Dvergakast og Nóakúluvarp
Verslunarmannahelgi Suðurnesjamanna
Tinna Sigurbjörg Hallgríms er úr Vogunum og er framkvæmdastjóri Þróttar. Henni þykir langbest að vera á Flúðum um verslunarmannahelgina þar sem fjölskyldan tekur þátt í dvergakasti og Nóakúluvarpi.
Hvað á að gera um verslunarmannahelgina og hvert á að fara?
Undanfarin ár hef ég eytt mínum verslunarmannahelgum á Flúðum með fjölskyldu og vinafólki. Ég myndi segja að ég væri algjör sveitastelpa. Ég bý í litlum bæ og sæki mikið á Flúðir, þar líður mér best. Föðurfjölskyldan mín er búsett þar og eiga foreldrar mínir sumarhús þar. Systkini pabba og afkomendur eiga einnig sumarhús þarna á sama svæði og er því oftar en ekki fjölmennt á landinu okkar, er kallast Mýrin, þar um verslunarmannahelgina. Þar höldum við árlega okkar eigin fjölskylduleika/hálandaleika þar sem er keppt í hinum ýmsu þrautum eins og Nóakúluvarpi, dvergakasti og kassabílarallý, svo eitthvað sé nefnt. Að þeim loknum er síðan verðlaunaafhending og varðeldur. Þetta er algjörlega toppurinn á helginni. Þessa verslunarmannahelgina ætla ég einnig að vera á Flúðum, en aðeins fram á sunnudag. Þá tekur við smá ævintýraferð til Vestmannaeyja á Þjóðhátíð ásamt góðum vinum.
Hvað finnst þér einkenna góða verslunarmannahelgi og finnst þér eitthvað vera ómissandi um þessa helgi?
Það sem skiptir mig máli um verslunamannahelgina er að fara út úr bænum. Ég held að ég hafi bara aldrei verið heima hjá mér um verslunarmannahelgi. Þetta er viss hefð, sem ég er alin upp við og líkar mér það. Veðrið getur skipt máli, en nokkrir dropar skipta ekki miklu máli ef maður á rétta fatnaðinn. Einnig finnst mér skipta máli að vera með vinum eða ættingjum. Það er alltaf ávísun á góða helgi.
Er einhver verslunarmannahelgi sem er eftirminnilegri en aðrar hjá þér?
Sú verslunarmannahelgi sem er mér minnistæðust er án nokkurs vafa þegar ég fór á mína fyrstu Þjóðhátíð, árið 2001. Þá fór fullt af frábærum Vogabúum saman og einkenndist sú helgi af eintómri gleði og hamingju. Mér finnst að allir verði að upplifa þá stemningu sem ríkir í dalnum og brekkunni. Sérstaklega á sunnudagskvöldinu þegar brekkusöngurinn og blysin eru. Það er ólýsanleg tilfinngin að vera í brekkunni ásamt 10.000 öðrum, syngja saman og hafa gaman.