„Ég er að fara úr besta starfi í heimi“
Gylfi Jón Gylfason kveður þakklátur starf fræðslustjóra í Reykjanesbæ.
„Ég er ekki sár og svekktur. Þetta er bara það sem fylgir því þegar gerðar eru skipulagsbreytingar og lækkuð laun um leið. Þá taka menn ákvörðun um að vera ekki með á lakari kjörum en þeir voru. Ég hef unnið með núverandi bæjarstjóra og meirihluta algjörlega af heilum hug í þessum hagræðingum. Ég hefði aftur á móti hiklaust haldið áfram ef ekki hefði orðið að þeim. Ég er að fara úr besta starfi í heimi,“ segir Gylfi Jón Gylfason, fráfarandi fræðslustjóri Reykjanesbæjar. Hann dró umsókn sína um auglýst starf fræðslustjóra til baka fyrir skömmu.
Gylfi Jón ásamt skólastjórum grunnskólanna í Reykjanesbæ.
Gylfi Jón segist hafa fullan skilning á því að það þurfi að hagræða. „Ég er sammála því að það þarf að skoða launaliðinn, hann er það stór hluti af fjárhag bæjarins. Ég keyri 2000 km á mánuði til og frá vinnu, þetta eru 20-25 stundir. Ef ég fæ vinnu á höfuðborgarsvæðinu þá er það tími sem ég get notað með fjölskyldunni í staðinn.“ Hann sinnti starfi fræðslustjóra í bráðum fjögur ár og hefur verið hjá Reykjanesbæ eiginlega allan sinn starfsferil frá því hann kom úr námi, fyrst sem yfirsálfræðingur, því næst deildarstjóri sérfræðiþjónustu og síðast fræðslustjóri.
Í Öspinni í Njarðvík ásamt Unnari Ragnarssyni, sem byggði húsnæði Asparinnar.
Skólabærinn Reykjanesbær
„Ég held að fólk geri sér almennilega ekki grein fyrir hvílíku grettistaki kennarar og starfsmenn leik- og grunnskóla hafa náð. Það var árviss viðburður í pólitík að fræðslustjóri væri tekinn á teppið þegar niðurstöður samræmdra prófa voru birtar og hann krafinn um aðgerðir og skýringar. Sá tími er einfaldlega liðinn. Við erum í dag þekkt sem skólabær og mér finnst magnað að sjá að við förum úr því að vera undir landsmeðaltali á samræmdu prófunum í að vera á eða yfir landsmeðaltali í fimm af sjö,“ segir Gylfi Jón. Á sama tíma eigi sér stað gríðarleg endurskipulagning á innra starfi leikskólanna. Í skóla eftir skóla útskrifist 80% nemenda stautandi upp í grunnskóla. „Við erum búin að flétta læsi og stærðfræði inn í allt starf á leikskólunum frá tveggja ára aldri. Svo vil ég auðvitað bara segja að við eigum flottasta tónlistarskóla á Íslandi og sennilega í Evrópu.“
Ipad-væðing í grunnskólum í Reykjanesbæ.
Fingraför og fótspor um allt land
Hvað tekur við? „Ég er bara dálítið með fiðrildi í maganum því ég veit ekki hvað tekur við. Það eru þreifingar, en þetta er voða skrýtið og mér finnst einkennilegt að vera á biðlaunum. Ég er hugsjónamaður og hjarta mitt slær í þeim takti að ég vil hag barna á Íslandi sem mestan og tel að það séu mikil sóknarfæri í menntakerfinu,“ segir Gylfi Jón og hann telur einnig að hægt sé að breyta og gera betur í menntamálum án þess að það kosti mikið fé. „Fingraför og fótspor okkar í dag má finna um land allt, t.d. Í Hvítbókinni, leiðsagnarriti mennamálaráðuneytisins. Einnig leita önnur sveitarfélög til okkar sem fyrirmynda. Á síðasta ári vorum við með skólatúrisma, fórum upp í að finna gistingu fyrir vel á annað hundrað manns sem voru komin til þess að kynna sér skólamál. Ég er líka sjálfur búinn að fara nánast um allt land til að kynna þau.“
Á fræðsluskrifstofunni.
Yrði gerð bíómynd um stærra samfélag
Þótt Gylfi Jón búi í Hafnarfirði segist hann vera Suðurnesjamaður, alinn upp hérna og vita hvernig skórnir eru troðnir. „Við eigum svo margt sem við getum verið stolt af. Við eigum að ala börnin okkar í því að það sé frábært að búa á Suðurnesjum og vera héðan. Þess vegna er ég svo stoltur af því að hafa fengið að vera með kennurunum í því að gera Reykjanesbæ að skólabæ.“ Spurður um hvað hann muni mest sjá eftir segir Gylfi Jón: „Kraftinum, jákvæðninni og gleðinni sem hefur einkennt starfið. Þessi tilfinning að vera meðvitaður um það að á hverjum degi var þessi samhenti hópur að skrifa skólasögu. Ef við værum stærra samfélag yrði gerð bíómynd um svona árangur. Þó ég fari þá slær hjartað hér áfram og ég er einn af þeim sem segi hátt hvaðan ég kem.“
Í Heiðarskóla ásamt menntamálaráðherra og skólastjórnendum.
Menntun arðbær á svo margan hátt
Gylfi Jón segir fræðslustjórastarfið hafa breytt honum sem manneskju. „Þetta er þannig starf að ef þú færð til þess umboð frá pólitíkinni þá getur þú breytt gríðarlega miklu. Ef þetta sem við lögðum upp með tekst, þá mun það breyta menntunarstigi í Reykjanesbæ algjörlega á næstu 5-10 árum. Þetta mun hækka tekjur, bæta menntun og renna traustum stoðum undir fjárhag bæjarins. Laun munu hækka hér og mannlíf verða betra og hamingjuríkara og börnunum líða betur. Það er númer eitt, tvö og þrjú. Við erum ekki bara að kenna, við erum að mennta Reykjanesbæ út úr kreppunni. Ég hef svo oft sagt að mér er sama um samræmdu prófin í sjálfu sér, mér er bara ekki sama hvað þau mæla. Ef þú ert kominn í landsmeðaltal og yfir þá eru þér allir vegir færir hvað varðar störf og nám. Brottfallshópurinn mun minnka af því að fleiri munu öðlast þessa færni,“ segir Gylfi Jón að lokum.
VF/Olga Björt