Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Mannlíf

„Drottningin kallar“ í Hljómahöll
Prestar Keflavíkurkirkju, þau Erla og Fritz og Arnór organisti við orgelið sem bíður endurbóta. VF-mynd/hilmarbragi.
Miðvikudagur 11. apríl 2018 kl. 09:58

„Drottningin kallar“ í Hljómahöll

-Styrktarkvöld vegna orgels Keflavíkurkirkju föstudagskvöldið 20. apríl

Velunnarar orgelsjóðs Keflavíkurkirkju standa fyrir hátíðarkvöldverði og tónleikaveislu í Hljómahöll þann 20. apríl n.k. og er viðburðurinn lokahnykkur í söfnun til endurbóta orgels Keflavikurkirkju. „Orgel eru oft kölluð drottning hlóðfæranna og þaðan kemur heitið, Drottningin kallar en þetta höfuðhljóðfæri kirkjunnar hefur ekki getað sinnt hlutverki sínu sem skyldi um hríð - sem er bagalegt fyrir kirkju með jafn ríkt tónleikastarf og Keflavíkurkirkja,“ segir Erla Guðmundsdóttir sóknarprestur Keflavíkurkirkju.
 
Endurbætur orgelsins eru því að sögn sóknarprestsins orðnar aðkallandi en í stað þess að kaupa nýtt orgel sem er kostnaðarsamt var tekin ákvörðun um að gera við gamla hljóðfærið og vantar aðeins herslumuninn upp á að viðgerð geti hafist. Fyrirhugað er að gera á því endurbætur þar sem nýjum röddum verður bætt við og skipt um mikilvæga hluta hljóðfærisins. Þetta mun gefa því aukinn hljóm og í rauninni nýtt líf auk þess sem ásýnd söngloftsins mun breytast þar sem útlit orgelsins verður meira í samræmi við bogalínur kirkjuskipsins.
 
Allir þeir sem taka þátt í viðburðinum gefa vinnu sína en fram kemur fjöldi tónlistarfólks sem vill styðja við þetta þarfa framtak. Að sjálfsögðu stígur kór Keflavikurkirkju á svið og aðrir kórar sem starfa þar eins og Vox Felix og skapandi starf en þar að auki munu aðrir þekktir tónlistarmenn og velunnarar kirkjunnar stíga á stokk. Að sögn Erlu vantar aðeins herslumuninn upp á að sóknin nái því markmiði að safna uppí þá tölu sem tilboð Björgvins Tómassonar, orgelsmiðs, hljóðar uppá. Fyrir aðeins fáeinum árum var fjarlægur draumur að ná þessu en sú staðreynd að komið er svo nálægt markinu er öðru fremur til marks um velvild íbúa á Suðurnesjum í garð Keflavíkurkirkju og samtakamátt. Án stuðnings þess hóps hefði þessu markmiði aldrei verið náð.
 
„Við gerum ráð fyrir glæsilegu kvöldi og tónlistarskemmtun og gestir geta um leið látið gott af sér leiða. Orgelnefnd Keflavíkurkirkjur hvetur fólk til að koma og njóta þessa kvölds og þannig styðja við verkefnið,“ segir sóknarpresturinn.
 
Miðasala fer fram í Keflavíkurkirkju og er miðaverð kr. 10.000 sem rennur óskipt í orgelsjóð Keflavíkurkirkju.
Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024