Draumurinn að efla alla aldurshópa
Stórhuga lýðheilsufulltrúi Sandgerðisbæjar.
„Ég var ekkert endilega að leita að öðru starfi en þegar ég sá auglýsinguna fannst mér starfslýsingin skemmtileg og eiga vel við mig. Er mjög ánægð með að reyna fyrir mér í þessu,“ segir Rut Sigurðardóttir, lýðheilsufulltrúi hjá Sandgerðisbæ. Hún tók við þessu nýja starfi í september sem gengur út á að skipuleggja alls kyns íþrótta- og frístundastarf í bænum. Blaðamaður Víkurfrétta hitti hana í húsnæði bæjarskrifstofunnar.
Mest gefandi þegar vel tekst til
Rut er frá Akureyri og hefur búið í Reykjanesbæ í 8 ár, þar sem hún var íþróttakennari áður en hún tók við starfi lýðheilsufulltrúa. Þá þjálfar hún í Sporthúsinu á morgnana og aðstoðar eiginmann sinn, Helga Rafn Guðmundsson, í að þjálfa nemendur í taekwondo. „Allt sem ég starfa við eru áhugasvið mín. Það er mest gefandi þegar vel tekst til og fólk er ánægt með það sem ég geri.“ Rut hóf starfið með því að leggja könnun fyrir alla nemendur grunnskólans um hvers konar námskeið og annað þau hefðu áhuga á að boðið yrði upp á. „Ég er svolítið að verða við þeirra óskum og ætla að þróa það áfram. Ég er að fara af stað með ýmiss námskeið handa grunnskólabörnum,“ segir Rut. Þá sér hún mikið um að skipuleggja, búa til auglýsingar, fara í skólana að hitta krakka, kennara og skólastjóra. Einnig fer hún í Miðhús að hitta eldri borgara og í íþróttamiðstöðina.
Eldri borgarar rosalega duglegir
Heilsueflingarátak hefur verið fyrir eldri borgara síðan í nóvember, m.a. stafganga og jóga. „Stafgangan átti að hætta fyrir skömmu en það kom ósk frá þeim um að halda áfram alla vega mánuð í viðbót. Það er alltaf að bætast í hópinn og þetta gengur vel. Þau ganga í öllum færum og eru rosalega dugleg.“ Fyrstu vikuna í mars verður heilsuvika fyrir alla aldurshópa. Rut finnst spennandi hvað verður hægt að vinna úr því. Ef það er eitthvað sem fólk hefur áhuga á vill hún endilega koma því í framkvæmd. „Minn draumur er að efla þetta enn betur. Bjóða upp á eitthvað fyrir alla aldurshópa, bæði hreyfingu og alls kyns frístundastarf, “ segir Rut hress að lokum.