Dúxinn tók einn dag frí í hverri viku frá bókunum
Ágústa Pétursdóttir, 31 árs Hafnfirðingur, kom sjálfri sér mikið á óvart þegar hún varð dúx Háskólabrúar á nýliðinni haustönn hjá Keili á Ásbrú. Ágústa er í dag búsett í Mosfellsbæ ásamt manni sínum og syni. Fyrir utan að eyða tíma með strákunum sínum þá er hún að eigin sögn „hundanörd í húð og hár“.
Ágústa tók sér góðan umhugsunartíma áður en hún hóf nám á Háskólabrú í janúar 2022. Hún eignaðist ung son sinn, Alex, sem er í dag 12 ára gamall. Barnauppeldi og fjölskyldulíf tók í kjölfarið athyglina og þó hún hafi ávallt stefnt á það að hefja aftur nám á framhaldsskólastigi þá var auðvelt að fresta því. „Áður en maður vissi af voru þessi ár orðin nokkuð mörg“. Um árabil hefur Ágústa sinnt skrifstofustörfum í Bílapörtum ehf. sem er fjölskyldufyrirtæki mannsins hennar þar sem hún starfaði samhliða námi í Keili og gerir enn.
Lykillinn að velgengni
Þegar umræðan snýr að lyklinum að velgengni í náminu segir Ágústa mikilvægt að: „Taka einn dag í einu og númer eitt, tvö og þrjú er skipulag.“ Hún segir það hafa hentað sér mjög vel að lista niður öll þau verkefni sem sett voru fyrir vikulega og raða þeim niður á daga og jafnframt sé það ágætis þumalputtaregla að áætla meiri tíma en maður heldur í stærðfræðidæmin. Það er augljóst að Ágústa var afar skipulögð og lagði sig alla fram í sínum verkefnum, en leggur áherslu á að henni hafi þótt mikilvægt í öllu námsferlinu að: „Taka einn dag í viku frí frá bókunum“.
Keilir er að mati Ágústu einstakur skóli og segir hún að þar hafi ávallt verið tekið vel á móti henni og andrúmsloftið gott. Ágústa er skýr í svörum þegar hún spurð hvers vegna hún hafi valið að sækja um hjá Keili í stað annarra sambærilegra námstilboða. „Ég hafði heyrt mjög góðar reynslusögur frá fyrrum nemendum og ákvað því bara að láta vaða. Ég myndi tvímælalaust mæla með þessu námi, þetta er nám sem þú getur smíðað svolítið að þínum þörfum með aðstoð alls þess frábæra starfsfólks sem starfar við skólann. Ég hef alltaf átt frekar auðvelt með að læra og hef svolítið komist áfram á þrjóskunni. Hins vegar hefur mér þótt stærðfræði frekar erfið, eins og kannski mörgum, og kveið ég svolítið fyrir henni.
Gísli stærðfræðikennari hjá Keili gerði stærðfræðina hins vegar áhugaverða og á ég honum mikið að þakka hvernig gekk á þeirri braut enda alltaf boðinn og búinn að bjóða fram hjálparhönd.“ Ágústa er ekki ein um að vera stærðfræðikennaranum sínum sérstaklega
þakklát, en stærðfræðikennurum hjá Keili hefur ítrekað verið hælt af nemendum í gegnum árin. Í tveimur af þremur útskriftarávörpum nemenda á nýliðinni útskrift Keilis fengu stærðfræðikennararnir sérstakt hrós.
Ný markmið
Útskrift úr Háskólabrú Keilis eru stór tímamót og Ágústa hefur þegar sett sér ný markmið, en hana langar að halda áfram í námi og fara í háskólanám í viðskiptafræði. Fyrir utan það gæfuspor að hafa drifið sig í nám og lokið því, þá telur hún það helsta sem stendur upp úr á námstímabilinu að hafa kynnst „öllu þessu frábæra fólki sem hefur verið henni samferða í gegnum námið“.
Að lokum langar Ágústu að hvetja fólk sig til þess að drífa sig af stað í nám hjá Háskólabrú Keilis og beinir orðum sínum sérstaklega að þeim sem eru eitthvað efins með ákvarðanatökuna og segir: „Það er allt hægt og í raun ótrúlegt hvað þessi tími leið hratt hér í Keili“.