Dreymir um að synda út í Eldey
Hálfdán Freyr Örnólfsson í Reykjanesbæ hefur lagt stund á sjósund í nokkur ár en þessi iðja hefur átt sívaxandi vinsældum að fagna. Hér á Suðurnesjum eru ekki margir sem stunda sjósund en Hálfdán hyggst breyta því. Hann stundar sjósund af miklu kappi og undirbýr nú sund yfir Ermasundið í sumar, báðar leiðir. Hálfdán er einn tveggja Íslendinga sem synt hefur frá Skrúð til lands en það var ekki talið gerlegt vegna mikilla strauma. Hann segir æðsta drauminn að synda út í Eldey. En fyrst ætlar hann að sigra Ermasundið.
„Þeir sem fara ofan í og höndla þessar 30 sekúndur sem þú þarft að vera ofan í á meðan líkaminn er að kólna, tala um upplifun eða tilfinningu sem er eiginlega ekki hægt að lýsa. Fólk fær ákveðið kikk út úr þessu. Þá er þetta jafnframt ákveðin snerting við náttúruna. Mér finnst æðislegt að synda í tærum sjó og vera bara frjáls,“ svarar Hálfdán inntur eftir því hvað það er sem fólk sækist eftir við sjósundið.
Nánara viðtal við Hálfdán er í Víkurfréttum í dag.
----
VFmynd/elg - Garðskagi er í uppáhaldi hjá Hálfdáni en þar fer saman lítill straumur og mjúk sandfjara.