Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Mannlíf

Dúkkuleiðsögn um komandi helgi
Mánudagur 26. september 2011 kl. 10:17

Dúkkuleiðsögn um komandi helgi


Sunnudaginn 2. október kl. 15:00 leiðir myndlistarkonan Valgerður Guðlaugsdóttir gesti um sýningu sína Dúkku, í sýningarsal Listasafns Reykjanesbæjar í Duushúsum.

Dúkka er níunda einkasýning Valgerðar en hún hefur á undanförnum árum einbeitt sér að reynsluheimi kvenmannsins í nútíma þjóðfélagi.  Verk hennar varpa fram áleitnum spurningum um mannseðlið, hlutskipti kynjanna og einnig samskipti þeirra.

Valgerður lítur á sig sem pop-feminista.  Í list sinni notar hún tilbúna hluti úr afþreyingariðnaðinum og blandar þeim saman við hluti úr sínum eigin hugmyndaheimi.  Á þessari sýningu veltir hún fyrir sér kvenímyndinni, hvernig konan reynir að uppfylla þá ímynd sem gefin er af henni í samfélaginu og hvernig hún fellir sig inn í munstrið sem henni er gefið en einnig hvernig hún getur verið sinn eigin skapari.

Sýningin er í sýningarsal Listasafns Reykjanesbæjar í Duushúsum og stendur til 16.október. Þar er opið virka daga frá kl. 12.00 – 17.00 og um helgar frá kl. 13.00 – 17.00 og aðgangur er ókeypis.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024