„Ég spila þetta eftir eyranu“ segir Elíza Newman
Elíza Geirsdóttir Newman er að gefa út þriggja laga EP plötu í dag um allan heim en platan er gefin út á stafrænu formi hjá Amason og iTunes svo eitthvað sé nefnt en þessar netbúðir eru með þeim stærstu í heiminum. Platan inniheldur lögin Ukulele Song For You sem hefur notið mikilla vinsælda á Íslandi, lagið Eyjafjallajökull og áður óútgefið nýtt lag sem nefnist Out Of Control. Öll lögin eru tekin upp með Gísla Kristjánssyni sem einnig stjórnaði upptökum á síðustu plötu Elízu – Pie in the Sky.
„EP platan er kynningarplata en hún er einnig undirbúningur fyrir plötuna Pie in the Sky sem kemur út í allri Evrópu og Bandaríkjunum í mars,“ sagði Elíza, en platan er komin út á Íslandi við góðar viðtökur.
Platan hefur nú þegar vakið athygli í Bretlandi þar sem hið virta tónlistartímarit Word Magzine hefur valið lagið Eyjafjallajökull á sérstakan geisladisk sem fylgir blaðinu. Þeir eru að kynna efnilega tónlistarmenn til að fylgjast með á nýja árinu. „Þetta er mjög góð kynning fyrir mig sem listamann og enn betra þar sem ég er að gefa út stóru plötuna mína hérna í Bretlandi svo það má segja að þetta sé bara frí auglýsing,“ sagði Elíza en blaðið er nýkomið út í Bretlandi. „Ég keypti blaðið í gær og er bara mjög sátt.“
Elíza var að klára mastersnám í Music education frá Roehampton háskólanum í London og kennir núna tónlist í London. En er tónlistin framtíðarplanið? „Ég spila þetta bara eftir eyranu og fylgi straumnum. Ég nýti tækifærin þegar þau gefast en annars plana ég þetta ekkert langt fram í tímann,“ sagði Elíza.
[email protected]