Dream Catcher í 88 Húsinu í kvöld
Spennandi sölusýning opnar í 88 Húsinu í dag þar sem þeir Davíð Eldur Baldursson og Þorbjörn Einar Guðmundsson sýna undir merkinu Dream Catcher.
Á sýningunni, sem verður í kjallara 88 Hússins, má sjá fjölbreytt verk þeirra félaga en þar á meðal eru ljósmyndir, digital-art myndir, akrýlmálverk og fatnaður sem er merktur hönnun þeirra, Dream Catcher. Þetta er önnur sýning þeirra félaga en á þeirri fyrstu seldist nær allt sem þeir sýndu.
Þorbjörn, eða Bjössi eins og hann er jafnan kallaður, sagði í samtali við Víkurfréttir að .eir hefðu fengið góð viðbrögð við fatnaðinum sem þeir eru að þróa, en hann myndi falla undir skilgreininguna streetwear. „Ég er graffitilistamaður og er á hjólabrettum á meðan Davíð er kvikmyndamaður og ljósmyndari þannig að við vinnum þetta út frá okkur, “ segir Bjössi og bætir því við að sýningin muni sennilegast standa í 2-4 vikur.
„Svo eru verslanir að athuga með að taka föt frá okkur í umboðssölu og við erum líka að fara að opna heimasíðu á næstu mánuðum,“ bætir hann við þannig að ljóst er að þeir félagar stefna hátt. Þeir hyggjast fara lengra út í þróun á fatamerkinu og stefna jafnvel á frekara nám í listaháskóla eða einhverju þvílíku.
Á sama tíma og sýningin er verður Tónaflæði í kaffihúsinu þar sem hljómsveitirnar Kiló, Spaceman, Cheese, Lost Word og About Blank koma fram, en einnig verður graffitikeppni í Svartholinu á meðan. Húsið opnar kl. 19.
VF-mynd/Þorgils