Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Mannlíf

Dýrin í Hálsaskógi sett á svið í Sandgerði
Laugardagur 8. apríl 2017 kl. 06:00

Dýrin í Hálsaskógi sett á svið í Sandgerði

- Sviðsmynd smíðuð frá grunni og hátt í 200 búningar saumaðir

Árshátíð Grunnskólans í Sandgerði fór fram síðasta fimmtudag, 6. apríl. Elstu nemendur leikskólans Sólborgar ásamt nemendum úr 1. til 6. bekk grunnskólans settu leikritið Dýrin í Hálsaskógi á svið. Þeir voru með tvær sýningar og í tilkynningu frá skólanum segir að gestir hafi verið á einu máli um að einstaklega vel hefði tekist til. Nemendur lögðu allt í sýninguna og hafa stundað stífar söng- og leikæfingar undanfarnar vikur. Þá var mikil vinna lögð í að gera umgjörð leiksýningarinnar sem glæsilegasta. Leikmyndin var sérsmíðuð frá grunni og saumaðir voru hátt í 200 búningar. Húshljómsveitin sá um flutning tónlistar en hún samanstendur af kennurum grunn- og tónlistarskólans.

Árshátíð eldri nemenda fór svo fram um kvöldið og var hver bekkur með sitt atriði. Meðal efnis á dagskránni var kennaragrín þar sem nemendur í 7. bekk gerðu grín að kennurum skólans. Starfsmenn grunnskólans létu ekki sitt eftir liggja og fluttu nemendum 10. bekkjar kveðjusöng í Eurovision-stíl. Dagskránni lauk með rósaafhendingu og þá tók við ball fram undir miðnætti.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Nemendur í 10. bekk fengu afhendar rósir á árshátíðinni.

Húshljómsveitin samanstendur af kennurum úr grunn- og tónlistarskólanum.