hafa búið hérna hátt í tuttugu ár og eru jafn vel heilu fjölskyldurnar saman,“ segir Natalia. Hjónin bjóða upp á listanámskeið fyrir pólsk börn á aldrinum fimm til fimmtán ára á svæðinu. Námskeiðin eru einhvers konar vinnustofur sem fara fram í pólsku kirkjunni og 88 húsinu. Seweryn segir námskeiðin skapa ákveðna nálægð við pólska samfélagið í Reykjanesbæ. „Ég myndi samt segja að við séum mitt á milli þess að vera partur af pólska samfélaginu og þess íslenska þar sem við vinnum í kringum mikið af íslensku fólki og svo erum við líka með vinnustofurnar. Þessar vinnustofur færa okkur vissulega nær pólska fólkinu en meginástæðan fyrir því að við erum að halda þessi námskeið er einfaldlega tungumálið. Jafnvel þótt flest börnin tali mjög góða íslensku þá gefur þetta þeim tækifæri til að rækta móðurmálið og líða eins og partur af heild. Ef við tvö munum læra íslensku betur, já eða bara ensku, þá gætum við líklega haldið slík námskeið eða vinnustofur fyrir íslendinga líka,“ segir Natalia. Aðspurð hvernig hefur gengið með námskeiðin segir Seweryn með bros á vör: „Við elskum að hafa þessi námskeið“ og bætir við: „Í hverjum tíma eru mismunandi áherslur og við kennum þeim ýmsar aðferðir. Það er virkilega gaman að sjá börnin læra nýja hluti, fá meira sjálfsöryggi og þroskast.“

Málaði bílinn eins og tígrisdýr

Bíll þeirra Seweryn og Nataliu hefur vart farið framhjá bæjarbúum en þau rúlla um á bíl sem er málaður eins og tígrisdýr. Seweryn málaði bílinn en þetta er ekki í fyrsta skiptið sem hann ræðst í slík verkefni. „Ég hef gert nokkur svona verkefni áður, sem dæmi gerði ég það sama við einn bíl í Póllandi. Það var reyndar stærri jeppi og það kom vel út og þess vegna datt mér í hug að það væri gaman að gera það aftur. Natalia kom eiginlega með hugmyndina, hún allaveganna nefndi að það gæti verið flott að gera það sama við bílinn okkar hér,“ segir Seweryn. Natalia og Seweryn grínast mikið með það að þau eigi eina tígrisdýrið á landinu. „Það er heldur óvenjulegt að sjá svona skreytta bíla á Íslandi. Ég vil meina að við eigum eina tígrisdýrið á landinu. Ég var einmitt að grínast með þetta á Facebook að við getum ekki farið í Safari hérna svo Safari kom til okkar, segir Natalia flissandi.

Listaverk eftir Seweryn