Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Mannlíf

Drengjakór frá Búlgaríu með tónleika í Ytri-Njarðvíkurkirkju
Föstudagur 2. júní 2023 kl. 10:07

Drengjakór frá Búlgaríu með tónleika í Ytri-Njarðvíkurkirkju

Dagana 2.- 6. júní næstkomandi verður alþjóðlega drengjakórahátíðin „The Boys are Singing“ haldin á Íslandi í fyrsta sinn. Á hátíðinni tekur Drengjakór Reykjavíkur á móti Sofia Boys Choir frá Búlgaríu sem er meðal virtustu drengjakóra Evrópu. Hér er á ferð einstakur viðburður í íslensku tónlistarlífi.

Kórarnir syngja saman á þrennum tónleikum, í Skálholtsdómkirkju þann 3. júní kl 13:00, í Hallgrímskirkju 4. júní kl 14:00 og í Ytri-Njarðvíkurkirkju þann 5. júní kl 17:00. Á tónleikunum koma fram alls 50 söngvarar á aldrinum 8-20 ára sem flytja fjölbreytta efnisskrá þar sem íslensk og búlgörsk tónlist verður í fyrirrúmi. 

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Hátíðin er styrkt af Íslandi, Noregi og Liechtenstein gegnum EEA Grants, Barnamenningarsjóði og Tónlistarsjóði. Ókeypis er inn á tónleikana í Skálholti og í Ytri-Njarðvíkurkirkju. Almennt miðaverð á tónleikana í Hallgrímskirkju er 2000 krónur en ókeypis er fyrir börn 16 ára og yngri.

Drengjakór Reykjavíkur er eini drengjakór Íslands. Kórinn var stofnaður árið 1990 (upphaflega sem Drengjakór Laugarneskirkju) og fagnaði því 30 ára starfsafmæli árið 2020. Drengjakór Reykjavíkur hefur nú aðsetur í Neskirkju undir stjórn Þorsteins Freys Sigurðssonar sem hefur stjórnað kórnum síðan 2019. Drengjakór Reykjavíkur skipa um 20 drengir á aldrinum 8-15 ára sem syngja fjölbreytta tónlist af ýmsum toga, trúarlega og veraldlega, gamla og nýja. Fræðslu um tónlist er fléttað inn í kórstarfið þar sem sönggleðin er í fyrirrúmi. Drengjakór Reykjavíkur heldur árlega jóla- og vortónleika, kemur fram við ýmis tilefni og tekur þátt í fjölbreyttum verkefnum, nú síðast Carmina Burana með Sinfóníuhljómsveit Íslands í Eldborgarsal Hörpu 1. júní.

Sofia Boys Choir er elsti drengjakór í Búlgaríu, stofnaður árið 1968. Stjórnandi kórsins til ársins 1989 var Liliana Todorova en það ár tók Prof. Dr. Adriana Blagoeva við stjórnartaumunum og hefur stjórnað kórnum síðan. Kórinn syngur mjög fjölbreytta tónlist allt frá 14. öld til okkar daga og heldur fjölda tónleika á hverju ári, þar á meðal árlega jóla- og páskatónleika sem sérstök hefð er fyrir. Kórinn hefur gefið út tólf geisladiska og einn mynddisk og hefur sungið inn á átta plötur með öðrum listamönnum. Undir stjórn Blagoeva hefur Sofia Boys Choir auk þess unnið til fjölda verðlauna í alþjóðlegum kórakeppnum. Árið 1997 stofnaði Blagoeva ungmennadeild kórsins, sem skipuð er eldri söngvurum sem áður sungu með drengjakórnum. Ungmennakórinn hefur unnið til fjölda verðlauna í Búlgaríu og á alþjóðavettvangi.
Sofia Boys Choir hefur ferðast víða og komið fram á tónleikum víða um lönd, þar á meðal í Japan. Hann kemur nú í fyrsta sinn fram á Íslandi í samstarfi við Drengjakór Reykjavíkur.

Hátíðin er styrkt af Íslandi, Noregi og Liechtenstein gegnum EEA Grants, Barnamenningarsjóði og Tónlistarsjóði. Ókeypis er inn á tónleikana í Skálholti og í Ytri-Njarðvíkurkirkju. Almennt miðaverð á tónleikana í Hallgrímskirkju er 2000 krónur en ókeypis er fyrir börn 16 ára og yngri.

Viðburður á Facebook:
https://fb.me/e/SvcXPQmJ

Aðrir hlekkir:
www.drengjakor.is
www.facebook.com/drengjakor
https://theboysaresinging.com/
https://www.youtube.com/@theboysaresinging
https://www.facebook.com/TheBoysAreSinging/
https://www.instagram.com/theboysaresinging/?hl=bg
https://twitter.com/Interna17187181