ÉG VERÐ AÐ SVÆFA Í MÉR BAKTERÍUNA
Á Vallargötunni, réttara sagt á horni hennar og Norðfjörðsgötu, sem einhverra hluta vegna skartar ekki einu einasta húsi, hljóma þýðir en taktfastir tónar úr fjarlægð. Innandyra situr gamalreyndur og glettinn gítarleikari, sem kallar ekki allt ömmu sína í tónlistinni.Valur Ketilsson sem sjálfur er alinn upp í gamla bænum í Keflavík forvitnaðist meira um málið. Gamli bærinn í Keflavík iðar enn af lífi og sál og það er eins og að detta inn í sviðsmynd gamallar bíómyndar að aka inn Túngötuna að norðanverðu og taka beygjuna upp Íshússtíginn. Göturnar og húsin í hverfinu hafa aldeilis fengið fína upplyftingu á síðustu misserum og í rökkrinu skartar þetta umhverfi sínu fegursta, jafnvel í svartasta skammdeginu. Neðar á Vallargötunni, réttara sagt á horni hennar og Norðfjörðsgötu, sem einhverra hluta vegna skartar ekki einu einasta húsi, hjóma þýðir en taktfastir tónar úr fjarlægð. Þegar að er gáð, liggja allar leiðir í áttina að bílskúrnum á lóðinni númer 22, sem svo sannarlega ætti skilið að standa við áðurnefnda Norðfjörðsgötu. Innandyra situr gamalreyndur og glettinn gítarleikari, sem kallar ekki allt ömmu sína í tónlistinni.Gólfmottur í loftinuHann er hæverskan uppmáluð og bíður til sætis, þó hann ráði ekki ríkjum í þessum dulbúna bílskúr. Einhverntíma stóð til að hafa þarna sólstofu að sögn kunnugra en nú skín sólin út í staðinn fyrir inn. Á borðinu liggja tómir Camel pakkar og stubbarnir í öskubakkanum telja einhverja tugi. Í loftinu og á veggjunum hanga smekklegar gólfmottur, sennilega ætlaðir sem notadrjúgirhljóðdeyfar og teppabútarnir á gólfinu eru fagurlega skreyttir myndum af hljóðfærum. Þetta er sem sagt alvöru tónlistarskúr og hér inni er allt alvöru! Gítarleikarinn strýkur nöglinni yfir strengina og um leið verður loftið rafmagnað.Hljómsveit Guðmundar Ingólfssonar er á leiðinni í hús og hann er ekkert að bíða eftir þeim frekar en endranær. Bakterían í Gvendi er nefnilega ódauðleg. Tónlist hefur verið hans ær og kýr alla tíð og þó það hafi liðið mörg ár á milli þess sem hann spilaði, hefur allaf eitthvað vakið upp í honum drauginn. Plús einn„Blessaður maður, þú ætlar þó ekki að fara að draga upp úr mér gamla tímann núna“ spyr hann undrandi og lofar að segja frá honum seinna. „Ég hætti alveg að spila í kringum 1970 en hafði fram að þeim tíma frá 1958-63 verið á fullu um allar jarðir að spila. Hjómsveit Guðmundar Ingólfssonar leið undir lok þegar Hljómar byrjuðu að spila og þá flutti ég mig upp á Völl. Ég var m.a. í bandi sem hét The Americans en þeir bættu við nafnið þegar ég kom inn í og kölluðu sig þá The Americans plus one! Það má þó segja að Baldur heitinn Júlíusson hafi vakið upp í mér drauginn aftur þegar hann bað mig um að spila með honum og tengdasyninum Rúnna Júll á jólaballi fyrir allnokkrum árum sem og ég gerði.“Eftir ballið spurði Baldur hann að því, hvort hann ætlaði sér nokkuð að sleppa gítarnum aftur!„Ég sagði honum að ég ætti ekki einu sinni gítar sjálfur því ég hafði selt allt dótið eftir að ég hætti að spila uppi á Velli en hann þráaðist við og reddaði mér gítar innan tíðar. Ég held að hann hafi vitað að bakterían grassaði í mér enda vorum við nokkru seinna farnir að spila saman á ný og þá fyrir eldri borgara.“„Fílingur ´71“Rétt í þessu streyma nýir meðlimir Hljómsveitar Guðmundar Ingólfssonar inn í skúrinn og eftirvæntingin leynir sér ekki í andliti gamla mannsins. Fyrstur kemur Magnús Þór Einarsson, bassaleikari, þá Ingibergur Þór Kristinsson, húsráðandi og trommari og síðastur kom Sveinn Sveinsson, söngvari. Þessir kappar eiga það sammerkt að vinna hjá Byggingaverktökum Keflavíkur og hófu að leika saman fyrir nokkrum árum síðan og kölluðu sig þá Málbandið, enda allir liðtækir smiðir hjá því ágæta fyrirtæki. Þeir spiluðu saman á þorrablóti fyrirtækisins og hjá Hestamannafélaginu Mána en tóku sér síðan langa pásu. Þeir eru staðráðnir í að spila fyrir fólkið í bænum og hafa æft af krafti undanfarnar vikur.„Við ætlum okkur að fara inn á þennan harða markað og spila sem víðast. Það er ekki hægt að láta Suðurnesjamenn leita langt yfir skammt því hér er fullt af góðum hljóðfæraleikurum sem ég tel full boðlega fyrir markaðinn“ segir Guðmundur alvarlegur í bragði en skenkir síðan út með athugasemdum um að hann hafi ávallt valið sér betri hljóðfæraleikara til að leika með. Hann bendir á að þessir gaurar sem hann sé með núna, hafi verið að spila í öðrum böndum og þeir séu alveg þræflinkir. Meira að segja sé Svenni söngvari í söngnámi og það megi heyra óperuóminn öðru hverju í lögunum hjá honum. Þeir hlægja allir að athugasemdum aldursforsetans en Maggi bendir á að þegar Mummi var upp á sitt besta fyrir tæpum 30 árum síðan, hafi harði diskurinn hans yfirfyllst og það sé ekki nokkur leið að kenna honum eitthvað nýtt. Hann er víst alveg fastur í „fílingi ´71“ og það er ekkert hægt að bæta við hann! En hvað skyldi nú karlinn fá út úr þessu öllu saman?Svæfi bakteríuna„Sko, fyrst og fremst fæ ég alveg ágætis félagsskap og í öðru lagi svæfi ég þessa bakteríu sem brýst alltaf upp öðru hvoru. Þegar ég stundaði böllin í gamla daga og þekkti alla hljómsveitargæjana fékk maður að taka í öðru hvoru til þess að deyfa bakteríuna.“ En þótt félagarnir komi hver úr sinni sveitinni, Mummi úr rythmarokki, Ingi úr bárujárnsrokkinu, Svenni úr óperunni og Maggi úr fáguðu deildinni, þá leika þeir í Hljómsveit Guðmundar Ingólfssonar mestmegnis lög frá sjöunda áratugnum ásamt nokkrum nýrri ballöðum, að ógleymdum jólalögunum. Á erlenda lagavalslistanum þeirra mátti sjá lög eins og Hey jude, Just a gigalo, Hippy Hippy Shake og síðan á þeim innlenda lög eins og Bláu augun þín, Fyrsta kossinn, Glaumbar, Átján rauðar rósir, Vertu ekki að horfa og Braggablús. Alls mátti sjá þarna um 80 lög fyrir utan jólalögin. Sjarmi á hverfinuEn hvað skyldu nú nágrannarnir segja við þessum hávaða? Er ekki bara vinalegt að hafa svona tónlistarfjör í nágrenni við gamla Ungó? „Ég get sagt þér að ein nágrannakonan segir þetta vera sjarma á hverfinu og það skipti engu hvaða hljómlist sé verið að spila, hvort það er harðasta þungarokk eða „fílinginn“ frá sjöunda áratugnum. Ég hef ekki fengið kvartanir ennþá“ sagði Ingi húsbóndi og tók létt sóló á trommurnar, svona rétt til að undirstrika ánægju sína. Hinir gaurarnir tóku þegar undir og fyrr en varði var bandið farið að spila Glaumbæjarvísuna af alkunnri snilld en hún lætur víst engan mann ósnortin sem á annað borð unnir góðri tónlist.