„Ég hef gott fólk með mér“
Metnaðarfullur skólastjóri Myllubakkaskóla.
Árangur nemenda nokkurra grunnskóla á Suðurnesjum í samræmdum prófum hefur varla farið fram hjá neinum. Meðaltalsárangur nemenda í þessum skólum er sá besti frá upphafi. Myllubakkaskóli hefur komið einkar vel út, en hann var meðal efstu í þremur fögum af sjö yfir grunnskóla á landinu. „Markvissir ferlar, fagmennska og mikill metnaður hafa skilað árangri,“ segir skólastjórinn Eðvarð Þór Eðvarðsson.
Starfsfólkið uppspretta svo margs góðs
Eðvarð Þór tók við stöðu skólastjóra Myllubakkaskóla í ágúst 2012. Þá hafði hann starfað sem aðstoðarskólastjóri í Holtaskóla í tæp fimm ár, deildarstjóri þar á undan auk þrettán ára í kennslu. Ég hef gott fólk með mér. Það skiptir miklu máli,“ segir Eðvar Þór og bætir við að innri uppbygging skólans og ferli séu sífellt að verða betri. „Þegar ég kom hingað skoðaði ég hvaða hefðir höfðu skilað árangri því ég vildi leggja áherslu á það sem gekk vel.“
Hann segir mikinn metnað ríkja í skólanum fyrir hönd nemenda, hugsað sé um hvern og einn og markvisst tengst meira foreldrum þeirra sem þurfa á því að halda. Starfsfólk sé faglegt, viti hvað það vilji en sé alltaf reiðubúið að læra eitthvað nýtt. „Kennararnir og starfsfólkið eru sjálfbær og hrein og tær uppspretta svo margs góðs. Hér ungt og ferskt fólk í bland við reynslumikið fólk og það er mjög góð blanda. Kennarar með hæstan starfsaldur í Reykjanesbæ eru hérna hjá mér og það nýtist skólanum vel,“ segir Eðvarð Þór stoltur.
Börnin nái grunnstoðunum
Hann segir nýju verkferlana ganga út á það að enginn nemandi fari í gegnum námsefni án þess að kannað sé hvort hann hafi náð þokkalegum tökum á því. Ef það vanti upp á er farið betur í það með þeim tiltekna nemanda. „Stundum þarf átak til þess að ná þeim viðmiðum sem við viljum ná í hverjum árgangi. Lagðar eru línur í samstarfi við foreldra er varðar lestur og stærðfræði. Við viljum að börnin nái þessum grunnstoðum til þess að geta bætt betur við sig.“ Eðvarð Þór tekur sérstaklega fram að í Myllubakkaskóla hafi hlutfall nemenda sem þurfa mestu úrræðin og aðstoðina minnkað. „Við pössum eins vel og við getum upp á þessa nemendur því þar leynast oft úrvalsnemendur sem eiga kannski bara erfitt með heimanám.“
Þéttari kjarni - hærra meðaltal
Þá segist Eðvarð Þór vera afar hlynntur samræmdu prófunum. Það hljóti að vera metnaður hvers skóla að ná viðmiðum út frá aðalnámskrá og sýna fram á það sem vel hefur tekist. Annað sé bara tvíverknaður. „Þetta eru leiðsagnarpróf, það felst í orðinu sjálfu,“ segir hann.
Hann segir að í Myllubakkaskóla hafi sérkennslunni verið breytt þannig að hún nái til fleiri aðila og nái frá 1. og upp í 10. bekk. „Við viljum tryggja utanumhald og tengsl við umsjónarkennara. Höfum stefnt á með lestri, stærðfræði og sérkennslu að ná utanumhaldi og að nemendur komi fyrr úr sérkennslunni og verði samferða nemendum í sínum árgangi. Þeim mun þéttari kjarni í hverjum bekk, því hærra meðaltal í bekkjum.“
Sérhæfð í að efla styrkleika nýbúa
Hæsta hlutfall nemenda af erlendum uppruna í grunnskólum á Suðurnesjum er í Myllubakkaskóla. Í ár stunda yfir 70 slíkir nemendur nám við skólann, eða fjórðungur nemenda. „Það er okkar sérhæfni að taka á móti nemendum af öðrum þjóðernum. Við höfum lagað okkur að því og ég held að það hafi tekist í flestum tilfellum bara bærilega. Þetta eru engir töfrar, heldur bara vinna sem skilar árangri,“ segir Eðvarð Þór. Hann bætir við að vinnan í kringum fjölþjóðadeildina, sem er ígildi formlegu sérdeildarinnar sem áður var, hafi skilað sér og starfsfólk bæti sig sífellt í að vinna með þennan hóp.
Hann telur utanumhald um þessa nemendur og að einblína á styrkleika þeirra hafi skipt miklu máli og séu meginástæður góðs árangurs þeirra í skólanum. „Námið er þeim oft erfitt í 4. bekk og þar sleppir hluti þeirra nemenda t.d. prófum í íslensku því þeir eru kannski búnir að vera hér í svo skamman tíma að þeir geta ekki tjáð sig eða skrifað á íslensku. Aftur á móti hafa þeir sýnt fram að vera sterkir t.d. í stærðfræði og koma með sína styrkleika inn í skólann,“ segir Eðvarð Þór.
„Þá sæki ég um hjá sjálfum mér“
Einnig segir Eðvarð Þór að lykilatriði í góðu skólastarfi sé að finna aðferðirnar sem virki og festa þær í sessi. Ekki gera of mikið og átta sig svo á því að helmingurinn virkar ekki og byrja þá á ný. Það sé bara tímasóun. Ef nemendur skynji þetta náist meiri árangur. „Skólastarf á að vera einfalt, þ.e.a.s. það sem snýr að foreldrum og nemendum; líðan og árangur. Slíkt helst í hendur og vegur hvort annað upp. „Það er ekki hægt að fá nemendur til að ná góðum árangri ef þeim líður ekki vel. Á móti líður nemendum vel þegar árangur er góður.“
Aðspurður segir Eðvarð Þór að oftast sé starfið skemmtilegt en leiðinlegir hlutir séu líka hluti af starfinu. „Ef laun kennara væru hærri væri ég allt eins að kenna í dag. Finnst það skemmtilegra en að vera skólastjóri. Ef laun kennara koma til með að hækka verulega þá sæki ég um hjá sjálfum mér,“ segir hann og hlær. Hann segist þó ekki sjálfur vera dómbær á hvort hann sé betri kennari eða skólastjóri. „Ég reyni bara að vera þokkalegur við fólk og býst við einhverju svipuðu til baka,“ segir hann og brosir. Hann hafi fyrst og fremst gaman af því að ná árangri og sækist eftir því. Segir árangur koma af því að búa til heilsteyptan pakka; ferla og vinnu sem skili árangri. „Ég sé kennara sem blómstra á sínu sviði, það er frábært og veitir mér mikla ánægju. Það verður svo til þess að hver nemandi brennur mest úr býtum“.
„Leiðrétta þarf laun kennara“
Eðvarð Þór segist hafa mikið dálæti á kennurum. Þeir sinni skemmtilegu en jafnframt erfiðu starfi. „Maður heyrir fólk tala fjálglega um kennslu og það einkennist líklega af einhverri vanþekkingu á starfinu. Það yrði hollt fyrir almenning að koma og kenna í eina viku; upplifa kennslu eins og hún er. Ef það væri góðæri þá værum við með hálftóma skóla af kennurum því viðmiðunarhópar hafa farið langt fram úr þeim í launum.“
Hann segir álagið geta farið að hafa áhrif á störf kennara. Brúnin sé farin að þyngjast hjá mörgum. „Ef við náum ekki ásættanlegri niðurstöðu eftir áramót í kjaramálum þá er ég hræddur um að starfsánægjan verði ekki sú sama. Það voru taktísk mistök gerð á sínum tíma með lengingu kennaranáms. Það fælir fólk frá náminu og stéttinni um leið. Það er ekki hægt að keyra endalaust á hugsjóninni. Fólk fer að eldast í greininni og við viljum faglega og flotta endurnýjun á réttum forsendum,“ segir Eðvarð Þór með áherslu.
Syndir lítið en hleypur í staðinn
Eftir vinnu í Myllubakkaskóla þjálfar Eðvarð Þór 10-13 ára krakka í sundi sex sinnum í viku. Honum finnst ofboðslega gaman að vera í tengslum við sundíþróttina þó hann syndi ekki oft núorðið. „Ég hleyp, tek heilmaraþon og ætla að ná betri tíma í Reykjavíkurmaraþoninu næst. Náði tímanum 3:44:00 síðast og ætla reyna að ná 3:30:00, sem er bærilegt fyrir kall eins og mig,“ segir hann og bætir við að hann reyni að hlaupa 5 sinnum í viku, stundum með félaga sínum. „Maður verður að gera eitthvað annars hleypur maður í spik. Ég hef fundið fyrir því að ef ég hreyfi mig ekki þá verð ég óþreyjufullur. Ég hefði örugglega fengið einhverjar töflur við ofvirkni þegar ég var lítill ef ég hefði ekki verið í íþróttum. Maður hreyfði sig í svona 4-5 tíma á dag.“
Hann segir mýmörg dæmi um að ungt fólk hafi fundið sinn farveg í íþróttum og að hann hafi tröllatrú á því. „Ég nýt mín í að finna leiðir til að veita þann stuðning sem hægt er. Það eru skemmilegustu verkefnin. Þá er maður aldrei meira tilbúinn. Ef það er samtakamáttur til að lyfta upp því sem þarf, þá er það gert. Í því felst starfsánægjan mín, segir Eðvarð Þór. Spurður um hvaða eiginleikar hans njóti sín best í störfum sínum nefnir hann helst skipulag og jákvæðni, svona langoftast. „Á það til að vera dulur en að eðlisfari er ég bjartsýnn og horfi fram á veginn. Stórt atriði að loka ekki á neitt. Að allir eigi möguleika. Ekki dæma neitt; nemendur eða bekki eða árgang. Bara að bretta upp ermar og gera eins vel og hægt er,“ segir Eðvarð Þór að lokum.
VF/Olga Björt