Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Mannlíf

„Ég er ekki lesbísk“
Thelma Hrund. VF-mynd: Sólborg
Fimmtudagur 18. janúar 2018 kl. 05:00

„Ég er ekki lesbísk“

-Thelma Hrund Helgadóttir skilgreinir sig sem tvíkynhneigða og er ósátt með að fólk tali um það sem tímabil

„Ég hef orðið ástfangin af strák og ég hef líka orðið ástfangin af stelpu. Það er særandi þegar fólk segir við mig að ég vilji bara ekki koma út úr skápnum „alla leið“,“ segir Thelma Hrund Helgadóttir, en hún skilgreinir sig sem tvíkynhneigða og er ósátt með það að fólk tali um tvíkynhneigð sem einhvert tímabil.
„Þetta tímabil er þá greinilega mjög langt hjá flestum. Þetta eru alvöru tilfinningar sem verið er að tala um. Hjá mér skiptir það í raun engu máli af hvaða kyni manneskjan er. Fólk hefur sagt við mig að ég sé lesbísk og þegar ég svara því neitandi hefur það sagt að ég muni átta mig á því fyrr en síðar að svo sé. Ég er ekki lesbísk þó ég hafi verið með stelpu, rétt eins og ég er ekki gagnkynhneigð því ég hef verið með strák.“

Tvíkynhneigð ekki ákvörðun
Thelma kom út úr skápnum fyrir tæpu ári síðan en þá hafði hún nokkrum sinnum orðið hrifin af stelpum en verið í ákveðinni afneitun með það. „Þegar þetta gerðist aftur og aftur vissi ég að þetta var komið til að vera og ég vildi segja umheiminum frá því. Ég gat loksins bara sagt: „Hæ, svona er ég“ og það var ótrúlega góð tilfinning. Það er enginn eins og ég og ég ætla bara að vera stolt af því,“ segir Thelma, en hún segir það hafa þurft mikinn kjark að koma út úr skápnum og að hún myndi aldrei taka það bara „hálfa leið“. Þá hefur fólk einnig talað um það sem hennar ákvörðun að vera tvíkynhneigð en Thelma segir það bara ekki virka svoleiðis. „Ég vaknaði ekkert bara einn morguninn og ákvað að vera það.“

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

„Farið í sleik“
Thelmu þykir fólk klámvæða það þegar stelpur laðist að öðrum stelpum. Hún hefur heyrt fólk, en þá aðallega stráka, tala um það hversu heitt það sé að hún hrífist af stelpum en hún segist þó ekki skilja hvað það eigi nú eiginlega að þýða. „Ef ég á að segja eins og er þá finnst mér það ekkert ofboðslega heitt að heyra að það sé heitt. Þá finnst mér strákar vera að segja að ég velji það að vera með stelpum til að ganga í augun á þeim, en þetta er ekki þannig,“ segir hún. Þá hefur hún einnig lent í því að strákar ýti henni á aðrar stelpur og segi þeim að fara í sleik. „Þetta er bara niðrandi. Ég er ekkert með stelpum því einhverjum finnst það svo heitt.“

Thelma verður ekki hrifin af öllum stelpum, rétt eins og hún verður ekki hrifin af öllum strákum. „Fólk gerir oft ráð fyrir því að ég verði skotin í öllum stelpum. Gagnkynhneigð vinkona mín verður ekki hrifin af öllum strákum sem hún hittir.“

Fordómar í garð hinsegin fólks eiga ekki að líðast
Á dögunum fjölluðu fjölmiðlar um það þegar ungur strákur var laminn í miðbæ Reykjavíkur fyrir það eitt að að vera samkynhneigður. Varðandi það mál og fordóma í garð hinsegin fólks segir Thelma að svoleiðis eigi ekki að líðast. „Erum við ekki komin lengra en þetta? Ég gæti alveg eins búið það til í hausnum á mér að tvíkynhneigðir séu bestir og að ég ætli bara að fara og berja alla þá sem eru það ekki. Það er fáránlegt að einhver þarna úti skuli hugsa svona um mann, bara fyrir það eitt að maður er maður sjálfur. Getum við ekki bara öll lifað okkar lífi og virt náungann?“

„Það var öllum sama í kringum mig“
Thelma Hrund tók þátt í fræðslumyndbandi hjá Samtökunum 78 fyrir nokkrum árum síðan þar sem hún útskýrði kynhneigð sína og sagðist þá vera gagnkynhneigð. „Þá leið mér svolítið skringilega. Ég var í kringum fólk sem var hrifið af alls konar fólki og ég vissi að þetta myndband yrði sett á netið. Ég var alltaf að reyna að vera önnur en ég var, eins ömurlegt og það er að segja það.“ Thelma var hrædd við fordóma, hrædd við viðbrögð fólks og hrædd við það að henni yrði ekki tekið nákvæmlega eins og hún væri. „Þegar ég loksins kom út tóku allir því svo vel. Ég skildi ekki hvernig ég gat búið til allt þetta drama í hausnum mínum. Það var öllum alveg sama í kringum mig. Vinir mínir vildu áfram vera vinir mínir, fjölskylda mín vildi áfram vera fjölskylda mín, ég bjóst ekkert við því, en það gerðist. Mér líður hundrað sinnum betur í dag.“

Sýnir karakter að vera þú sjálfur
Þegar aðrir sjá að Thelma Hrund, bara venjuleg manneskja, gat komið út úr skápnum segist Thelma vona að þeim finnist þau þá geta gert það líka. „Ég fer varla út úr húsi án þess að stelpur segi það við mig að þær væru alveg til í að vera með öðrum stelpum. Þetta þarf ekki að vera svona mikið mál, fólk verður bara að stíga út fyrir þennan blessaða ramma,“ segir hún og hvetur fólk til að láta bara vaða. „Þú veist ekki hvað er fyrir utan skápinn fyrr en þú opnar hann. Það sýnir miklu meiri karakter að koma út og vera þú sjálfur heldur en að vera eitthvað annað alla ævi fyrir einhverja aðra.“

[email protected]