Eftir hverju ertu að bíða?
- Helga Jóhanna Oddsdóttir segir að metnaðarfullt fólk leiti til markþjálfa
Helga Jóhanna Oddsdóttir úr Keflavík stóð á tímamótum og segist hafa verið farin að þrá tilbreytingu og nýja nálgun í starfi sínu sem mannauðsstjóri. Hún hafi ekki viljað staðna og átti sér draum um að ná lengra. Helga Jóhanna ákvað að stíga út fyrir þægindarammann eftir að hafa velt upp ýmsum spurningum um sjálfa sig eins og þeirri hvort hún gæti selt þjónustu sína til einstaklinga og fyrirtækja. Því næst losaði hún sig við mítur um sjálfa sig, spurði sjálfa sig spurningarinnar „Eftir hverju ertu að bíða?“ og settist á skólabekk að nýju til að læra markþjálfun. Nú hefur hún lokið náminu og stofnað fyrirtæki undir nafninu Carpe Diem. Þar hefur Helga nóg að gera. Fjóra daga vikunnar starfar hún á höfuðborgarsvæðinu en einn dag í viku er hún á Suðurnesjum þar sem hún tekur m.a. á móti fólki á skrifstofu sinni í frumkvöðlasetrinu Eldey á Ásbrú. Helga settist niður með Hilmari Braga Bárðarsyni blaðamanni og sagði frá markmiðum sínum.
Helga stofnaði Carpe Diem í mars 2012 eftir að hafa starfað sem stjórnandi á mannauðs- og rekstrarsviðum frá árinu 2000. Á meðal fyrri starfa má nefna að hún sat í framkvæmdastjórn Opinna kerfa og stýrði mannauðs- og rekstrarsviði, var starfsþróunarstjóri Reykjanesbæjar og forstöðumaður á starfsmannasviði Landsbanka Íslands auk þess að hafa verið fræðslustjóri Íslandsbanka FBA og sérfræðingur á starfsmannasviði FBA.
Helga er viðskiptafræðingur með M.Sc. í stjórnun og stefnumótun frá Háskóla Íslands og lauk B.Sc. gráðunni einnig þaðan. Auk þess er hún markþjálfi frá Coach University og Háskólanum í Reykjavík og með ACC vottun frá alþjóðasamtökum markþjálfa, ICF.
Höfðar til þeirra sem vilja bæta árangur sinn
Markmið starfseminnar hjá Carpe Diem er að veita ráðgjöf til stjórnenda og starfsmanna fyrirtækja sem vilja bæta árangur sinn og innleiða skilvirkari vinnubrögð. Helga segir að flest verkefnin felist í ráðgjöf í mannauðs- og rekstrartengdum málefnum fyrirtækja og stofnana en að auki hafa fjölmargir sóst eftir fyrirlestrum og námskeiðum sem þá eru haldin innan fyrirtækjanna, í sölum víðsvegar um landið eða í frábærri aðstöðu Carpe Diem að Ásbrú.
„Ég hef brennandi áhuga á rekstri og þróun fyrirtækja auk þess að njóta mín hvað best þegar ég sé samstarfsfólk og viðskiptavini ná árangri og vaxa í lífi og starfi. Þá skipar markþjálfunin orðið stóran sess í öllu sem ég tek mér fyrir hendur og mun gera það hvort sem ég held áfram með fyrirtækið mitt eða ræð mig í fasta stöðu á spennandi stað,“ segir Helga.
- Hvað er markþjálfun?
„Markþjálfun er skipulagt og kerfisbundið samtalsform sem byggir á trúnaðarsambandi milli viðskiptavinar og markþjálfa. Ég segi að markþjálfun sé leið til að breyta því sem þú vilt breyta og þannig stuðla að auknum lífsgæðum. Ferlið er bæði krefjandi og skemmtilegt samtal sem stuðlar að auknum persónulegum þroska og betri árangri í lífi og starfi“.
- Hvernig fer markþjálfun fram?
„Markþjálfun fer fram með reglubundnum einka- eða hópsamtölum og byggir á ferli spurninga og persónulegri uppgötvun. Markþjálfun styðst við verkefni og viðurkenndar aðferðir og fer fram með stuðningi, endurgjöf og hvatningu markþjálfans. Það má segja að hjá markþjálfanum sért þú að verja þín markmið. Markþjálfinn situr með þér í lokuðu rými og samtalið fer fram í algjörum trúnaði. Rýmið er algjörlega öruggt svæði fyrir þig til að segja allt sem þér liggur á hjarta. Þar segir þú alla þína drauma og langanir og hvert þú vilt ná í lífinu. Það er síðan markþjálfans að leiða þig áfram með spurningum sem veita þér nýja sýn á málin“.
„Ég get þetta ekki“
„Við markþjálfar erum þjálfuð í að hlusta undir yfirborðið og hlusta á það sem er ekki sagt og þannig hjálpum við fólki að kortleggja hvað það ætlar að gera. Við trúum því að það er ekkert nema hausinn á okkur sem hindrar okkur í að ná markmiðum og við erum stundum að bögglast með einhverja gamla drauga og gamlar staðhæfingar um „að þetta er ekki eitthvað fyrir mig“ og „ég get þetta ekki“,“ segir Helga þegar hún er beðin um að lýsa markþjálfuninni. „Markþjálfun fer fram á þínum forsendum og þjónar þínum viðfangsefnum og vexti. Hún opnar í senn tækifæri til sjálfsskoðunar og nýrra sóknartækifæra í lífi og starfi“.
Metnaðarfullt fólk leitar til markþjálfa
Helga segir það að fara til markþjálfa sé ekki eins og að mæta í viðtal hjá sálfræðingi eða hjónabandsráðgjafa.
„Það halda margir að það þurfi eitthvað að vera að svo það leiti til markþjálfa. Það er samt ekki þannig. Það er metnaðarfullt fólk sem leitar til markþjálfa. Það er mín reynsla. Fólk sem er á góðum stað og á góðri leið með að ná þeim markmiðum sem það hefur sett sér en vill bara þetta auka forskot og tækifæri til að spegla hugmyndir sínar og hugsanir.
Markþjálfi er þessi bandamaður sem dæmir þig ekki og hefur ekki skoðanir fyrir þig,“ segir Helga og bætir við að fólk sé oft hrætt við að fara eftir eigin sannfæringu. „Við hjálpum hins vegar fólki að lifa lífinu til fulls og víkka sjónarhornið eða fá önnur sjónarhorn á viðfangsefni sín“.
Hún segir markþjáfun vera fyrir þá sem vilja ná hámarksárangri og þá sem standa frammi fyrir ögrandi verkefnum. Einnig fyrir þá sem vilja finna betra jafnvægi á milli vinnu og einkalífs og vilja draga úr streitu og þá sem vilja skipuleggja líf sitt betur út frá eigin forsendum, vilja vinna betur með samstarfsfólki eða kjósa að breyta um stefnu.
Eitthvað fyrir frumkvöðla og einyrkja
Eins og áður segir starfar Helga á Suðurnesjum einn dag í viku. Suðurnesjamenn hafi tekið vel í þjónustu hennar. Hins vegar séu margir sem ættu að kynna sér betur hvað hún geti gert fyrir þá en Helga hefur náð góðum árangri með frumkvöðlum sem hafa verið að stíga sín fyrstu skref og eins einyrkjum sem hafa verið að fara út í rekstur.
Mannauðsstjóri til leigu
Þó svo að Helga sé komin á kaf í markþjálfun þá hefur hún ekki sagt skilið við mannauðsstjórnunina. Hún veitir ráðgjöf á sviði mannauðsmála í gegnum fyrirtæki sitt, Carpe Diem. Ráðgjöfin hentar vel þeim fyrirtækjum sem ekki hafa starfandi mannauðsstjóra, eru í örum vexti eða að fara í gegnum breytingar.
Helga býður einnig þjónustu sem kallast „Mannauðsstjóri til leigu“ en hún felst í því að ráðgjafi Carpe Diem hefur fasta viðveru innan fyrirtækja til lengri eða skemmri tíma og styður við stjórnendur og starfsfólk.
„Einnig aðstoða ég fyrirtæki og stofnanir við stefnumótun í málaflokknum og tek að mér einstök verkefni s.s. ráðningar starfsfólks, undirbúning vegna starfsmannasamtala, aðstoð við kjaramál, innleiðingu breytinga, framkvæmd starfsloka o.fl.
Ágætt dæmi um aðstoð sem mannauðsstjóri getur veitt í fyrirtækjum er að létta álagi af stjórnendum, og veita þeim þannig meiri tíma til að takast á við stóru málin“ segir Helga Jóhanna Oddsdóttir.
Texti og myndir: Hilmar Bragi Bárðarson // [email protected]