Ég gef mér frelsi innan formsins

Eiríkur Árni Sigtryggsson Listamaður Reykjanesbæjar

Eiríkur Árni Sigtryggsson, tónskáld, hefur verið útnefndur listamaður Reykjanesbæjar 2018 til 2022 en formleg afhending viðurkenningarinnar fór fram við hátíðardagskrá á þjóðhátíðardaginn 17. júní.
 
Eiríkur Árni er borinn og barnfæddur Keflvíkingur og hefur starfað sem tónskáld, tónlistarkennari og myndlistarmaður um árabil. Hann er afkastamikill listamaður á sviði tónsmíða og hafa mörg tónverka hans verið flutt hérlendis sem og erlendis, allt frá einleiks- og einsöngsverkum til hljómsveitaverka og kórverka. Verk hans hafa verið flutt af Sinfóníuhljómsveit Íslands, ýmsum kammerhópum, kórum, einleikurum og einsöngvurum og þá hefur Eiríkur átt verk á tónlistarhátíðinni Myrkir músíkdagar. Verk hans Lútherskantata var frumflutt sl. haust í tilefni af 500 ára afmæli Siðbótarinnar en þátt tóku Sinfóníuhljómsveit áhugamanna og kirkjukórar Keflavíkurkirkju og Kjalarnesprófastdæmis sem átti veg og vanda af verkefninu.
 
Við settumst niður í Ráðhúskaffinu á rólegum mánudegi og spjölluðum yfir kaffibolla um tónlistina, melódí­una og frelsið innan formsins. Ég byrja á því að spyrja hvort útnefningin hafi komið honum á óvart.
 
„Já, svoleiðis en maður gat svo sem búist við þessu eftir allan þennan tíma og þá sem hafa verið útnefndir á undan mér. Röðin er komin að kallinum fyrir hans störf,“ segir hann rólegur og brosir út í annað. „Þau eru nú ekki svo mörg tónskáldin, svona „alvöru“ innan gæsalappa. En það er nóg til af lagasmiðum. Gunni Þórðar er þó alvöru, enda kominn með óperu undir beltið,“ segir hann og hlær. Ég spyr þá hvort hann hafi samið óperu. „Já, en hún er ofan í skúffu og verður það líklegast áfram“.
 
Eiríkur er sonur hjónanna Eyrúnar Eiríksdóttur húsmóður og Sigtryggs Árnasonar yfirlögregluþjóns. Fæddur á Hafnargötunni, í heimahúsi eins og venja var en það stendur þó ekki lengur. Hann er þriðji í röð systkina sinna, móður sinnar megin, en hálfsystir hans, Gauja Guðrún Magnúsdóttir, er móðir Magnúsar Kjartanssonar tónlistarmanns og bæjarstjórans í Reykjanesbæ, Kjartans Más Kjartanssonar.
„Mamma átti hana með fyrri manni sínum Magnúsi Sigurðssyni en hann fórst með mótorbátnum Huldu á leið frá Reykjavík til Keflavíkur. Sá atburður er enn vel í manna minnum því báturinn fannst aldrei“.
 
Kominn aftur á heimaslóðir
 
Eiríkur er alinn upp á Framnesveginum og örlögin hafa hagaði því þannig til að þangað er hann kominn aftur. „Það er gott að vera kominn aftur við sjóinn,“ segir hann og rifjar upp uppvaxtarárin í Keflavík. „Við vorum mikið í klettunum þótt það hafi sjálfsagt verið búið að banna okkur það, það þýddi lítið. Við vorum að veiða á bryggjunni og svo var verið að skylmast niðri í fjöru. Við duttum lítið í sjóinn,“ segir Eiríkur og brosir út í annað. „Sumir gerðu það þó en voru dregnir upp aftur. Ég datt einu sinni í íshússtjörnina en notaði sundkunnáttu mína sem ég hafði lært í gömlu sundhöllinni og komst af“.
 
Hvaðan koma tónlistaráhrifin? 
„Mamma spilaði á heimaorgel, hafði lært hjá Friðriki Þorsteinssyni organista Keflavíkurkirkju. Hún gat spilað töluvert og lék oft fyrir okkur. Þá söng pabbi vel og mikið, bara sjálfur og einn, sérstaklega þegar hann var að byggja húsin sín en hann byggði þau nokkur“.
 
Þá vildi svo vel til píanó kom inn á heimilið. „Gauja systir lærði á píanó í Reykjavík og við systkinin vorum sum að glamra á það daginn út og daginn inn, bæði Magnús bróðir minn og ég og svo tók Gunnar við og svo Ingvi Steinn.
 
Þegar Eiríkur var 13 ára var tónlistarskóli settur á stofn í Keflavík og tónlistarfélag stofnað en áður hafði karlakór og lúðrasveit verið starfandi í Keflavík. Það þótti honum góðar fréttir. „Ég bara stóð við dyrnar og lamdi um leið og ég frétti af tónlistarskólanum, ég komst inn í húsið, skráði mig inn – and the rest is history,“ segir hann og hlær.
 
„Mig langaði til að læra að spila á hljóðfæri, síðan heltók tónlistin mig – og hefur ekki sleppt mér síðan. Ég byrjaði nokkuð seint en það var enginn annar möguleiki á hljóðfæranámi áður nema hjá bæjarfógetafrúnni“.

 
Kennarinn í úlpu og með vettlinga
 
Ragnar Björnsson var ráðinn fyrsti skólastjóri Tónlistarskóla Keflavíkur, ungur maður nýkominn frá Austurríki með hljómsveitarstjórapróf og organistapróf – „mikill músíkmaður,“ bætir Eiríkur  Árni við. „Ég fór að læra á píanó fyrst hljóðfærið var til á heimilinu. Þetta var ekki stór skóli en hann byrjaði í risinu í Ungmennafélagshúsiu, öðru nafni Ungó. Upp í risið var brattur hænsnastigi og þar var oft frost á veturna. Ragnar sat því í úlpu og með vettlinga í kennslunni.“ Eiríkur Árni hlær.
 
Seinna flutti skólinn starfsemina í Bíókjallarann, undir verndarvæng Guðnýjar Ásberg en þar var að sögn Eiríks Árna fínt að vera. „Þar höfðu kanarnir verið á fullu að dansa við stelpurnar og pabbi var oft á vakt þarna að stilla til friðar milli Íslendinga og Ameríkana.
 
Þá fluttum við í stóran og mikinn bílskúr hjá Kalla á Ísbarnum  en þar var flygill og  fóru þar fram æfingar lúðrasveitarinnar og fleira“.
 
Eftir frumstæðar aðstæður í byrjun fór Eiríkur til náms í kennaradeild Tónlistarskólans í Reykjavík, þá orðinn 17 ára. Þaðan tók hann kennarapróf árið 1963 á 20. aldursári – ætlaði að kenna tónmennt, og gerði það áratugum saman.
 
„Ég byrjaði að kenna í Kársnesskóla í Kópavogi og hafði ósköp gaman af börnunum. Þau voru nú stundum óþekk en það var allt í lagi, ég sagði þeim þá bara sögur“.
 
En hvenær kviknar áhuginn á tónsmíðum?
„Það gerist þegar ég fer að vinna mikið með kórum og organistum. Ég byrjaði á því að skrifa útsetningar og fann þá að ég gat búið til lagið sjálft. Ég hafði spilað á orgel í Hvalsneskirkju og Höfnum og lærði þar af fólkinu sem var búið að starfa við þetta lengi. Þetta kórafólk var yndislegt við þennan unga mann“.
 
Eiríkur hafði starfað sem söngkennari við Barnaskólann í Keflavík en hann gat ekki hugsað sér að vera bara í því. Hann þurfti eitthvað meira og því flutti hann til Svíþjóðar þar sem hann fékk stöðu sem tónlistarkennari við gagnfræðaskóla.
 
Tónfræðinám erlendis
 
„Ég var í átta ár í Svíþjóð en fékk þá tilboð frá skólastjóra gagnfræðaskólans í Garðabæ sem vildi ráða mig í kennslu og ég þáði. Eftir nokkurra ára kennslu heima á Íslandi, bæði í gagnfræðaskólanum og Flensborg í Hafnarfirði, fór ég út á ný til að læra tónsmíðar en þangað leitaði hugurinn. Ég fór til Bandaríkjana og hóf þar nám í Andrews University í Michigan og svo háskólann í Winnipeg. Mig langaði að læra meira, vantaði að geta skrifað sextíu blaðsíður af Sinfóníu – það réði ég ekki við.
 
Nú, ég kom heim og fór í tónfræðadeild Tónlistarskólans í Reykjavík en þar var allt landsliðið í tónsmíðum að kenna okkur. Það var svo gamli skólastjórinn minn, Jón Norðdal, sem útskrifaði mig í annað sinn en nú í tónsmíðum. Síðan hef ég unnið við tónsmíðar og kennt með“. 
 
Eiríkur Árni starfaði við tónlistarkennslu í Reykjanesbæ frá árinu 1987, fyrst við Tónlistarskólann í Keflavík frá 1987 og svo við Tónlistarskóla Reykjanesbæjar frá stofnun hans árið 1999, þar til hann hætti störfum vegna aldurs árið 2010.
 
Þú ert fjölhæfur og hefur líka starfað í myndlist meðfram tónlistinni. Hvernig virkar það saman?
„Já myndlistin er hin hliðin í sköpuninni. Ég hafði alltaf áhuga á því að teikna og hann Ragnar Guðleifsson alþýðuforingi tók eftir þessum litla strák sem var alltaf að teikna og hvatti hann áfram. Eftir það tók Jónína Guðjónsdóttir við en hún var önnur Framnessystra sem í hugum margra eru merkiskonur. Þær héldu uppi leiklistarstarfsemi hér í 50 ár auk þess að reka barnastúkuna. Þá voru leikrit sett upp á hverju ári og ég meira að segja lék í þessu. Jónína hafði lært myndlist hjá Stefáni Björnssyni sparisjóðssjóra. Hún keypti handa mér svartkrít og aðra hluti sem þurfti að nota við slíkar myndir og mamma keypti handa mér vatnslitakassa – sko alvöru,“ segir Eiríkur með áherslu og hallar sér fram. „Ég man að þeir voru fokdýrir,“ bætir hann við.
 
Þegar Eiríkur var orðinn eldri lærði hann hjá Valtý Péturssyni og Hringi Jóhannessyni, þá tók hann líka námskeið í Svíþjóð. „Ég lærði töluvert í myndlist án þess að taka nokkur próf. Maður losnar ekki við þennan fjanda,“ segir hann og glottir. „Ég fór að halda sýningar sem gengu vel og fékk viðurkenningu á mínum verkum bæði hér heima og erlendis. Þá kenndi ég alltaf myndlist með tónlistinni, börnum, unglingum og fullorðnum“.
 
Eiríkur Árni segir að tónlistin og myndlistin séu skyldar. „Þar eru bæði litir og tónar, litbrigði í tónum og hljóðfærum er mjög skyld. En ég er samt meira tónskáld en myndlistarmaður, enda lærði ég það til hlítar“.
 
Hvernig myndir þú lýsa þér sem tónskáldi?
„Ég myndi segja að ég væri Pandiatonic. Ég geri eins og ég vil og gef mér algert frelsi til að nota hljómborðið og alla tónana í því. Auðvitað eru reglur í tónlist eins og öðru en þegar maður er búinn að læra þær þá getur maður gert eins og maður vill. En frelsið er alltaf takmörkum háð, þú smíðar ekki tónsmíð án þess að hafa form, eins og hús verður að hafa form. Réttast væri þá að kalla það frelsi innan formsins, er það ekki fínt?“ spyr hann og hlær.
 
„Ég er ekki hvass í nútímatónlistinni, ég myndi segja að ég væri frekar mjúkur en „sándið“ er oft mjög nútímalegt“.
 
Engar melódíur semsagt? spyr ég örvæntingarfull.
„Jú, ég leyfi mér melódíur, ég elska þær, “ segir Eiríkur með áherslu. „Ég hef gert mikið af sönglögum sem kannski færri vita og þegar ég var sjötugur voru mörg þeirra flutt í Stapanum. Þá eru mörg í viðbót sem ég hef samið en ekki verið flutt, sem vonandi verður einhvern tímann“.
 
Hátíðartónleikar í Hljómahöll
 
Vinir og velunnarar Eiríks ætla að standa að hátíðartónleikum í Bergi í Hljómahöll, laugardaginn 29. september n.k. í tilefni af 75 ára afmæli Eiríks Árna. Á efnisskrá verða eingöngu lög og tónverk eftir hann og flytjendur eru nokkrir af færustu tónlistarmönnum þjóðarinnar á sviði klassískrar tónlistar. Auk þeirra mun Kvennakór Suðurnesja flytja lög sem Eiríkur samdi sérstaklega fyrir kórinn fyrir nokkrum árum.
„Þar verða flutt verk fyrir strengjakvartett, píanókvartett, tangó fyrir selló og píanó sem er í uppáhaldi hjá sjálfum mér og á eftir að vekja eftirtekt. Ég hef gaman að þessum tangótakti. Þá verða þarna sönglög með kvartettundirleik, sönglög með píanóundirleik svo þetta verður nokkuð fjölbreytt – svona eins og ferillinn“.
 
Hvað annað er svo á döfinni hjá Listamanni Reykjanesbæjar?
„Annars er ekkert framundan. Ja, nema bæjarlistamaðurinn fái pöntun á tónverki frá bæjaryfirvöldum,“ segir Eiríkur Árni glettinn að lokum.