Eiga 350 vini en samt enga vini
„Nemendur á unglingastigi geta skráð sig í klúbbinn og skrifað undir samning þess efnis að þau muni ekki reykja eða neyta vímuefna og í staðinn fá þau umbun í formi viðburða þar sem hist er tvisvar í mánuði og svo lokaferð á vorin. Eina sem þau þurfa að gera er að halda sig frá þessu og þá eru þau gjaldgeng í klúbbinn, segir Lovísa Hafsteinsdóttir, náms- og starfsráðgjafi við Akurskóla í Reykjanesbæ. Hún stofnaði klúbbinn Flott án fíknar árið 2007. Átakið var á árinu 2009 tilnefnt af Fræðsluráði Reykjanesbæjar til hvatningaverðlauna þeirra sem skara fram úr og eru öðrum til eftirbreytni.
Fór djúpt í tölvu- og netfíkn í náminu
Auk þess að vera menntuð náms- og starfsráðgjafi er Lovísa tómstunda- og félagsmálafræðingur og segist hafa farið djúpt í tölvu- og netfíkn í því námi. „Mér fannst þörf á að taka á þessum málum og það varð grunnurinn að klúbbnum. Ég vissi ekki að þetta væri svona gott verkefni hjá mér fyrr en ég var beðin um að koma og vera með erindi á vegum í FFGÍR (Foreldrafélög grunnskólanna í Reykjanesbæ).“
Auðvelt að einangra sig
Lovísa segir að starfið hennar sé vítt, sé hún mikið í málum sem eru einnig utan skólans. „Þetta snýst svo mikið um líðan unglinganna. Þau geta auðveldlega einangrað sig frá heilbrigðu félagslegu umhverfi því allt gerist í gegnum tölvu eða síma. Það er a.m.k. það sem ég hef upplifað.“
Pirraðir og viðskotalillir
Tölvu- og internetfíkn er algeng, lúmsk og fáir eru meðvitaðir um einkenni hennar. „Fyrir utan félagslegu einangrunina og aðra hegðun verða þeir sem haldnir eru slíkri fíkn oft pirraðir og viðskotaillir ef þeir eru truflaðir við iðju sína eða ef tölvan eða síminn eru tekin af þeim,“ segir Lovísa. Hún tekur þó skýrt fram að mikilvægast í þessu sé að foreldrarnir séu góðar fyrirmyndir því skýr skilaboð skili sér ekki til unglinganna ef mamma og pabbi hanga svo sjálf í tölvunni eða símanum.
Eiga ekki bein samskipti
Hún segir að sumir unglingar vakni jafnvel klukkan 6 á morgnana til að fara inn á Facebook og skanna síður félaganna til að vera með í umræðunni. „En þau sleppa við það að tala og að eiga þessi eiginlegu samskipti við félagana.“ Þau sem séu með félagsfælni eða ekki sterk félagslega geri of mikið af þessu og Lovísa hefur verið að benda þeim á það. „Þau eru kannski með 350 vini á Facebook en samt enga vini því enginn spyr þau hvernig þau hafa það eða býður þeim í bíó,“ segir Lovísa.
Nær til unglinganna á Facebook
Stofnuð var Facebook síðan Flott án fíknar árið 2012 og Lovísa segist ná vel til unglinganna í gegnum hana. Mál sem komi á borð hennar séu af ýmsum toga og tengist oftast líðan þeirra og slakri sjálfsmynd, vinaleysi, brothættu baklandi, þunglyndi, kvíða, svefnleysi, tölvufíkn og vímuefnaneyslu. Þar setur hún inn efni sem tengist almennri líðan og góðri sjálfsmynd. „Ég næ vel til þeirra í gegnum síðuna og spjalla við þau. Þau leita sum til mín beint í pósthólfið þar. Þau segja mér einnig frá því sem gerist á kvöldin og um helgar.“ Lovísa segir stelpur vera opnari á tilfinningar en strákar en þeir þurfi kannski aðstoð við að skilningur sé á heimili sínu um að þeir þurfi að fá að fara með í ferðir og slíkt, t.d. ef þeir eru í straffi.
Móta sjálf dagkrána
Unglingarnir ráða sjálfir hvort þeir eru í þessum klúbbi. Tvö vildu ekki vera með í vetur. Þau fá félagslíf allan veturinn og heilmikla dagskrá sem þarf helst að vera frí eða kosta eitthvað mjög lítið. Svo er vorferð kostuð af söfnun yfir veturinn, jólabingó og fleiru. „Markmiðið er að koma saman og lifa saman eðlilegu og heilbrigðu lífi. Njóta þess að vera saman. Við erum með sundlaugapartý, kaffihúsakvöld, stelpukvöld, strákakvöld, óvænt kvöld, skemmtiferð, kökukeppni og grillpartý, svo eitthvað sé nefnt,“ segir Lovísa. Unglingarnir móti sjálfir dagskrána á lýðræðisfundi sem haldinn sé á sal einu sinni í mánuði.
Lovísa ásamt hópi unglinganna og meðlima klúbbsins Flott án fíknar.
VF/Olga Björt