Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Mannlíf

Ég hef hitt marga klikkaða en þú ert sá klikkaðasti
Páll Ketilsson
Páll Ketilsson skrifar
mánudaginn 25. desember 2023 kl. 06:08

Ég hef hitt marga klikkaða en þú ert sá klikkaðasti

— sagði Mick Taylor í Rolling Stones þegar hann áritaði úrklippubók fyrir Kela.

Sævar Þorkell Jensson, betur þekktur sem Keli, hefur í næstum 60 ár, frá því hann var ungur strákur, safnað úrklippum og eiginhandaráritunum tónlistarfólks í úrklippubækur. Bækurnar eru mikil tónlistarverðmæti og urðu tilefni sérstakrar sýningar í Rokksafni Íslands í Reykjanesbæ seint á síðasta ári. Keli hefur lagt á sig mikla vinnu við að safna áritunum í bækurnar sínar og segir í viðtali við Víkurfréttir frá því þegar hann hitti Mick Taylor úr Rolling Stones og setti upp hvíta hanska til að fá eitthvað meira en eiginhandaráritun.

Engar stjörnur án aðdáenda

„Það væru ekki til neinar stjörnur ef aðdáendur væru ekki til. Oft er þetta sama fólkið, en alvöru safnarar eru samt fámennur hópur, sem hefur í gegnum aldirnar haldið til haga mörgu af því sem er til sýnis á söfnum um allan heim,“ sagði um sýningu Kela í Rokksafninu á sínum tíma.  Safnarar á Íslandi safna ólíklegustu hlutum, en það eru ekki margir sem eru jafn ákafir safnarar á sviði rokk-, popp- og hvers konar dægurtónlistar eins og Keli.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Keli hefur safnað eiginhandar-áritunum og úrklippum frá árinu 1964 þegar hann sá Hljóma fyrst á sviði. Keli á eitt stærsta úrklippusafn um dægurtónlist á Íslandi. Hann mætir gjarnan á tónleika með úrklippubók og fær viðkomandi tónlistarfólk til að rita nöfn sín í bókina. Honum er jafnan vel tekið og hefur safnað áritunum flestra poppara og rokkara landsins. Hann á líka eiginhandar-áritanir heimsþekktra tónlistarmanna.

Úrklippubækur Kela geyma margskonar fróðleik og spanna dægurtónlistarsöguna í rúmlega hálfa öld. Bækurnar í dag eru rúmlega þrjú hundruð og fimmtíu talsins. Um er að ræða mikil menningarverðmæti og merkilega heimild um tónlistarsöguna.

Víkurfréttir tóku hús á Kela þegar sýningin stóð yfir í Rokksafni Íslands og heimsóttu hann einnig á Klapparstíginn í Keflavík þar sem hann er með sitt einkasafn í kjallaranum, auk þess að hafa lagt undir sig borðstofuna með sínar úrklippubækur.

Úrklippubækur Kela geyma margskonar fróðleik og spanna dægurtónlistarsöguna í rúmlega hálfa öld.

Byrjaði á prógrömmum úr bíómyndum

Hvernig byrjaði þetta?

„Ég var níu ára gamall þegar ég byrjaði að safna prógrömmum úr bíómyndum. Svo fannst mér ekkert varið í það. Þá heyrði ég um Rolling Stones og Route 66 og fór ég að safna öllu með þeim. Ég safnaði einnig öllu um Hljóma og svo vatt þetta upp á sig og svona hefur þetta í gegnum tíðina undið út frá sér eins og tré.“

Þú ert aðeins yngri en strákarnir í Hljómum og þú færð þá alveg beint í æð. Fékkstu strax mikinn áhuga á Hljómum og Rolling Stones?

„Mér fundust Hljómar alveg geggjaðir, alveg frá því ég man eftir mér.“

Getur þú ímyndað þér að það sé búið að vera eitthvað jafnstórt í tónlist og Hljómar voru á Íslandi?

„Já, ég myndi segja að Kaleo og Of Monsters And Men væru kannski í þeirra tölu líka.“

Það eru sveitir sem eru orðnar stórar úti í heimi.

„Ég sá Of Monsters And Men úti í Ástralíu í 3.000 manna sal og var eini Íslendingurinn. Um leið og hljómsveitin gaf fyrsta tón þá sungu allir með. Það kunnu allir lögin og ef ég hef einhvern tímann verður stoltur að vera Íslendingur þá var það þarna.“

En hvernig þróast þetta? Þú þú byrjaðir að safna úrklippum um Hljómana?

„Þetta byrjaði þannig að pabbi gaf mér litla bók og ég byrjaði að líma inn Rolling Stones, Bítlana og Hljómana. Svo þróaðist það bara út í stærri úrklippubækur í stærðinni A3. Sem betur fer gat ég alltaf keypt þetta hérna heima. Þeir hætta svo að flytja inn A3 því það var svo lítið af svona klikkuðu fólki eins og ég sem þurfti svona stóra bók. Þetta þróaðist út í það að ég gat keypt af manni sem bjó til svona bækur. Þegar það hætti fór ég að kaupa bækurnar í Englandi en ég fór þangað tvisvar til þrisvar á ári og keypti tíu til fimmtán bækur í hvert skipti.“

Hvað eru þetta orðnar margar bækur í dag?

„Í dag eru þetta 368 bækur.“

Hvað eru margar klukkustundir á hverja bók?

Ég hef náttúrulega seremóníu í kringum þetta. Þegar ég er að klippa út Stones þá hlusta ég á Stones. Ef ég er að klippa úr Hljóma, þá hlusta ég á Hljóma eða Hjálma og eitthvað svoleiðis. Það getur því farið gríðarlega mikill tími í þetta.“

Þú hefur ekki verið að safna öllu?

„Nei, bara það sem grípur mig í það og það skiptið. Eins og þegar Bubbi gerði plötuna með öllum stúlkunum, þá safna ég öllu um þær stúlkur. Svo söng hann lag með GDRN og Bríeti. Þá safnaði ég öllu um þær, þannig að það er alltaf nóg að gera.“

Geggjað og gleymist aldrei

Keli hefur lengi verið áskrifandi að blöðum sem fjalla um tónlist og er það ennþá. Á ferðum sínum með Júdasi, þar sem hann var rótari hljómsveitarinnar, safnaði hann öllum auglýsingum um böll og tónleika sveitarinnar en hann tók ekki bækurnar með sér í ferðalögin. Einstaka sinnum lét hann þó menn árita í bækurnar eins og til dæmis eftir að Júdas hafði tekið Led Zeppelin-lagið Stairway to Heaven í Officeraklúbbnum á Keflavíkurflugvelli. „Það var geggjað og ég gleymi því aldrei.“

Þetta horft er til baka, hvað er eftirminnilegast?

„Þegar Rúnar Júlíusson varð 60 ára voru haldnir afmælistónleikar í Stapanum. Þá lét ég alla sem komu fram á tónleikunum skrifa í bókina og það var tekin mynd af okkur Rúnari saman. Við vorum miklir vinir og erum það ennþá.“

Þegar viðtalið við Kela var tekið var hann að vinna í því að fá að vera baksviðs á sýningunni um Bubba Morthens, Níu líf, í Borgarleikhúsinu og safna þar áritunum allra sem taka þátt í sýningunni.

Leiðist aldrei að bíða eftir fólkinu

„Þegar Lifun var tekin í Háskólabíói var ég þar og fékk alla Sinfóníuhljómsveit Íslands til að skrifa í bókina við þann viðburð. Ég sat í þrjá tíma á meðan fólkið var að mæta og mér leiðist aldrei að bíða eftir fólkinu.“

En hvað er það sem drífur þig áfram? Og ekki bara í byrjun heldur öll þessi ár? Þetta er orðin meira en hálfa öld.

„Þegar ég var sjö eða átta ára var maður alltaf að hlusta á Kanann. Þetta bara heltók mig á sínum tíma. Mér finnst það líka alveg geggjað að hafa aðgang að öllum hljómsveitum á landinu.“

Hefur þú alltaf fengið góðar móttökur?

„Alltaf.“

Þannig að tónlistarfólkið hefur lúmskt gaman af þessu líka?

„Jú, jú.“

Og þú ert náttúrulega að viðhalda sögunni á skemmtilegan hátt.

„Já og ég hef lánað bækur eins og þegar bókin um Rúnar Júlíusson var skrifuð. Jónatan Garðarsson, sem var einn af hönnuðum af þessari frábæru rokksýningu í Hljómahöll sagði að hann hefði gjarnan viljað hafa komast í þessar bækur þegar hann skrifaði um Hljóma í undirbúningi að opnun Hljómahallar.“

Fingrafar Mick Taylor

„Það er kannski þegar ég hitti Stones-arann Mick Taylor. Það er eftirminnilegt. Ég var mikið búinn að reyna að fá að hitta hann, en það var alltaf sagt nei. Hann var á bluestónleikum á Chelsea-leikvangnum og ég hitti á umboðsmanninn hans og spyr hvort ég megi ekki hitta Mick Taylor og láta hann rita í bókina. Hann segir nei en býður mér að taka bókina og láta skrifa í hana. Ég segi honum að ég sé kominn alla leið frá Íslandi til að hitta goðið mitt og ég láti ekki bókina frá mér. Hann spyr hvort ég sé að koma frá Íslandi bara til að hitta Mick Taylor og ég segi já. Þá fékk ég leyfi til að fara á bak við en mátti ekki segja frá því.

Ég fer á bak við og hitti hann og tek í höndina á honum. Hann segir við mig að vonandi verði tónleikarnir þess virði að hafa mætt á þá. Ég sagði að þetta augnablik að fá að hitta hann nægði mér. Ég opnaði svo bókina og fletti upp á grein um „Stone alone“ sem var síðasta greinin sem var skrifuð um hann, set á mig hvíta vettlinga, tek pennahulstur upp úr töskunni og opna hann. Þá segir hann: Hvað ertu að gera? Ég sagði: Ég ætla að biðja þig um að taka pennann, skrifa nafnið þitt og setja pennann aftur í hulstrið. Þá á ég bæði eiginhandaráritun og fingrafarið þitt. Þá segir hann: Ég hef hitt marga klikkaða en þú ert sá klikkaðasti. Það var mér líka mikils virði að fá að hitta Mick Taylor því hann var mikið átrúnaðargoð hjá mér.“

Keli er þakklátur fyrir mikinn skilning sem kona hans sýnir sér því þau séu að hanga á tónleikastað löngu eftir að fólk er farið heim.

Þetta nýja stöff rosalega flott

Hvernig finnst þér tónlist hafa þróast hér heima á Íslandi?

„Mér finnst hún hafa þróast bara mjög vel. En ég er ekki mikið fyrir rapp en Emmsjé Gauti og Herra Hnetusmjör eru mjög skemmtilegir. Ég safna öllu um Emmsjé Gauta því hann kom fram á tónleikum með Helga Björns í Laugardalshöllinni. Svo finnst mér þetta nýja stöff rosalega flott eins og Of Monsters And Men og Kaleo.“

Er eitthvað lag ofarlega í huga eftir öll þessi ár?

„Það eru tvö lög. To Be Grateful eftir Magnús Kjartansson. Mér finnst það alveg geggjað lag. Einnig Sympathy for the Devil með Rolling Stones. Ég á lista með tuttugu lögum sem ég hlusta mikið á. Maggi Kjartans er í fyrsta sæti og Stones númer tvö.“ 

Trommuleikari eða söngvari í huganum

Keli lærði um tíma á trommur en byrjaði á trompet. Eftir að hafa brotið framtennurnar í tröppunum við Myllubakkaskóla náði hann ekki að blása í trompetið með góðu móti og lærði þá á trommur. „Þegar ég er að hlusta á tónlist þá er ég oft trommuleikarinn eða söngvarinn í mínum hugarheimi.“