Karlakór Kef kertatónleikar
Karlakór Kef kertatónleikar

Mannlíf

Dúxaði í lagadeildinni á Bifröst
Fimmtudagur 10. febrúar 2011 kl. 10:09

Dúxaði í lagadeildinni á Bifröst

Snorri Snorrason, 33 ára laganemi úr Reykjanesbæ, náði þeim frábæra árangri að vera efstur í lagadeild við útskrift viðskiptalögfræðinga á Bifröst þann 5. febrúar sl. en hann útskrifaðist með B.S. gráðu. Ennfremur var hann með efstu einkunn í grunnnáminu yfir heildina á B.S-B.A stiginu í þeim þremur deildum sem skólinn skiptist í, viðskipta-, laga-, og félagsvísindadeild.

Snorri gekk í Fjölbrautaskóla Suðurnesja og líkaði mjög vel en líkamsræktarbakterían náði honum á vissum tímapunkti. „Ég sneri mér að einkaþjálfun sem ég vann svo við næstu 10 árin,“ sagði Snorri í samtali við Víkurfréttir. „Ég hélt því þó ekki áfram til æðri menntunar og hugsaði mér til hreyfings, þegar ég fann að hin fullkomna hilla fyrir mig var ekki ennþá fundin.“

Snorri hefur ávallt haft gaman af skák og var hún leiðarvísirinn að laganáminu. „Ég man að ég sat eitt sinn á skákmóti og horfði í kringum mig. Þar voru ekkert nema lögfræðingar! Það hlaut að vera eitthvað samband þarna á milli og það er það vissulega,“ sagði Snorri aðspurður af hverju hann hefði farið í laganám. „Báðar þessar greinar byggja á rökhugsun og þekkingu á vissu grundvallarregluverki og sjónarmiðum sem skila bestu niðurstöðunni ef rétt með þær er farið. Lögfræðin hlyti því að vera eitthvað fyrir mig. Með lögum skal land byggja og það á ekki síst við nú.“

Skólaganga Snorra var nokkuð fjölbreytt en hann byrjaði ferilinn í Myllubakkaskóla og lauk grunnskólanámi í Grunnskóla Sandgerðis. Þaðan fór hann í Fjölbrautaskóla Suðurnesja og í kjölfarið tóku við námskeið og kúrsar í einkaþjálfun. Síðan lá leiðin upp á Bifröst í frumgreinadeildina og svo í lagadeild og nú stundar Snorri meistaranám við lagadeildina og stefnir á málflutningsréttindi.

„Vinna! Þetta er í raun ekkert annað en yfirlega og að gera sér grein fyrir því að það eru forréttindi að fá tækifæri til menntunar og að slíkt tækifæri skuli nýta til fulls,“ sagði Snorri aðspurður hver væri lykillinn að þessum árangri. „Markmiðið er ekki einkunnin í sjálfu sér, heldur að verða sem færastur í þínu fagi og skila þeirri færni til þjóðfélagsins sem veitti þér tækifærið,“ bætti hann við.

Snorri útskrifaðist með 8,8 í lokaeinkunn í lagadeildinni og hlaut rífleg peningaverðlaun frá Sambandi íslenskra samvinnufélaga en þau verðlaun eru veitt þeim nema sem er með efstu einkunn yfir allar deildirnar. „Þessi einkunn er nokkuð góð miðað við það að yfirleitt er ekki gefið hærra en 9 fyrir lögfræðiverkefni og próf. Það þýddi að ég þurfti að vera nokkuð stífur á níunni eða að henni. Annars eru verðlaunin að mestu bara heiðurinn varðandi deildina sjálfa, það er heiður að fá að halda tölu við útskrift sem fellur í hlut þess sem er efstur.“

Framhaldið hjá Snorra er meistaranámið sem hann hefur þegar hafið. Í sumar mun hann að öllum líkindum fara á kúrsús hjá góðri stofu sem hefur þegar komið að máli við hann. „Kúrsús er í raun ekkert annað en mátun stofu og nema, þar sem neminn fer að vinna að lögfræðilegum undirbúningi mála fyrir stofuna.“ En hefur staðan hér á Íslandi ekkert haft áhrif á möguleikana? „Jú, að sjálfsögðu hefur það haft áhrif til þessa, en ekki má gleyma að kennarar manns eru gjarnan praktíserandi lögmenn og þeir eru fljótir að fiska þá út sem eru tilbúnir að taka á því. Það lýsir ennfremur þessum vinnumarkaði,“ sagði Snorri. „Fyrir hvað ertu þekktur? Vinnusemi og elju? Ráðinn!! Þó það sé hvergi auðvelt að fá vinnu í dag, en hvað er auðvelt? Hvað er erfitt? Hugurinn einn ákveður það.“

[email protected]

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024