Drifinn áfram af sköpunarþrá
„Stóllinn hans stóð við gluggann sem sneri að Keflavíkurkirkju. Undir glugganum var gamla útvarpið sem tók heila eilífð að hitna. Ég man sérstaklega eftir honum hlustandi á fréttirnar, veðrið og svo útvarpsmessuna á sunnudögum. Þá sat hann með sálmabókina við höndina og merkti við þá sálma sem þulurinn tilkynnti að yrðu sungnir. Hann lét raddirnar í útvarpinu um sönginn, en fylgdist sjálfur með í sálmabókinni. Tvær bækur lágu við hlið útvarpsins. Önnur var sálmabókin, hin geymdi Passíusálmana.“
Innblástur frá afa
Með þessum orðum að ofan hefst inngangur Sigurðar Sævarssonar, tónskálds úr Keflavík, í pésa sem fylgir nýútkomnum diski með verki Sigurðar, Hallgrímspassíu. Þar lýsir hann tilurð verksins og þeim innblæstri sem þessi æskuminning varð honum. Segir Sigurður svo frá að mörgum árum síðar þegar hann sat við dánarbeð afa síns hafi hann kvatt þennan heim þyljandi Passíusálmana eins og upp úr svefni. „Frá þeim degi var aldrei spurning um annað en að ég semdi tónlist við Passíusálmana,“ segir Sigurður.
„Það fylgdi Passíusálmunum ákveðin stemmning þó maður vissi ekkert um textann. Maður vissi bara að ekki mátti hlaupa um gólfin á meðan verið var að lesa þá. Textann tók maður ekkert inn fyrr en að ég fór að vinna verkið og lesa mig í gegnum hann,“ segir Sigurður, sem hóf að vinna verkið árið 2002 eftir að hafa velt því fyrir sér í talsverðan tíma hvernig verk hann ætlaði að semja. „Ég var um tíma að velta því fyrir mér að hætta við þetta, en einhver þreyta hafði gert vart við sig. Svo fékk ég styrk frá Menningarnefnd Reykjanesbæjar sem ýtti mér aftur af stað. Þó styrkupphæðir standi aldrei undir allri þeirri vinnu sem lögð er í svona verk þá eru þær engu að síður ákveðin hvatning. Góð viðbrögð Harðar Áskels í Hallgrímskirkju við hugmyndinni urðu líka til þess að ég var ákveðinn í að klára þetta“.
Útsett á Reykjanesbrautinni
Hallgrímspassía var frumflutt í Hallgrímskirkju föstudaginn langa árið 2007. Verkið fékk einróma lof gagnrýnenda og sagði Ríkharður Örn, gagnrýnandi Morgunblaðsins meðal annars: „Fleira er matur en feitt kjöt, og heillandi ófeimni Sigurðar við látlausan ferskleika leiddi fram fjölda bráðfallegra augnablika, ekki sízt hljómrænna, sem eftir 50 ára skraufþurran akademisma verkuðu furðu nýstárleg…Það var auðheyrt að mergjaður andi Passíusálmanna hafði gefið jafnt höfundi sem flytjendum og stjórnanda byr undir báða vængi, að ógleymdri safaríkri meðferð Jóhanns Smára á burðarhlutverki guðspjallaskáldsins. Eftir slíka úrvalstúlkun er varla að efa að þetta gullfallega verk eigi eftir að lifa með þjóðinni.“
Endanleg útgáfa verksins lá fyrir nokkrum mánuðum áður en það var flutt, að sögn Sigurðar, sem viðurkennir að tónsmíðin hafi kostað talsverða yfirlegu.
„Þetta er þó ekki samfelld vinna. Við tónsmíðar finnst mér ágætt að leggja frá mér verkið í nokkra daga og leyfa því að „hefast”. Koma svo ferskur að því aftur í staðinn fyrir að sitja yfir því og rembast við að ná einhverju fram. Það virkaði vel að taka sér pásu frá því annað slagið. Hins vegar er það þannig að verk í smíðum sækir stöðugt á mann. Af þeim sökum er maður oft að útsetja á Reykjanesbrautinni,“ segir Siggi og skellir upp úr.
Lítið í skúffunni
Mikil vinna liggur að baki útgáfu á tónverki, útsetningar, hljómsveitaræfingar og mikil yfirferð á upptökum, breyta því sem ekki gengur upp, sníða af vankanta og feikna eftirvinnsla. „Þar fyrir utan er ég minn eigin útgefandi og sé sjálfur um dreifingu disksins, sem er gefinn út í eitt þúsund eintökum. Eins og stendur er ég að borga með þessu, þrátt fyrir að kórinn og hljómsveitin hafi gefið sína vinnu við upptökurnar og þegið eingöngu þóknum við tónleikahaldið. Miðað við viðbrögðin og aðsóknina við flutning verksins geri ég mér vonir um að ná inn fyrir kostnaði. Það er yfirleitt þannig í skapandi greinum, hvort sem það er í tónlist eða öðru, að hafa fyrir kostnaði. Aðalmálið er að koma sköpun sinni frá sér án þess að ganga nærri sér fjárhagslega“.
- En er tónskáldið með fleiri verk á prjónunum?
„Já, ég er skrifa verk fyrir bassasöngvara og kammersveit, sem flutt verður á myrkum músíkdögum í lok janúar, og er við ljóð Snorra Hjartarsonar.
Dagana 20. – 21. janúar verður hljóðritað verk eftir mig í Skálholtskirkju en það samdi ég síðasta sumar þegar ég var staðarskáld í Skálholti. Verkið heitir Missa Pacis (messa friðar). Það verður svo flutt aftur á Myrkum músíkdögum“.
- Áttu eitthvað uppsafnað í skúffunni?
„Nei, harla lítið. Ég reyni alltaf að koma verkum frá mér jafnóðum, finn alltaf þörfina til að klára það sem er að brjótast um í manni. Það litla sem ég á í skúffunni er eitthvað sem ég hef ekki náð að klára almennilega.“
Alveg vonlaus á kvöldin
-Hvernig er að vera tónskáld á Íslandi í dag?
„Hún er nokkuð lífseig myndin í hugum fólks af tötrum klæddum manni, búandi á óupphituðum hanabjálka og fórnað hefur öllu fyrir listsköpun sína. Þetta er kannski ekki alveg þannig en það er vissulega barningur og basl að reyna að lifa af þessu. Ég veit um tvö tónskáld sem hafa lífsviðurværi af þessu hér á landi. Þess vegna eru flestir með einhverja aðra vinnu meðfram tónsmíðunum, oftast tónlistarkennslu,“ svarar Sigurður, sem sjálfur hefur fengist við tónlistarkennslu og er í dag skólastjóri Nýja tónlistarskólans.
Tónsmíðum sinnir hann helst á morgnana. „Það er sá tími sem ég er virkastur. Ég er alveg vonlaus á kvöldin. Þarf ekki nema svona þrjá tíma á morgnana, þá er það bara fínt. Ég veit ekki alveg með þessa mýtu um að listamenn vinni best svangir, það þyrfti að gera fræðilega úttekt á því. Til eru slíkar sögur úr tónlistarsögunni eins og af Debussy sem samdi verk fyrir kolasölumanninn í skiptum fyrir kol svo hann gæti haldið á sér hita. Svo eru til sögur af mönnum eins og Sebilius sem komst á föst ríkislaun og samdi aldrei nótu eftir það.
En hvað sem líður afkomu tónskálda þá er það alltaf fyrst og fremst sköpunarþráin sem drífur mann áfram. Tekjumöguleikarnir eru ekki miklir nema helst að maður kæmist í einhverja dreifingu erlendis en ég hef svo sem verið að vinna að því. Það getur vel verið að eitthvað detti inn. Maður er bara ánægður að fá að starfa við það sem hugur manns stendur til, fá að sinna ástríðunni og vinna með öllu þessu frábæra tónlistarfólki. Það eru forréttindi.“
-Ertu fyllilega sáttur við diskinn?
„Ég er búinn að leggja allt í þennan disk. Þegar maður er búinn að eyða einhverjum árum í verk sem þetta er maður ekki til í að láta það frá sér öðruvísi en fullkomlega sáttur, enda er diskurinn endapunkturinn á þessu langa ferli. Diskurinn varð að vera algjörlega eins og ég vildi hafa hann,“ svarar Sigurður.
Þess má geta að diskurinn er fáanlegur í Eymundsson og hljómplötuverslunum. Hægt er að hlusta á tóndæmi á heimasíðu Sigurðar á slóðinni www.sigurdursaevarsson.com
-elg
Myndir: Jóhann Smári Sævarsson á efri myndinni við æfingar á Hallgrímspassíu í Hallgrímskirkju. Sigurður Sævarsson á svarthvítu myndinni.