Ég mun aldrei sjá eftir þessu
- Salka Björt Kristjánsdóttir flutti sextán ára til Akureyrar
„Það er svo hollt að stíga út fyrir þægindarammann, hvort sem maður kýs að gera það þegar maður fer í framhaldsskóla, háskólanám eða hvenær sem er á lífsleiðinni, á einhverjum tímapunkti verður maður bara að gera það,“ segir Salka Björt Kristjánsdóttir sem flutti aðeins sextán ára gömul frá fjölskyldu sinni í Njarðvík til að stunda nám við Menntaskólann á Akureyri, en þaðan útskrifaðist hún síðasta sumar. Salka þroskaðist mikið fyrir norðan og segist ekki sjá eftir því að hafa farið. „Þetta var mjög góður tími og þeir vinir sem ég eignaðist þar eru ómetanlegir.“
Móðir Sölku, Svanhildur Eiríksdóttir, stundaði einnig nám við Menntaskólann á Akureyri og talaði svo fallega um skólann og bæinn við fjölskylduna svo líklegt er að norðurlandið hafi af þeim sökum heillað Sölku. „Mamma segir að ég hafi ákveðið það mjög ung að fara til Akureyrar í menntaskólann þar. Mamma fann sjálf þessa þörf að komast eitthvað í burtu þegar hún fór í framhaldsskóla og það var gaman að fá að kynnast einhverju af fólkinu sem hún kynntist á Akureyri. Skólastjórinn núna var til dæmis íslenskukennarinn hennar og annar kennari sem kenndi okkur báðum. Mömmu fannst alltaf rosalega gaman að koma til mín,“ segir Salka.
Verðmæt vinátta fyrir norðan
Fyrstu dagarnir í nýju aðstæðunum á Akureyri voru þó erfiðir fyrir sextán ára stelpu sem ætlaði að fara að standa á eigin fótum og segist Salka ábyggilega hafa hringt þrisvar sinnum grátandi í pabba sinn. „Ég var bara einmana fyrst, það tók tíma að kynnast fólkinu. Ég bjóst einhvern veginn við því að ég myndi bara strax eignast geðveikt góða vini, en það kom þó fljótt,“ segir hún. Hún kynntist fullt af krökkum frá Akureyri sem hún heldur ennþá sambandi við í dag. „Ég get ekki ímyndað mér að missa sambandið við vini mína á Akureyri. Það er alveg staðreynd að fólk sem maður kynnist á þessum árum verða áfram bestu vinir manns.“
Salka í vinnugallanum í góðra vina hóp
Salka bjó á heimavistinni í skólanum fyrstu tvö árin en fékk svo leið á því og ákvað að byrja að leigja íbúð með vinkonu sinni frá Akureyri, Margréti. „Á vistinni gat maður ekki eldað sjálfur, það var fylgst með því hvort við værum dugleg að þrífa herbergið okkar og mig langaði að verða aðeins sjálfstæðari þannig við fórum að leigja, fyrst niðri í bæ og svo í pínulítilli kjallaraíbúð sem var bara með tveimur gluggum, en það var samt yndislegt,“ segir Salka og brosir.
Nýtti hverja krónu
Lífið var þó ekki alltaf dans á rósum hjá fátækum námsmanni á Akureyri og þurfti Salka að læra að velja og hafna. „Ég man eftir einu skipti þar sem ég átti ég 138 krónur á kortinu mínu en hrísmjólk kostaði 139 krónur. Þá borgaði ég eina krónu og kláraði út af kortinu svo ég gæti fengið mér kvöldmat. Stundum fór peningurinn bara í aðeins of mikið djamm og þá varð maður bara að læra að lifa ódýrt,“ segir hún en Salka var einnig svo heppin að fjölskylda Oddu, góðrar vinkonu hennar, tók henni með opnum örmum og henni var reglulega boðið í mat til þeirra. Annars var Salka svo lánsöm að geta hringt í foreldra sína fyrir sunnan sem aðstoðuðu hana.
Nýstúdent með foreldrum sínum, Svanhildi og Kristjáni
Spilaði á selló með Sinfóníunni
Salka var á tónlistarlínu í skólanum, en þegar hún útskrifaðist frá MA hafði hún verið í tónlistarskóla í tólf ár, þar sem hún æfði á selló. „Ég var meira og minna niðri í tónlistarskóla. Ég fékk það sem ég gerði þar metið sem áfanga í skólanum. Það var ekki gert upp á milli áhugamála sem ég kunni rosalega að meta, hvort sem það voru íþróttir eða tónlist,” segir Salka, en á Akureyri fékk hún meðal annars tækifæri til að spila með Sinfóníuhljómsveit Norðurlands.
Öðlaðist sjálfstæði og styrktist
Kaffihúsadeit, öll stórskrýtnu teitin og hinir litlu hlutirnir eru það sem stendur upp úr þegar Salka lítur til baka yfir þessi fjögur ár sem hún bjó á Akureyri. „Svo eru það öll kvöldin, sem ég átti með Margréti, sem ég leigði með. Þau voru svo skemmtileg. Það að hafa fengið tækifæri að búa með þessari frábæru vinkonu var svo gaman. Þarna var enginn að segja manni að nú þyrfti maður að taka til eða að nú væri kominn matur, maður gerði bara allt á sínum eigin forsendum.“
Salka segist klárlega mæla með þessu ævintýri, það sé gott til að öðlast sjálfstæði og finna sjálfan sig. „Ég styrktist mjög mikið sem persóna eftir að hafa farið. Ég hætti að pæla hvað öðrum fyndist um mig og hvernig ég klæddi mig. Mér varð bara alveg sama, ég kynntist fólki sem gerði nákvæmlega það sem það vildi,“ segir hún.
Salka ásamt vinkonum sínum
Langar að læra lögfræði
Þessa dagana undirbýr Salka sig undir inntökupróf fyrir Háskóla Íslands þar sem hún stefnir á nám í lögfræði. „Ef ég kemst ekki inn langar mig í heimsreisu eða að gera eitthvað allt annað, en ég krossa fingur. Ég held ég verði annars áfram í Keflavík næstu árin,“ segir hún, en Akureyri og fólkið þaðan þykir henni mjög vænt um. „Akureyri mun alltaf eiga stað í hjarta mínu.“
-Sólborg Guðbrands