ÉG SKAL SIGRA
Á aðventunni er háð orrusta. Hún fer ekki hátt en er engu síður hörð. Anna Soffía Jóhannsdóttir greindist með krabbamein árið 1993 en hún lætur veikindin ekki aftra sér frá því að sinna fyrirtæki sínu af elju og áhuga.Fjölskylda hennar og börn hafa stutt hana til dáða enda er hún ákveðin, segist alltaf hafa verið það og hún ætlar að bera sigur úr býtum.Anna Soffía tekur á móti blaðamanni í fyrirtæki sínu og öðru heimili eins og hún sjálf orðar það, vinnufataþjónustunni Borg einn hlýan vetrarmorgun og það er notalegt um að litast í fyrirtækinu sem er óvenju snyrtilegt af iðnaðarhúsnæði að vera. Á veggjum hanga myndir eftir Patriciu Hand en auk þess gera gardínur og annað smálegt umhverfið heimilislegt.Anna er hæglát kona en brosmild og hún hefur þýða rödd. Hún talar hægt og yfirvegað og gefur sér góðan tíma til þess að sýna húsakynnin sem hún er mjög stolt af.Rekstur Borgar er henni mikið áhugamál og hefur það ekkert breyst eftir að hún greindist með krabbamein árið 1993. Ef eitthvað er hefur viðvera hennar þar aukist enda þykir henni betra að hafa eitthvað fyrir stafni. „Mér líður betur hér en heima en hér er ég meðal fólks og næ því að gleyma veikindum mínum. Auk þess er reksturinn mjög spennandi núna”, segir Anna Soffía.Alls starfa fjórar konur hjá Önnu í hlutastarfi en fyrirtækið einbeitir sér að þvotti og viðgerðum fyrir fyrirtæki og einstaklinga. Ný viðbót er stóla- og dúkaleiga og hyggst Anna jafnframt leigja út borðbúnað í framtíðinni.Það er því nóg um að vera og fyrirtækið vaxandi að sögn Önnu Soffíu.Á starfsmannalofti má sjá uppbúið rúm en það segist Anna nota þegar hún er veik. „Þá þarf ég ekki að fara heim”, segir hún.Byrjaði allt á einni Candy þvottavélÞetta byrjaði allt saman á einni Candy þvottavél fyrir 20 árum síðan á heimili Önnu og eiginmanns hennar Konráðs Fjeldsted á Kirkjuveginum í Keflavík en síðan hefur mikið vatn runnið til sjávar. Í dag þvær Borg fyrir um 50 fyrirtæki á Suðurnesjum.Anna Soffía sér sjálf um bókhaldið en þó fær hún aðstoð bókhaldara. „Ég hef einfaldlega ekki haft tíma til þess að læra á tölvuna”, segir hún og bendir á tölvu sem situr við skrifborðið. „Ég geri þetta bara á gamla mátann en þar sem ég einbeiti mér að veikindum mínum þessa stundina verð ég að læra á hana seinna”, segir Anna og hvikar hvergi.Anna tekur þó fram að ekki sé hægt að kalla viðveru hennar á Borg vinnu. Hún sé einfaldlega á staðnum. „Áður fyrr var ég alltaf ein en verkefni hafa aukist svo mikið að ég varð að fjölga starfsfólki og hef ég verið mjög heppin með það”.Anna stofnaði fyrirtækið fyrir 11 árum síðan en þá nefndist það Vinnufataþjónustan. Anna leggur nú meiri áherslu á þvottahúsið og því var nafni fyrirtækisins breytt nýverið. Nafnið Borg kemur frá ömmu og afa Önnu en þau bjuggu á Borg í Sandgerði. Jafnframt rifjar Anna upp tilsvar tengdamóður sinnar þegar hún kom á heimaslóðir á Skagaströnd. “hérna er borgin mín” og átti hún þar við Spákonufellsborg.Börnin hafa styrkt mig í baráttunniÞað er greinilegt á máli Önnu að hún hefur sterk tengsl við fjölskyldu sína og eru hennar nánustu henni ofarlega í huga. Hún er stolt af því hvernig börnin hennar hafa tekið veikindunum og segir þau sýnt mikinn styrk og styrkt sig í baráttunni.Konráð, eiginmaður Önnu, var giftur áður og á tvö börn af fyrra hjónabarni. Þegar hann og Anna höfðu búið saman í ár fengu þau til sín yngra barnið, Gunnar sem þá var fjögurra ára. Þá er Jóhann sonur þeirra eins árs gamall.Þegar hann er á þriðja ári fæðist Friðrik og er Anna með hann lítinn þegar dóttir Konráðs, Agnes, flytur til þeirra. Yngst er dóttir þeirra, Sigfríður sem er 10 ára.„Ég var búin að koma börnunum á legg þegar Sigfríður kemur en hún er svona gamni barnið mitt”, segir Anna og brosir að sjálfri sér.„Þegar ég greindist fyrst með krabbamein var það erfitt fyrir mig en það var það líka fyrir Sigfríði. Hún var fimm ára þá og held ég að börn séumjög næm á slíkt enda hefur þetta haft mikil áhrif á hana. Hún hefur náttúrulega gengið í gegnum veikindin með mér. Það er ekki áhyggjulaust líf fyrir litla stúlku að vera á milli vonar og ótta um að missa mömmu sína. En hún er búin að gefa mér mikið og það er gott að hafa hana hjá mér. Börnin hafa mikið samband og hafa Jóhann og Hanna Rósa, kærasta hans, tekið Sigfríði að sér þegar ég er sem mest veik og er það mikill léttir fyrir mig. Ég hef gefið þeim það til kynna að það sé vilji minn að þau annisthana ef ég dey”, það má sjá á Önnu Soffíu að þetta eru erfið orð að segja.„Hún og Hanna Rósa góðar vinkonur en hún hefur mikla ást og kærleik að gefa. Jóhann, sonur minn, hefur jafnvel sagt við mig: „mamma njóttu þess að láta eftir henni það sem þú gast ekki látið eftir okkur”.Þakklát fyrir að hafa kynnst föður sínumAnna Soffía er mjög þakklát fyrir að hafa gefist tækifæri á að kynnast sínum raunverulega föður en átti hún með honum fimm ár.„Það kom að því að ég fór að leita að mínum raunverulega föður þrátt fyrir að ég ætti heimsins besta pabba”, segir Anna en stjúpfaðir hennar er Jóhann Eyjólfsson.„Minn raunverulegi faðir gaf eftir föðurrétt sinn og hafði ég heitið mér því að hitta hann einhvern tímann. Þá fékk ég einnig að kynnast systkinummínum sem var alveg stórkostlegt”.Uppeldissystkin Önnu Soffíu eru Erla og Hörður Jóhannsbörn auk Jóhanns sonar Harðar. Að sögn Önnu Soffíu hafa þau sýnt henni mikinn stuðning og nefnir hún sérstaklega Erlu í því sambandi sem hringir í hana á hverjukvöldi.Faðir Önnu, Kári Gunnarsson, átti þrjú börn og tekur Anna það fram að eftirlifandi kona hans, Kamilla Einarsdóttir, hafi tekið sér mjög vel.Systkini hennar samfeðra eru Emelía, Anna, Guðrún, Einar og Anna Karen.Einar Kárason er flestum Íslendingum að góðu kunnur fyrir ritstörf sín en Anna Soffía viðurkennir skömmustulega að hún hafi enn ekki náð að klára bók eftir hann.„É er búin að margreyna það en ekkert gengur. Ég ætla mér þó að lesa Norðurljós. Annars á ég erfitt með lestur þar sem sjóninni í mér hefur hrakað og ég hef ekki eirð í mér til lengdar að lesa. Ekki nema það sé einhver ástarþvæla, þá get ég tekið tarnir”, segir Anna og hlær. Hún viðurkennir að hún sé tarnamanneskja og nefnir sem dæmi að eitt sinn hafi hún ætlað að hekla í einn glugga á heimili sínu en ekki hætt fyrr en hún var búin að hekla í alla glugga í húsinu og bílskúrnum að auki.„Það sama má segja um handavinnuna. Ég fyllti alla veggi og þegar ég var búin þá hætti ég. Í dag er fyrirtækið mitt tómstundagaman og það er ánægjulegt að sjá það blómstra. Þetta er bæði spennandi og gefur mér mikið”, segir Anna. Hún segist leggja áherslu á að gera hlutina vel og vandar allan frágang. Það má sjá á glæsilegu húsi þeirra hjóna en garður þeirra hefur jafnframt hlotið fegurðarverðlaun.„Garðurinn varð bara til af sjálfu sér án þess að við værum að hugsa um einhver verðlaun. Þetta er bara okkar líf og yndi og eitthvað sem við höfum gert saman. Annars á Konráð mikinn heiður af garðinum og hann smíðaði girðinguna sjálfur enda þúsundþjalasmiður.Fjárfest í húsnæðiÞau hjónin fjárfestu í húsnæði Borgar á erfiðleikatímum í sveitarfélaginu þegar verið var að segja upp fólki á vinnustað Konráðs, Íslenskumaðalverktökum. Þar ætlaði hann að reka bílaverkstæði ásamt bróður sínum Jónatani og þriðji bróðurinn, Ólafur, bættist við síðar. Fyrirtækið var þeirra trygging á óöruggum tíma á atvinnumarkaðnum.Eftir eitt ár kaupa þau Ólaf út úr húsinu og ári seinna Jónatan sem þá flutti til Danmerkur.„Þá ákváðum við að Konráð skyldi fara í bílskúrin með verkfærin sín en ég myndi fara með mína vinnu í húsið. Það er nú svo skondið að húsið var alltaf skráð á vinnufataþjónustuna þannig að kannski hef ég ætlað að þannig færi í undirmeðvitundinni”, segir Anna Soffía og brosir. “Ég ætlaði alltaf að hafa þetta lítið í sniðum og það hvarflaði aldrei að mér að ég myndi enda í svo stóru húsnæði eins og raunin er í dag”.Anna Soffía greinist með krabbameinÞað hvarflaði heldur aldrei að Önnu að hún ætti eftir að greinast með krabbamein en sú varð raunin. Hún á erfitt með að lýsa sínum fyrstu viðbrögðum. „Það er svo erfitt að koma orðum að því”, segir hún eftir langa þögn.„Ég er sjúkraliði og hef verið með annan fótinn á Sjúkrahúsi Suðurnesja ímörg ár. Ég hef hlaupið í störf bæði á legudeild og fæðingardeild en þar vann ég m.a. þegar ég gekk með Sigfríði.Einn daginn þegar ég var að vinna á röntgendeild fékk ég verk í hendina.Þegar ég skoðaði það betur fann ég fyrir kúlu í brjóstinu. Ég hugsaði strax með mér að ég yrði að láta athuga þetta en þá var leitarstöðin í sumarfríi.Ég lét því taka sýni úr berinu hér heima. Biðin var erfið en loksins kom svarið. Þetta reyndist góðkynja svo ég hafði engar áhyggjur og beið róleg eftir að leitarstöðin opnaði eftir sumarfrí.Þegar ég fór síðan í skoðun kom í ljós að berin voru fleiri en eitt. Þeir sáu þrjú ber og ég var kölluð í sýnatöku. Þá sjá þeir að berin eru dreifð um brjóstið og komin í eitla undir báðum höndum. Þetta var illkynja.Ég fékk að vita um niðurstöðurnar í fylgd Konráðs og mér var tilkynnt að ég þyrfti meðferð og yrði að hafa samband við krabbameinslækni. Ég spyr hvenær ég geti fengið viðtal og fæ það svar að koma eftir helgina. Það gat ég ekki sætt mig við og sagðist vilja tíma strax sem gekk eftir. Það var bara ekki hægt að bíða.Kannski hefðu þeir átt að taka bæði brjóstinVið tók lyfjameðferð til þess að stöðva útbreiðslu krabbameinsins um líkamann og fékk ég alls níu sprautur á þriggja vikna fresti en samanlagt tók meðferðin hálft ár. Að lokinni lyfjameðferð var ákveðið að taka brjóstið en ekkert sást í myndatökum. Þá hringi ég í lækninn og spyr hvort það þurfi nokkuð að taka brjóstið þar sem ekkert sjáist þar. Hann vildi náttúrulega ekki hlusta á mig en mér fannst erfitt að láta taka það sem ekkert var. En ég skammast mín í dag fyrir að hafa hugsað svona.Ég hef hugsað um það eftir á að kannski hefðu þeir átt að taka bæði brjóstin, þá hefði kannski ekki farið eins og fór. En það þýðir ekki að velta sér upp úr því”, segir Anna Soffía ákveðin.Þetta var nokkuð erfitt tímabil fyrir Önnu Soffíu því á meðan á meðferðinni stóð missti hún fólk sem stóð henni nærri, þar á meðal Kára, föður sinn.„Mér er það minnistætt að Kári sagði þegar ég greindist með krabbamein:“Það vildi ég óska að ég fengi ekki þann sjúkdóm” - en hann dó úr því meini ári síðar”.Ári síðar deyr raunveruleg móðir Önnu en fósturmóðir hennar var Jóhanna Einarsdóttir.„Sjö mánuðum eftir að móðir mín, Friðrika Pálsdóttir fer, þá deyr mín ástkæra fósturmóðir sem hafði annast mig alla tíð. Ég var 12 ára þegar Friðrika giftist Þórhalli Bárðasyni en hann lést aðeins sex mánuðum á eftir Jóhönnu.Þremur mánuðum seinna deyr tengdafaðir minn, Sigurjón Ólafsson.„Það var erfitt að kveðja mömmu og ég var vansæl og alltaf með einhverja verki. Þá var krabbameinið að taka sig upp aftur án þess að ég gerði mér grein fyrir því. Ég fór í reglulegt eftirlit þann 8. janúar og sama dag er mamma lögð inn á Sjúkrahús Suðurnesja. Ég er mikið á Sjúkrahúsinu hjá mömmu um þetta leyti og einn daginn hringir Friðrik. Vatnið var farið hjá Kolbrúnu, konu hans og ég fór með sjúkrabílnum og náði í þau. Þegar ég kom til baka hváði starfsfólkið, “ertu komin aftur?”. Ég er ekki að koma til ykkar svaraði ég þá, nú er ég að fara á fæðingardeildina”, segir Anna Soffía og brosir en viðurkennir jafnframt að þetta hafi verið mikið álag.„Litli prinsinn var skírður Jóhann en hann fæddist 14. janúar á afmælisdegi systur minnar Þorgerðar sem lést í bílslysi 14 ára árið 1960 ásamt Þorbjörgu ömmu minni.” Systir Önnu Soffíu hafði alist upp hjá Þorbjörgu ásamt sonarsyni hennar, Axeli Jónssyni veitingamanni.Hvíldarferð til KanaríeyjaAnna Soffía rifjar það upp glöð í bragði að hún hafi náð að sýna móður sinni Jóhann litla þar sem hún lá á legudeildinni áður en hún lést þann 20. janúar. “Lát móður Önnu tók mikið á hana auk þess sem hún var stöðugt með verki. Því ákváðu þau hjónin að taka sér frí og fóru með Sigfríði til Kanaríeyja.„Ég hafði ofsalega gott af Kanaríferðinni nema að mér varð flökurt af lyktinni á öllum veitingastöðunum. Ég gerði mér ekki grein fyrir því þá hvað var að gerast. Það fyrsta sem ég gerði við heimkomuna var að heimta magaspeglun. Þá fæ ég það svar hjá lækninum mínum að hann hafi ítrekað reynt að ná í mig. Í ljós kom að lifrapróf hafði sýnt hækkandi tölur.Ég var ekki sátt við það að læknirinn skyldi ekki hafa haft ekki samband við mig fyrr og fannst sú afsökun hans að hann hefði ekki getað náð í mig ótrúverðug. Þegar símtalinu var lokið fór ég að hugsa um það sem hann sagði og það blossaði upp í mér reiðin. Ég hringdi heim til hans og spurði við hvað hann hafi átt. Þá sagði hann mér að ég þyrfi að fara í rannsóknir. Ég var ákveðin í því að fara í þær strax daginn eftir en hann sagðist ekki mega vera að því að hitta mig. Eftir þetta kom löng þögn í símann. Ég sagði honum að ég vildi ekki hitta hann, hann þyrfti aðeins að láta mig fá beiðni um rannsóknir.Þegar rannsóknunum var lokið kom ég til hans á stofuna til þess að fá svar. Þá kemur í ljós að 4-6 cm stórt æxli er í lifrinni og mörg minni um hana alla. Hvað er hægt að gera?, spurði ég strax og fékk það svar að ekki væri hægt að skera og geislameðferð ekki möguleg. Einungis lyfjameðferð kom til greina”.Heimurinn hruninnPáskahelgin var þá framundan og Önnu Soffíu tilkynnt að hún yrði að bíða fram yfir helgi og fengi ekki meðferð fyrr.„Göngudeildin var lokuð svo ég bað um að fá inni á legudeild en sagði læknirinn minn mér að þar væri ekki pláss. Ég fór því heim og var ekki sátt. Verkirnir mögnuðust og ég var komin í keng af verkjum. Það versta var að heimurinn var hruninn”, hér dokar Anna Soffía við og er hugsi. „Samtgrét ég ekki”.Loks kemur að því að Konráð hringir í Þórhildi Sigtryggsdóttur lækni á Heilsugæslustöð Suðurnesja og hún skoðar Önnu Soffíu strax. „Hún kallar á Hrafnkel Óskarsson yfirlækni og stuttu síðar er ég lögð inn. Ég fékk slakandi- og verkjastillandi lyf og dvaldi á Sjúkrahúsi Suðurnesja yfir páskana”, og hér getur Anna Soffía ekki annað en brosað. „Mér líður alltaf vel þar enda í góðu yfirlæti og þekki starfsfólkið vel. Ég náði góðri hvíld og var vel undirbúin fyrir meðferðina. Þegar ég er svo loksins kölluð í innlögn til Reykjavíkur fékkst svarið „Hún er niðri á Sjúkrahúsi Suðurnesja”, segirAnna Soffía og getur ekki annað en séð broslegu hliðina á þessu öllu saman.Þoldi ekki lyfinAnna er lögð inn á Landspítalann og hefur lyfjameðferð sem reynist ekki vel í fyrstu.„Ég þoldi ekki lyfin þar sem ofnæmisviðbrögð voru svo sterk og varð að hætta lyfjagjöf. Lyfið var prófað aftur daginn eftir en allt fór á sama veg. Ég vildi ekki gefast upp og bauðst til þess að prófa það þriðja daginn en því var hafnað og ég hlýddi”, segir Anna og brosir enda veit hún vel af þrjósku sinni.„Ég fékk þá annað lyf sem hafði ekki eins sterka verkan og þá gekk allt upp. Ég var á göngudeild í eitt og hálft ár en fyrsta myndataka sýndi verulega minnkun á æxlunum. En eftir það virtust þau vera svipuð og tóku ekki breytingum.Nú fæ ég svipað lyf og í upphafi og hafa fyrstu myndatökur sýnt verulega minnkun eins og í fyrra skiptið. Annað veit ég ekki og ég ætla ekki aðhugsa um framtíðina”, segir Anna Soffía alvarleg í bragði. “Ég hugsa bara um einn dag í einu og vona að þetta gangi áfram. Ég ætla mér ekki að vera svartsýn og neita að hleypa að slæmum hugsunum”, hér hikar Anna Soffía aðeins við og bætir við með áherslu „það er átak - Þetta er allt saman átak. Ég viðurkenni það alveg að stundum læðast að manni neikvæðar hugsanir en við eigum öll okkar veiku stundir”.Hef trú á hjálp að handanÞegar Anna Soffía er spurð að því hvort hún sé trúuð svarar hún játandi.„Já, ég hef trú. Trú á hjálp að handan”, hér brosir hún „og ég leita nokkuð eftir þeirri hjálp.” Anna minnist Gísla Wium læknamiðils úr Sandgerði sem hjálpað hafði mörgum en lést úr krabbameini á síðasta ári. “Gísli kom til mín og svo bara fór hann”, segir Anna og það er ekki laust við að hún sé undrandi yfir tilviljun örlaganna, „Það var svo skrítið. Hann var að hjálpa mér en svo fær hann krabbamein og deyr”.Á meðan Anna Soffía dvaldi á Heilsuhælinu í Hveragerði um mánaðarskeið leitaði hún uppi læknamiðilinn Hilmar á Þorlákshöfn vegna stöðugra höfuðverkja. Leitin var ekki fyrirhafnarlaus en hún hafði upp á honum að lokum og trúir því að hann hafi hjálpað sér.„Þegar hann hafði heyrt allt um mig sagðist hann ætla að senda til mín þrjá lækna þá um kvöldið, hvern færan á sínu sviði. Höfuðverkurinn fór og hef ég ekki fundið fyrir honum sem hægt er að nefna síðan”.Anna drekkur lúpínuseyði, þótt vont sé, allt upp í hálfan lítra á dag og segist hún hafa trú á því að það hjálpi ónæmiskerfinu.Af hverju konan í næsta húsi?Þrátt fyrir veikindin flutti Anna vinnufataþjónustuna Borg í nýja húsnæðið þann 20. nóvember 1997, daginn sem hún varð 45 ára.„Ég fór vikulega í sprautu en opnaði samt og réð fleira starfsfólk til að létta á mér vinnu”.Í dag fer Anna í sprautur á þriggja vikna fresti og eru blóðprufur teknar í millitíðinni til að fylgjast með henni.„Ég er mikið veik þegar ég fer í sprauturnar og það er órói í mér þegarstundin nálgast. Ég blæs strax út af sterunum sem ég fæ fyrir sprautuna og er í viku að jafna mig á eftir. Verkirnir koma seinna og þótt ég eigi verkjatöflur upp í skáp þá er ég af einhverjum vitleysisskap að spara þær”, segir Anna.En skyldi hún aldrei hafa spurt „Af hverju ég?”„Af hverju ég? Af hverju ekki konan í næsta húsi? - Af hverju konan í næsta húsi”, svarar Anna Soffía og er mikið niðri fyrir. „Ég á svo mikið af góðufólki að sem gefur mér styrk en ég hef að auki alltaf verið sterkur persónuleiki og ákveðin”.Jólin nálgast nú óðfluga og margir vinna hörðum höndum við að undirbúa jólahátíðina. Ekki eru allir í sporum Önnu Soffíu en hvernig skyldi hún undirbúa þessa hátíð ársins og skyldu veikindin hafa breytt einhverju þar um?„Ég er hætt að stressa mig fyrir jólin. Ég geri ekki hreint en það er þokkalegt hjá mér og ég baka ekki lengur tíu smákökutegundir eins og áðurfyrr þegar börnin voru heima. Mér finnst mikilvægt að við gleymum ekki börnunum og það er aðallega þeirra vegna sem við megum ekki gleyma okkur. Ég hef þó lært það”.Aðspurð segir Anna að viðhorf hennar til lífsins hafi eitthvað breyst við tilkomu sjúkdómsins. Þó fer hún varlega í að nefna hvað það er.Reyni að vera ekki beisk„Ég hef sjálfsagt breyst”, svarar hún hugsi og þannig líður langur tími.„Ég reyni að vera ekki beisk og hugsa sem svo af hverju hringdi læknirinn ekki í mig fyrr?. Ég vil hugsa hlýtt til allra og elska börnin mín öll”, svarar hún loksins.„Ég er kannski ekki alveg nógu mikil amma í mér og er löt við að passa. En ég læt það þó ganga jafnt yfir alla”, segir hún og brosir.„Ég held að veikindi mín hafi verið börnunum mikið erfiðari þegar krabbameinið tók sig upp aftur enda var ég bjartsýn í fyrstu þótt maður geti auðvitað aldrei verið öruggur”.Veikindi Önnu Soffíu höfðu ýmsar breytingar í för með sér.„Mér fannst viðhorf fólks breytast þegar ég veiktist. Sumir hættu að koma í heimsókn en aðrir komu í staðin. Þegar ég lít til baka sé ég að í raun eignaðist ég nýja vini”. Hér nefnir Anna Soffía gamla vinkonu móður sinnar Jónínu Sigurðardóttur. „Hún og maður hennar Hans Markús prestur í Garðabæ hafa sýnt okkur hjónum óvenjulega vináttu og hlýju. Jónína kemur upp á Sjúkrahús í hvert sinn sem ég fer þangað og hefur unnið með mér í Borg. Hún hefur veitt mér mikinn styrk”.Anna Soffía segist lítið velta fyrir sér ástæðum þess að hún fékk krabbamein. Þó leyfir hún ekki reykingar á sínu heimili.„Mamma og pabbi reyktu mikið en á þeim tíma reyktu hreinlega allir enda var það í tísku og þótti ekki tiltökumál að reykja ofan í börn. Ég held að óbeinar reykingar séu mjög varasamar eins og rannsóknir sýna en þó er ég ekki að ásaka neinn.Eftir að ég veiktist velti ég því fyrir mér hvort vinnu minni á röntgendeildinni væri þar einhverju um að kenna auðvitað er svo margt sem kemur til greina. Það er ekki hægt að kenna neinu um. Þetta er bara faraldur sem gengur yfir eins og berklarnir á sínum tíma. Það á eftir að vinna bug á þessu”, segir Anna og er bjartsýn.Anna tekur það fram að hún hafi fengið mjög góða aðhlynningu í veikindum sínum og að margt gott fólk vinni við heilbrigðisþjónustu.„Mér þykir vænt um þetta fólk sem er að hjálpa mér og hef fengið sérstaklega góðar móttökur bæði á sjúkrahúsinu hérna heima og á Landspítalanum.Anna Soffía tekur fram að hún vilji ekki ásaka krabbameinslækninn.„Hann gerði mér líka gott og hjálpaði mér. Þó tel ég að hann hafi sýnt mikið kæruleysi með því að hafa ekki samband við mig í janúar í stað þess að ég hafði samband sjálf í apríl.”Ég er ekki tilbúin til þess að faraDauðinn er áleitinn þegar átt er við krabbamein og segist Anna Soffía óska þess að geta tekið móður sína til fyrirmyndar sem sagðist ekki óttast hann.„Hugsunin um dauðann læðist stundum að mér og þá verð ég hrædd því ég vil ekki deyja. Ég er ekki tilbúin til þess að fara og á eftir að gera svo margt - eins og að ferma barnið mitt og gefa mér meiri tíma fyrir ömmubörnin”, segir Anna alvarleg í bragði. Jóhann, faðir Önnu lifir enn á níræðisaldri og keyrir til hennar úr Sandgerði þegar veður er gott og hann treystir sér til að keyra og er Anna þakklát fyrir að hafa hann til staðar.Erla systir hennar er oft með í för en hún annast föður þeirra og segir Anna Soffía hana hafa fyllt upp í það tómarúm sem skapaðist þegar Jóhannamóðir hennar dó.En hvernig skyldi baráttunni lykta. Ef Anna Soffía fær einhverju um ráðið þá er sigur það eina sem kemur til greina.„Ég ætla að sigra, ég skal sigra - með Guðs hjálp og góðra manna. Ég hef trú á lyfjunum og að Guð almáttugur hjálpi líka til. Það þýðir ekkert annað en að hugsa jákvætt og hafa opinn huga”, segir þessi viljasterka kona sem lætur ekki sprautumeðferð aftra sér frá því að halda upp á 55 ára afmæli eiginmanns síns þann 14. desember sem jafnframt er brúðkaupsdagur þeirra hjóna.„Ég ætla ekki að bjóða neinum en ef einhver kemur ætla ég að vera með kaffi og með því”, segir Anna og brosir örlítið glettnislegu brosi.