Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Mannlíf

Dúx á leið í sólina á Mallorca
Mánudagur 26. maí 2003 kl. 10:38

Dúx á leið í sólina á Mallorca

Skólaslit vorannar og brautskráning Fjölbrautaskóla Suðurnesja fór fram sl. laugardag. Að þessu sinni útskrifuðust 82 nemendur; 58 stúdentar, 3 meistarar, 17 iðnnemar, 6 útskrifuðust af starfsnámsbrautum og tveir skiptinemar. Að venju veitti Sparisjóðurinn í Keflavík nemendum skólans viðurkenningar fyrir góðan námsárangur. Að þessu sinni hlaut Hildigunnur Kristinsdóttir viðurkenningu fyrir hæstu einkunn á stúdentsprófi og hún fékk auk þess viðurkenningar fyrir góðan árangur í stærðfræði og raungreinum og í samfélagsgreinum. Baldur Guðmundsson markaðstjóri Sparisjóðsins afhenti henni við það tækifæri 75 þúsund krónur til eigin ráðstöfunar. Hildigunnur Kristinsdóttir sagði í samtali við Víkurfréttir vera mjög ánægð með að vera útskrifuð úr fjölbrautaskólanum. „Ég er alveg í skýjunum og það er gaman að vera búin. Maður á nú samt eftir að sakna skólans“, sagði Hildigunnur. Hún sagði að síðasta önnin hefði verið langt frá því að vera erfið. „Ég var í tveimur áföngum og alltaf búin fyrir hádegi. Samt var alveg nóg að gera hjá mér við að safna peningum fyrir útskriftarferðinni og vinna með skólanum“. Aðspurð að því hvað sé það eftirminnilegasta við FS ef hún lýti yfir skólaárin segir hún busavígslan og útskriftin séu eflaust eftirminnilegustu dagarnir. Þessir dagar hafi verið byrjunin og endirinn á þessu öllu saman.
Nú fékkst þú viðurkenningar fyrir frábæran árangur í skólanum, var þetta eitthvað sem þú hafðir stefnt að eða kom þetta þér þægilega á óvart?
„Ég stefndi ekkert endilega á verðlaun heldur hafði ég bara sett mér þau markmið að gera alltaf mitt besta og að vera sátt við mína frammistöðu. Að fá viðurkenningu var svo bara mjög skemmtilegur bónus. Ég hef nú ekkert ákveðið hvað ég geri við peninginn sem ég fékk frá Sparisjóðnum en ég veit þó að hann mun koma að góðum notum, það er ekki spurning“.
Hvað er næst á dagskrá hjá dúxinum?
Það er útskriftarferð til Mallorca tveimur dögum eftir útskriftina. Síðan ætla ég að taka mér svona árs frí áður en ég fer í háskólanám og halda áfram að vinna á Garðaseli“.
Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024