Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Mannlíf

„Ég held að þjóðverjar elski að setja reglur“
Sunnudagur 6. maí 2018 kl. 07:00

„Ég held að þjóðverjar elski að setja reglur“

- Jovana Lilja hefur búið í tæp átta ár í Þýskalandi

Grindvíkingurinn Jovana Lilja Stefánsdóttir býr úti í Þýskalandi ásamt manninum sínum, Arnóri Þór Gunnarssyni, og dóttur þeirra, Díönu, þau hafa búið í Þýskalandi í átta ár núna í sumar. Arnór leikur handbolta með Bergischer HC en liðið kom sér upp um deild á dögunum og mun því leika í efstu deild eða Bundesliga á næsta tímabili eftir frábært tímabil í annari deildinni. Jovana segir að Þjóðverjinn elski að setja reglur og sé ekki mikið fyrir að taka skyndiákvarðanir.

Kemur tvisvar á ári til Íslands
Arnór Þór er atvinnumaður í handbolta og fluttust þau til Þýskalands þegar hann ákvað að fara í atvinnumennsku fyrir um átta árum. Jovana kennir Spinning þar sem þau búa og ætlar að byrja að kenna íslensku í haust. Jovana segir að það sé alltaf nóg að gera og að hún sé til dæmis búin að vera í foreldraráði á leikskóla dóttur þeirra í tvö ár og það sé ótrúlegt hvað það sé mikið að gera í skipulagningu og fundarmætingu. Jovana reynir að koma tvisvar sinnum á ári til Íslands en Arnór kemur um fjórum sinnum vegna landsliðsverkefna með handboltanum.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Jovana og Arnór á góðri stund á Íslandi.

Alltaf nóg að gera
Þegar Jovana er spurð að því hvers hún sakni á Íslandi þá er fjölskyldan henni efst í huga. „Á Íslandi er líka mikið framboð af hollum veitingastöðum sem ég sakna.“ Dagarnir hjá fjölskyldunni eru misjafnir en hinn dæmigerði dagur hefst á því að þau vakna yfirleitt um hálfátta og þá fer Arnór á æfingu. „Síðan keyri ég Díönu á leikskólann og fer þá beint á æfingu. Þegar við Arnór erum búin á æfingum þá eldum við okkur hádegismat eða förum eitthvað út að borða. Ég næ síðan í Díönu á leikskólann og þá fer Arnór á æfingu.“ Jovana segir að þær mægður séu duglegar að skoða sig um í nágrenninu og þræði alla leikvelli eftir leikskóla eða hitti krakkana í götunni þeirra. „Síðan borðum við kvöldmat og þá er dagurinn að verða búinn. En ef Arnór er í fríi þá gerum við oft eitthvað saman við þrjú og erum einnig  dugleg að gera eitthvað með vinum okkar sem eru hérna úti.“

Fyrsti handboltaleikur Díönu.

Landsvæðið í Þýskalandi fallegt
Þegar Jovana er spurð að því hvað sé skemmtilegast við Þýskaland þá segir hún að það sé án efa hvað það sé hægt að gera mikið sér til skemmtunar.  „Við búum á mjög góðum stað í Þýskalandi, það eru fimmtán mínútna keyrsla til Düsseldorf og fjörtíu mínútur til Köln. Þessar tvær borgir eru mjög flottar, góðir veitingastaðir, flottar verslunargötur og margt fleira. Síðan er landsvæðið hérna fallegt, mikið af flottum göngu- og hjólaleiðum. Ekki skemmir fyrir hvað Þýskaland er miðsvæðis í Evrópu, það er stutt til Hollands, Belgíu, Frakklands og til fleiri landa. Síðan verð ég að nefna hvað matur er á sanngjörnu verði hérna sem mér finnst vera mikill kostur.“

Mæðgur á góðri stund.

Ekki algengt að fólk taki skyndiákvarðanir
Þjóðverjar eru mikið reglufólk segir Jovana og hún hefur það á tilfinningunni að þeir elski að taka reglur. Hún segir einnig að þeir séu ekki mikið að taka skyndiákvarðanir og plani hlutina langt fram í tímann. Þegar hún er spurð að því hvernig hafi gengið að læra þýskuna segir Jovana að það hafi ekki verið erfitt en hún ákvað að tala enga ensku þegar þau fluttu, var alls ekki feimin að tala tungumálið og segir að það hafi skilað sér að lokum og í dag talar hún reiprennandi þýsku.

Mælir þú með því að fólk flytji erlendis og breyti um?
Já klárlega ef maður fær tækifæri til þess, þá bara að kýla á það þó svo að það sé ekki nema í eitt ár, það alltaf skemmtilegt og lífsreynsla að prófa eitthvað nýtt.