„Ef ég get hjálpað unglingum að líða betur er ég glöð“
-Gunnhildur Gunnarsdóttir er nýr forstöðumaður 88 hússins og Fjörheima
„Ég vil láta eitthvað gott af mér leiða. Ef ég get hjálpað einhverjum unglingum með það að líða betur þá er ég rosaleg glöð,“ segir Gunnhildur Gunnarsdóttir, en í byrjun sumars var hún ráðin sem forstöðumaður 88 hússins og Fjörheima.
Gunnhildur, sem útskrifaðist fyrr á árinu sem uppeldis- og menntunarfræðingur, hefur alltaf sóst í það að vinna með börnum. „Ég var búin að vinna í fjögur ár sem starfsmaður í Fjörheimum. Þegar ég sá þetta starf svo auglýst fannst mér það mjög spennandi, að fá að vera sú sem skipuleggur og heldur utan um starfsemina. Ég var búin að fá smá reynslu sem forstöðumaður frístundaheimilisins í Myllubakkaskóla. Þar áttaði ég mig á því að ég væri til í að vera yfirmaður og að fá aðeins að koma inn með mínar hugmyndir, hafa áhrif og bera ábyrgð,“ segir Gunnhildur.
Hún segir uppeldis- og menntunarfræðina hjálpa sér mikið í sínu starfi og að það nám hafi kennt henni mikið um það hvernig hún gæti bætt sig sem einstakling. „Í þessu námi var mikið val og ég tók það eiginlega allt í tómstunda- og félagsmálafræði og lærðu þar af leiðandi mikið um félagsmiðstöðvar og ungmennahús. Námið kenndi mér svo rosalega mikið um samskipti við fólk og í rauninni bara hvernig maður á að ná árangri í daglegu lífi.“
Vilja að unglingarnir hafi gaman
Mikil og fjölbreytt starfssemi á sér stað, bæði í 88 húsinu, sem er ungmennahúsið, og einnig í félagsmiðstöðinni Fjörheimum. „Við hugsum fyrst og fremst um skemmtanagildi. Við viljum að unglingarnir komi hingað til að hafa gaman. Svo leggjum við mikla áherslu á forvarnir og í því samhengi finnst mér mjög mikilvægt að við starfsmennirnir séum góðar fyrirmyndir.“ Gunnhildur sjálf vill leggja áherslu á fræðslu um andlega líðan ungmenna og fá skólanna í bænum í samstarf. „Mig langar mjög mikið að tala um þessa andlegu líðan, út af öllum þessum fréttum um kvíða unglinga.“
Unglingarnir reka félagsmiðstöðina
Hún segir mikilvægt fyrir unglinga í nútímasamfélagi að gera eitthvað uppbyggjandi þegar tæknin sé svona mikil. „Unglingar hanga rosalega mikið heima og tala saman á netinu. Hér bjóðum við þeim að nýta frítíma sinn á uppbyggilegan hátt. Frístundir eru mikilvægar sem forvarnir og í átt að því að lifa heilbrigðum lífstíl.“
Í Fjörheimum er starfandi unglingaráð með 40 meðlimum, en þau sjá mikið um það að skipuleggja starf félagsmiðstöðvarinnar. „Við leggjum mikla áherslu á lýðræði í starfinu. Unglingarnir reka félagsmiðstöðina og við starfsmennirnir erum í rauninni bara þeirra hjálparhönd. Út á það gengur starfið hérna.“
Um það bil 40 ungmenni taka þátt í starfinu á hverju kvöldi, þrátt fyrir að stutt sé síðan starfið fór aftur af stað eftir sumarið. Gunnhildur segir það mikla bætingu og vill þakka starfsfólkinu sínu fyrir. „Við værum ekki að ná svona góðum árangri án þeirra. Þau eru rosalega dugleg og áhugasöm.“
Markmið Gunnhildar sem forstöðumanns er að ná að virkja krakkana og fræða þá um ýmis málefni. „Svo lengi sem ég næ góðri virkni í starfinu og finn að ég er að hafa jákvæð áhrif þá er ég sátt. Þetta er klárlega mitt svið, að vinna með börnum og unglingum. Ég hef gaman að því að eiga samskipti við þau og starfa með þeim, fyrir mér er það einhvers konar lífsfylling.“
Hægt er að kynna sér starfsemi 88 hússins og Fjörheima á Facebook.