Ég hitti einu sinni Suðurnesjamann sem talaði ekki ensku!
Ég hitti einu sinni sjónvarpsmann sem var svolítið ófríður. Ég hitti einu sinni rithöfund sem vaknar alltaf fyrir hádegi. Ég hitti einu sinni Vesturbæing sem hélt ekki með KR. Ég hitti einu sinni bankastarfsmann ríkan af þjónustulund. Ég hitti einu sinni Seltirning sem var ekki sjálfstæðismaður. Ég hitti einu sinni Íslending sem var ekki á Facebook!
Textinn hér að ofan er hluti af lengri texta sem ég fékk í hendur fyrir u.þ.b. tveimur árum og var frábær ádeila á fordóma og staðalmyndir. Við búum í litlu landi sem þýðir að það er enn auðveldara hér en annars staðar að staðla fólk eftir einhverju allt öðru en þeim mannlegu kostum sem það býr yfir. Þannig erum við dæmd út frá stöðu okkar, menntun, kyni, búsetu o.s.frv. og gerum oft kröfur til fólks sem eru hvorutveggja óraunhæfar og ósanngjarnar. Blekið á útskriftarskírteininu mínu úr Kennó var varla orðið þurrt þegar ég upplifði að nú væru dagar þágufallssýkinnar taldir, aldrei aftur tvö N þar sem á að vera eitt og Guð hjálpi mér ef ég skrifa I þar sem á að vera Y. Nú var ég orðin fulltrúi kennara, sem miðla til þeirra sem landið eiga að erva, uh ég meina erfa, og mikilvægt að sýna það í verki með því að vita allt, geta allt og vera hin fullkomna fyrirmynd. Það var mikill léttir þegar ég viðurkenndi fyrir sjálfri mér og öðrum að fullkomin yrði ég aldrei, hvorki sem kennari né manneskja og ég ætti eftir að gera fullt af mistökum, bæði í lífi og starfi. Ég lét setningar eins og: ,,átt þú ekki að vita þetta sem kennari“ sem vind um eyru þjóta og viðurkenndi þannig fyrir mér og öðrum að kubburinn með alfræðiorðabókinni hefði ekki verið græddur í heilann á mér ennþá. Aftur á móti var ég fús til að leita svara með nemendum mínum hvenær sem var enda upplýsingar fljótar að úreldast og auðvelt að ná í það nýjasta hverju sinni.
Ég var svo heppin að fyrstu árin mín í kennslu var ég með frábæra samstarfsfélaga og þar á meðal var ung kona sem var kennari af Guðs náð. Hún náði einstöku sambandi við nemendur sína þannig að eftir því var tekið. Þau sem áttu undir högg að sækja öðluðust trú á sjálfan sig og maður sá hvern nemandann á fætur öðrum blómstra í höndum hennar. Hún var líka mjög opin með þá staðreynd að hún væri lesblind sem gerði hana að mikilvægari fyrirmynd fyrir þá nemendur sem stóðu í sömu sporum - því þrátt fyrir allt var hún jú orðin kennari. Hún hafði húmor fyrir sjálfri sér og gátum við hlegið mikið að því þegar hún efaðist um val okkar á jólasögunni eitt árið ,,Beinagrindadrengurinn“, hvað var jólalegt við það!! Sagan reyndist vera ,,Beiningadrengurinn“ eftir Dostojevski, og sagan fékk allt aðra merkingu á svipstundu. Það er ekki efi í mínum huga að innkoma hennar í líf ungu nemendanna hefur haft mun meiri áhrif á þau sem persónu en sú manneskja sem gerir aldrei stafsetningarvillu eða slysast til að segja ,,mér langar“.
Þegar við tökum að okkur ákveðin störf í samfélaginu fylgja þeim að sjálfsögðu ákveðnar skyldur en það er alveg sama hver sú staða er, við hættum aldrei að vera manneskjur með öllum þeim breyskleikum sem því fylgir. Leikfimiskennarinn getur fitnað, sálfræðingurinn þjáðst af þunglyndi presturinn skilið við maka sinn, læknirinn reykt og skólastjórinn átt nemanda með námsörðugleika. Það er sama hvaða fjölskyldu við skoðum eða hvaða þjóðfélagshóp við tilheyrum, öll eigum við okkar litlu eða stóru vandamál. Sú fjölskylda sem eyðir mikilli orku í að líta út sem hin fullkomna fjölskylda (hvernig sem sú fjölskylda lítur nú út) á yfirleitt vel falin leyndarmál einhvers staðar og fer á mis við að lifa lífinu lifandi því orkan sem fer í að uppfylla einhverjar staðalmyndir og fullkomleika verður yfirþyrmandi. Við þörfnumst þess öll að fá að vera við sjálf og svo ég vitni nú í Pál Óskar ,,það er miklu betra að vera frumeintakið af sjálfum sér en léleg kópía af einhverjum öðrum“. Með þetta í huga ætla ég að reyna að temja mér að dæma einstaklinga út frá verkum þeirra og viðmóti í stað þess að setja þá inn í kassa sem einhverjir smíðuðu fyrir löngu síðan og eru orðnir gamlir, fúnir, úreltir og engum til sóma.
Það er vandmeðfarið að búa í litlu samfélagi. Þegar áföll dynja yfir snúum við bökum saman, styðjum og styrkjum og erum til staðar fyrir hvort annað. Þetta getur snúist upp í andhverfu sína þegar fólk lendir á erfiðum krossgötum í lífinu sem geta verið margs konar en eru fyrst og fremst til vitnis um að við erum mannleg og fáum öll okkar verkefni að fást við, hvað sem líður stöðu, menntun, félagslegum aðstæðum eða kyni. Ég hef alla vega tekið þá ákvörðun að leyfa mér að vera mannleg, taka lífið ekki of alvarlega og hafa húmor fyrir því þegar einhver snillingurinn segir: varst þú flugfreyja, aldrei hefði mér dottið það í hug, þú lítur alls ekki þannig út!!
Þangað til næst - gángi´ðér obboslega vel!
Anna Lóa