Dýri slátrað og mikið drukkið
Sylvianne Moudi frá Kenýa kom til landsins árið 2006 sem flóttamaður og hefur búið í Reykjanesbæ síðan þá. Fyrstu tvö árin dvaldi hún á FIT hostel og var þar eina konan í hópi flóttamanna sem þar dvöldu. Hún segir dvölina þar hafa verið mjög erfiða en þrátt fyrir það tókst henni að gera litla herbergið sitt að heimili.
„Þetta var erfiður tími og óþægilegt að vera eina konan þar sem við þurftum t.d. að deila salernisaðstöðu. Flestir töluðu sitthvort tungumálið og bestu vinir mínir voru félagsráðgjafarnir.“ Eftir um 18 mánuði fékk Sylvianne dvalarleyfi á Íslandi af mannúðarástæðum og síðan þá hefur henni liði mjög vel á Íslandi og vill hvergi annars staðar vera. „Ég elska Ísland, veðrið, vatnið, friðinn og fólkið. Í hvert skipti sem ég ferðast til útlanda og meira segja til heimalands míns þá sakna ég Íslands.“
Sylvianne hefur lært íslensku, unnið í frystihúsi og á bílaleigu Hertz, stundað nám við Menntastoði á vegum MSS, Keilis og Fræðslumiðstöðvar Atvinnulífsins. Núna stundar hún nám við háskólabrú Keilis sem hún segir vera krefjandi undirbúning fyrir háskólanám. Stefnan er sett á háskólanám við Háskóla Íslands, jafnvel í íslensku fyrir útlendinga en Sylvianne hefur áhuga á að vinna sem túlkur fyrir útlendinga á Íslandi.
„Mér hefði aldrei dottið í hug þegar ég var að alast upp í Kenýa að ég myndi enda á Íslandi einn daginn. Ég vissi ekki einu sinni af landinu! En núna langar mig aðeins að vera á Íslandi og byggja mér líf hér.“ Sautján ára dóttir Sylvianne flutti til móður sinnar fyrir ári síðan og stundar hún nám við FS og verður blaðamaður undrandi á því þar sem dóttirin Vivianne talar nánast lýtalausa íslensku.
„Dóttir mín kom hingað haustið 2010 frá Kenýa og ég skráði hana strax í FS og hún var ótrúlega fljót að ná tungumálinu. Hún talar málið miklu betur en ég þó að ég sé búin að vera hér í 5 ár, en er það ekki þannig að ungt fólk á auðveldara með að læra nýtt tungumál?“ segir Sylvianne sposk á svip.
Aðspurð um jólin í Kenýa og þær hefðir sem þar finnast segir Sylvianne: „Jólin í Kenýa eru mjög falleg og snúast helst um að fjölskyldan sameinist alls staðar af landinu. Helsta hefðin er sú að við slátrum dýri, geit eða lambi en stærri fjölskyldur kaupa jafnvel kú.“ Um jólin gleðjast allir og fagna saman en hins vegar er svartur punktur sem skyggir svolítið á hátíðarnar en það er sú staðreynd að það er mikið um dauðsföll í kringum jólin og áramótin. Ástæðuna segir Sylvianne vera að fólk sem býr í stórborgum en er upphaflega frá landsbyggðinni ferðast mikið í stórum hópum til sveita til þess að eyða jólunum með fjölskyldum sínum. Í Kenýa eru vegir slæmir og það er oft hættulegt að vera í umferðinni þar sem það eru engin hraðatakmörk. Fólk keyrir því oft eins og brjálæðingar og oft undir áhrifum áfengis. Þetta magnast svo upp þegar svo margir ferðast á sama tíma eins og gerist rétt fyrir jól.
Þó að jólin séu fjölskylduhátíð er áfengisneysla almenn um hátíðarnar og flestir fá sér í glas. Það er hefð fyrir því að fólk fagni jólunum með drykk og þykir það ekkert óeðlilegt, nema þegar drykkjan verður það mikil að hún valdi vandræðum en Sylvianne segir það ekki algengt. „Hér á Íslandi er rosalega kyrrlátt um jólin, fólk heldur sig heima og slakar á. Í Kenýa er meira um háværa tónlist og veisluhöld.“
Sylvianne segist hrifin af jólaskreytingum Íslendinga en í Kenýa skreyti fólk ekki húsin hjá sér að utan vegna hættu á að skrautinu verði stolið. Inni á heimilum fólks er hins vegar skreytt. Allir eru með alvöru jólatré sem auðvelt er að fá og kostar lítið. Sylvianne finnst það ómissandi vegna góðu lyktarinnar sem það ber með sér. Aðspurð um jólasveininn segir Sylvianne hann vera vestrænt fyrirbæri og aðeins eitthvað sem kenýsk börn sjái í sjónvarpinu. Önnur hefð sem hún nefnir er að öll börn fá ný föt og skó um jólin, sem var alls ekki algengt í þá daga þegar Sylvianne var að alast upp. Jólin voru þá eini tíminn sem börnin fengu ný klæði.
Sylvianne stóð í ströngu fyrr í mánuðinum við próflestur og beið eftir að geta notið alls þess sem íslensk jólahátíð hefur upp á að bjóða. „Ég get ekki beðið eftir að fá mér hangikjöt!“ segir Sylvianne að lokum.