„Ef eitthvað er skemmtilegt, þá vill maður mæta“
-Helgi Jónas Guðfinnsson gaf út sína aðra og þriðju bók fyrir jól
Helgi Jónas Guðfinnsson, styrktarþjálfari og höfundur Metabolic þjálfunarkerfisins, gaf nýlega út tvær bækur, Little Lessons on HIIT og Little lessons on Basketball Conditioning. Sú fyrrnefnda er til sölu á Amazon.com og er um HIIT æfingar, eða High Intensity Interval Training, sem er tegund þolþjálfunar þar sem æft er af mikilli ákefð í stuttan tíma í senn með hvíldarpásum, eins konar skorpuþjálfun. Sú síðarnefnda er um þolþjálfun körfuboltafólks og er hægt að nálgast hana ókeypis á rafrænu formi.
Helgi Jónas er fyrrum atvinnumaður og landsliðsmaður í körfubolta, en hann sneri sér að þjálfun eftir að hafa lagt skóna á hilluna sem leikmaður og var meðal annars aðstoðarþjálfari íslenska karlalandsliðsins. Undanfarin ár hefur Helgi þó einbeitt sér að styrktarþjálfun og bókaskrifum. Hann rekur Metabolic, sem er æfingakerfi sem hann hannaði sjálfur, og eru tíu Metabolic stöðvar starfræktar á landinu. „Metabolic kerfið var hannað með það í huga að gera líkamsræktina skemmtilega. Þannig að fólk nenni að koma og hugsi ekki sífellt innra með sér hvort það eigi að mæta eða ekki. Ef eitthvað er skemmtilegt þá vill maður mæta,“ segir Helgi. Aðspurður hvort hann telji það hafa tekist svarar hann að viðbrögð fólks séu á þann veg og fyrir hann persónulega hafi það tekist. „Mér fannst, eins og mörgum af mínum kúnnum, líkamsrækt ekkert sérstaklega skemmtileg í þeirri mynd sem flestir þekkja hana. Mér fannst ekki gaman að fara einn að lyfta í líkamsræktarsal. Ég lagði upp með að hafa tímana stutta enda bera flestir fyrir sig tímaleysi þegar kemur að því að stunda líkamsrækt.“
Metabolic er byggt á svipaðri hugmyndafræði og HIIT. Það er skorpuþjálfun, þar sem æft er í ákveðið margar sekúndur og hvílt inn á milli í ákveðið margar sekúndur, en ekki alltaf með eins mikilli ákefð og í HIIT. Bókin Little Lessons on HIIT fer nokkuð djúpt í fræði þjálfunarinnar og er hugsuð sem leiðarvísir fyrir þjálfara. Hún er á ensku, eins og aðrar bækur Helga, en á stefnuskránni er að fara með Metabolic kerfið til Bandaríkjanna. Bæði hún og fyrsta bók Helga, Where Fit Happens, sem hann skrifaði með virtum bandarískum þjálfara að nafni Greg Justice, hafa náð svokölluðum „best seller“ stimpli hjá Amazon. Bókin hefur fengið góð viðbrögð og segir Helgi það hjálpa sér að skapa sér nafn á bandarískum markaði.