Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Mannlíf

Ég er virkilega spenntur að koma í Hljómahöllina
Miðvikudagur 21. september 2022 kl. 11:45

Ég er virkilega spenntur að koma í Hljómahöllina

– segir uppistandarinn Bergur Ebbi

Bergur mun sýna uppistandssýninguna Kynslóðir í Hljómahöll föstudaginn 23. september klukkan 20:00. Sýningin var fyrst sýnd í Tjarnarbíói í vor og sýndi Bergur fyrir fullu húsi kvöld eftir kvöld þar til lagst var í sumardvala. Hann tók upp þráðinn á ný nú í september og munu bæjarbúar Reykjanesbæjar fá að upplifa heila kvöldstund af hlátri í sínum heimabæ. 

Bergur hefur ekki aðeins sýnt uppistand sitt í Tjarnarbíói en hann fór með sýninguna á „ferðalag“ um landið. „Ég fór aðeins út á land, kom meðal annars fram á Akureyri og Dalvík. Mér finnst ótrúlega gaman að taka sýningarnar aðeins á ferðalag. Þó það sé ekki langt að fara til Reykjanesbæjar þá er það samt smá ferðalag og annar hópur áhorfenda og þar af leiðandi kannski aðeins öðruvísi viðbrögð. Ég læri alltaf rosalega mikið af því og er spenntur fyrir kvöldinu,“ segir hann. 

Alltaf líf og fjör í Reykjanesbæ

Bergur segist hafa gaman af því að koma fram í Reykjanesbæ. „Við komum þarna fyrir nokkrum árum Mið-Ísland hópurinn og það var virkilega skemmtilegt „gigg“. Svo hef ég komið í framhaldsskólann öðru hvoru með uppistand, verið á einhverjum kúttmagakvöldum hjá íþróttafélögunum og þegar ég var í hljómsveit spilaði ég á Paddy’s, það er alltaf líf og fjör að koma í Reykjanesbæ.“ 

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Aðspurður hverju áhorfendur mega búast við á föstudaginn segir Bergur: „Maður reynir alltaf að sauma eitthvað inn sem tengist bæjarfélaginu sem maður er að koma fram í en svo er ég með mitt „prógram“, sem ég er búinn að vera að þróa undanfarið ár eða svo.“ Þá segir hann að ef vel tekst til gætu sýningar í Reykjanesbæ orðið árlegur liður. „Ég er peppaður fyrir þessu og mjög þakklátur fyrir hvað það hefur gengið vel að selja miða og ef að það gengur vel, sem ég býst við, þá langar mig að huga að því að koma aftur einhvern tímann. Það væri gaman ef þetta yrði fastur liður, að koma kannski einu sinni á ári í Reykjanesbæ. Ég er mjög spenntur fyrir að leggja grunn að því.“

Það eru mörg verkefnin sem Bergur tekur sér fyrir hendur en hvað er framundan hjá honum? 

„Það er allt mögulegt, ég er með sjónvarpsþætti sem verða sýndir á RÚV eftir áramót. Ég er að gera þá með Snorra Helgasyni en þeir eru byggðir á hlaðvarpinu okkar Fílalag. Svo er ég að vinna í stærri verkefnum sem er lengra í að verði að verði að veruleika. Ég keyri bara áfram með þessa sýningu [Kynslóðir] og kem líka fram í ýmsum öðrum verkefnum á meðan,“ segir Bergur að lokum.