Eflum konur á Suðurnesjunum!
Félagsskap sem ætlað er að efla konur á Suðurnesjunum verður hleypt af stokkunum nk. þriðjudag, 14. september, kl. 20:00 í húsnæði Miðstöðvar símenntunar á Suðurnesjum í Krossmóa 4. Upphafskonur að félagsskapnum eru þær Anna Lóa Ólafsdóttir, náms- og starfsráðgjafi hjá MSS og Þóranna K. Jónsdóttir, verkefnastjóri Frumkvöðlasetursins á Ásbrú.
„Þessi hugmynd kviknaði hjá mér fyrir nokkuð löngu síðan,“ segir Anna Lóa. „Mig langaði að hvetja konur hér á svæðinu til frekari dáða í námi og starfi og efla tengslanet hér á svæðinu. Við héldum óformlegan könnunarfund í vor til að athuga hvort áhugi væri til staðar og mætingin og áhuginn fór fram úr okkar björtustu vonum. Svo nú ætlum við bara af stað.“
Þær stöllur hvetja konur af öllum Suðurnesjunum til að koma og vilja sérstaklega hvetja konur annars staðar en úr Reykjanesbæ til að fjölmenna. „Tengslanet okkar Önnu Lóu er aðallega hér í Reykjanesbæ, en við viljum fá konur alls staðar af svæðinu, svo að konur úr Vogum, Grindavík, Sandgerði og Garði eru sérstaklega hvattar til að koma. Við ætlum okkur að hafa gaman saman og leggjum upp með einkunnarorðin: gleði - kraftur - sköpun.“ segir Þóranna að lokum.
Markmið félagsskaparins er:
Fræðast og fræða - efla okkur sjálfar og um leið hvor aðra.
Styðja konur á Suðurnesjum til dáða í námi og starfi.
Efla tengslanet kvenna á svæðinu.
Fundir verða svo haldnir fyrsta þriðjudag hvers mánaðar kl. 20:00 í húsnæði MSS í Krossmóa 4 og eru allar Suðurnesjakonur velkomnar.