Ég fæ að lifa og hrærast í tónlist alla daga
Karen J. Sturlaugsson segir að 17. júní standi upp úr á árinu sem er að líða. Enda engin furða en þá veitti forseti Íslands, Guðni Th. Jóhannesson, henni íslensku fálkaorðuna og sama dag var Karen einnig útnefnd listamaður Reykjanesbæjar fyrir árin 2022–2026. „Hann stendur að sjálfsögðu upp úr, það var risastór dagur,“ segir Karen.
Karen hefur í nægu að snúast en hún er aðstoðarskólastjóri Tónlistarskóla Reykjanesbæjar, er stjórnandi Lúðrasveitar verkalýðsins og stýrir einnig Bjöllukór Tónlistarskóla Reykjanesbæjar.
„Fólk segir að það hægist um hjá manni eftir því sem árin færast yfir – en því er sko ekki þannig háttað hjá mér,“ segir hún brosandi og bendir á skrifborðið sitt sem er yfirfullt af allskyns skjölum og vinnupappírum. „Yfir jólatímann er vertíð hjá Bjöllukórnum en við höfum spilað með Sinfóníuhljómsveit Íslands á jólatónleikum frá árinu 2012 – og oftast í sólóhlutverki. Núna erum við að fara að spila með Sinfóníunni í Hörpu um næstu helgi og það verður þá í ellefta skipti sem við spilum með henni.“
Karen segir að oftast spili Bjöllukórinn frammi í anddyri fyrir gesti áður en tónleikarnir hefjast og einnig eftir tónleikana. „Þeim finnst svo jólalegt að heyra í bjöllunum og það er þannig, bjöllukórar eru mjög jólalegir – enda erum við búin að vera að æfa jólalög frá því í ágúst.“
Langaði að sameina þetta tvennt
Karen hefur einnig stýrt Lúðrasveit verkalýðsins undanfarin ár og hélt lúðrasveitin tónleika í Stapa í síðasta mánuði þar sem fram komu nokkrir einleikarar úr hópi framhaldsnemenda Tónlistarskóla Reykjanesbæjar auk Bjöllukórsins.
„Ég byrjaði með Lúðrasveit verkalýðsins í janúar 2018, það eru komin fimm ár, svo þetta er það sem ég lifi og hrærist í alla daga.
Það eru svo flottir krakkar hér í skólanum, svo er ég að vinna með þessari flottu lúðrasveit í Reykjavík og mig langaði að sameina þetta tvennt. Svo það varð úr að halda tónleika hér og vera með sólóista héðan, mér fannst það takast mjög vel enda rosalega flottir krakkar sem spiluðu með sveitinni.“
Það voru fjórir einleikarar úr Tónlistarskóla Reykjanesbæjar sem komu fram á tónleikunum; Sara Dvjetkovic lék á píanó, Bergur Daði Ágústsson á trompet, Guðjón Steinn Skúlason á saxófón og Magnús Már Newman lék bæði á sílafón og sneril.
„Þau voru svo flott og stóðu sig svo vel, gaman að því,“ segir Karen og er augljóslega stolt af nemendum skólans. „Þau voru alveg glæsileg og það eru ennþá fleiri krakkar í skólanum sem hefðu getað komið fram. Það er svo ótrúlega flottur hópur af krökkum sem er hér – og það er svo gaman að þau eru til í allt. Krökkunum finnst ekkert mál að æfa jólalög með Bjöllukórnum – jafnvel þótt það sé ennþá sumar.“
Lúðrasveit verkalýðsins fagnar sjötíu ára afmæli á næsta ári Karen segir margt vera framundan hjá sveitinni.
„Lúðrasveit verkalýðsins verður sjötíu ára 8. mars á næsta ári svo við erum að plana stórtónleika, veislu og svo ætlum við að fara til Skotlands í sumar – en hér er alltaf eitthvað á döfinni og maður er alltaf að vinna í einhverjum skemmtilegum verkefnum.“
Áttu þér einhver áhugamál fyrir utan tónlist?
„Ég hef oft hugsað út í það hvort ég ætti að finna mér áhugamál – þetta er bara svo skemmtilegt, að vinna við eitthvað sem þú hefur gaman að.
Ég ætlaði alltaf að verða lögfræðingur eins og pabbi ... en það gerðist ekki. Ég giftist og flutti hingað. Tónlistin var alltaf með mér, ég fæddist inn í tónlistarfjölskyldu og tók gráður í tónlist alveg eins og í stærðfræði. Þú veist, ég ætlaði í lögfræði. Svo þróaðist þetta og ég er ekki ósátt með það,“ segir Karen og leggur áherslu á orð sín með látbragði. „Ég er mjög sátt með hvar ég er í dag, fæ að lifa og hrærast í tónlist alla daga og vinna með öllum þessum krökkum. Það er svo gefandi að fá að fylgjast með þeim vaxa úr engu og ná að blómstra, það er ótrúlega gaman,“ segir listamaður Reykjanesbæjar að lokum.