Eftirminnilegt þegar bróðir afa spændi í sig Mackintoshið
Ljósmynd af gallsteinum úr henni sjálfri frá eiginmanninum er eftirminnilegasta jólagjöf Guðlaugar Maríu Lewis en hún svarar hér nokkrum jólaspurningum.
Jólabíómyndin sem kemur þér í jólaskap? The Holiday og Love Actually eru auðvitað æði og svo er aldrei leiðinlegt að horfa á Colin Firth í Bridget Jones’s Diary.
Sendir þú jólakort eða hefur Facebook tekið yfir? Facebook hefur algerlega tekið yfir jólakortin. Leiðinlegt en satt.
Ertu vanaföst um jólin, er eitthvað sem þú gerir alltaf um hátíðarnar? Jólin eru auðvitað nokkurn veginn fastir liðir eins og venjulega sem er auðvitað það sem gerir þau svo skemmtileg.
Eftirminnilegasta jólagjöf sem þú hefur fengið? Ljósmynd af gallsteinunum úr sjálfri mér frá eiginmanninum. Ofsalega falleg mynd en tilfinningarnar voru vægast sagt blendnar þegar ég áttaði mig á af hverju hún var.
Er eitthvað eftirminnilegt í huga þér frá yngri árum þínum á jólum? Það eftirminnilegasta eru aðfangadagskvöld á Faxabrautinni hjá ömmu og afa. Allan uppvöxt minn kom hluti stórfjölskyldunnar þar saman og borðaði jólamatinn og tók upp gjafir. Hátíðleikinn og spenningurinn léku þar stórt hlutverk. Ótrúlegt hvað uppvask getur tekið langan tíma þegar maður er barn. Svo var það auðvitað spenningurinn yfir því hver hlyti möndluna.
Langeftirminnilegasta aðfangadagskvöldið er þó það þegar bróðir afa, sem var einstæðingur, var sóttur á Hlévang til að borða með okkur og hann spændi upp í sig Mackintoshið sem ung frænka hafði fengið í möndlugjöf og verið svo kurteis að bjóða öllum einn mola. Hann þurfti svo auðvitað með reglulegu millibili að hleypa út lofti sem safnaðist upp við allt sælgætisátið. Þetta þótti mér drepfyndið og hefur fjölskyldan oft grátið úr hlátri við að rifja upp þessa skemmtilegu sögu.
Hvað er í matinn á aðfangadag? Við borðum alltaf svínahamborgarhrygg með öllu tilheyrandi. Svo hefur sú hefð skapast með mínum börnum að ég geri alltaf súkkulaðimús með hindberjum af því syni mínum finnst hún ómissandi.
Hvenær finnst þér jólin vera komin? Jólin eru komin þegar ilmurinn af hamborgarhryggnum fyllir húsið og þegar ríkisútvarpið hringir inn jólin kl. 18 með messunni.
Hefur þú verið eða gætirðu hugsað þér að vera erlendis um jólin? Hef aldrei verið erlendis á jólum og finn ekki til löngunar til þess.
Áttu þér uppáhaldsjólaskraut? Þegar ég var barn var uppáhaldsjólaskrautið mitt látúns englakertastjaki, þessi með fjórum mjóum kertum og þegar kveikt var á snerust englarnir í hringi og það klingdi í bjöllunum. Mér fannst alltaf mjög hátíðlegt þegar ljósin voru kveikt á þessum kertum.
Í hitteðfyrra færði hún Valgerður Guðmundsdóttir mér svo að gjöf svona stjaka sem hún keypti á jólamarkaði í Þýskalandi af því hun mundi eftir mér segja söguna af þessu. Mér þótti mjög vænt um það.
Hvernig verð þú jóladegi? Jóladegi ver ég á náttfötunum fram á miðjan dag. Þá klæðum við okkur upp á nýjan leik og förum í mat til foreldra minna ásamt Erni bróður mínum og hans fjölskyldu. Þar fáum við oftast ferskt lambakjöt. Svo spilum við og höfum gaman.