Efnileg söngkona ættuð úr Garðinum
– Anna Halldórsdóttir í viðtali við Guðmund í Garðinum
Fyrr í sumar auglýsti Heklan eftir bloggurum sem hafa áhuga á því að kynna Reykjanes og það sem Suðurnesjamenn eru að gera í samfélagsmiðlum.
Nokkrir pennar hafa tekið við sér og eru farnir að blogga eða setja inn myndir af Reykjanesi. Miðlarnir sem hægt er nota eru fjölbreyttir s.s. tumblr, twitter, instagram, pinterest, flickr, youtube og vimeo. Hægt er að velja einn miðil eða fleiri.
Einn af þeim er bloggarinn Guðmundur Magnússon, sem kallar sig Guðmund í Garðinum. Hér að neðan má sjá nýjustu færslu Guðmundar.
Anna Halldórsdóttir er ung og efnileg söngkona, ættuð frá Borg í Garði. Anna hefur búið í Rússlandi mest alla ævi með foreldrum sínum, þar sem faðir hennar Halldór Þorsteinsson starfaði við gæðaeftirlit á fiski, fyrst 1993 til 1996, þá á Kamchatka til sjós á togara við gæðaeftirlit í vinnslu Alaska ufsa. 1998 kom hann aftur til landsins, þá til Perm við reykingu og marineringu fisks fram til 2000, en fluttist þá til Murmansk. Árin þar á milli var hann í Afríku við vinnslu Nílarkarfa.
Anna á eitt ár eftir í barnatónlistarskóla, aðalverkefnið er einsöngur, þar fyrir utan nótnalestur, tónfræði, píanó, kór og kvartett.
Þau feðginin Anna og Halldór koma reglulega til Íslands í heimsókn. Náttúran, ættingjarnir, Garðmenn í heild og nálægð við sjóinn draga þau hingað. Það er einnig mikill léttir segja þau að koma á fámennan stað og að hafa pláss í kringum sig í staðinn fyrir blokkar- og borgarlíf.
Anna er mikill Íslendingur í sér og stolt af sínum löndum. Hún ber nafn ömmu sinnar Önnu Sumarliðadóttur og býr á Borg, húsinu þar sem faðir hennar ólst upp þegar hún er á Íslandi.
Afi og amma Önnu voru Þorsteinn Halldórsson fiskverkandi frá Vörum og Anna Sumarliðadóttir frá Meiðastöðum.
Anna hefur mikinn áhuga á tungumálum og talar mjög góða íslensku. Hún var nemandi við Gerðaskóla um tíma í 1. bekk og svo allan veturinn í 6. bekk og stundaði söngnám við Tónlistarskólann í Garði þann vetur, auk þess sem hún var í stúlknakór í Langholtskirkju og söng þá einsöng með kórnum inn á geisladisk.