Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Mannlíf

Draumur átta ára gamallar stúlku að rætast
Jóhann Páll Kristbjörnsson
Jóhann Páll Kristbjörnsson skrifar
sunnudaginn 17. desember 2023 kl. 12:50

Draumur átta ára gamallar stúlku að rætast

Emelía Sara Ingvadóttir er ungur klarínettu-leikari úr Reykjanesbæ sem hefur lokið stúdents-prófi frá Menntaskóla í tónlist [MÍT] og undirbýr sig fyrir burtfararpróf frá Tónlistarskóla Reykjanes-bæjar.
Emelía mun koma fram á jólatónleikum Sinfóníuhljómsveitar Íslands um næstu helgi þar sem hún leikur Hin fyrstu jól eftir Ingibjörgu Þorbergs ásamt tveimur sellóleikurum.

Hvenær byrjaðir þú að læra á klarínett?

„Ég var átta ára þegar ég byrjaði að læra. Af hverju ég valdi klarínett veit ég eiginlega ekki, það bara gerðist,“ segir Emelía. „Ég setti það sem aukahljóðfæri en var svo bara sett á það – það má segja að klarínettið hafi valið mig.“

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Emelía hefur síðan þá verið við nám í Tónlistarskóla Reykjanesbæjar og lauk þaðan grunn- og miðprófi áður en hún hélt í framhaldsnám í Menntaskóla í tónlist þaðan sem hún útskrifaðist sem stúdent.

Hvernig fannst þér sá skóli?

„Æðislegur. Fullt af nýjum hlutum sem ég var að læra,“ segir hún en Emelía einbeitir sér að klassískri tónlist og þangað leitar hugurinn.

„Núna er ég komin aftur í Tónlistarskóla Reykjanesbæjar og stefni á að ljúka burtfararprófinu héðan í vor. Þar að auki ætla ég líka að taka miðpróf á píanó en ég byrjaði að læra á það þegar ég var þrettán ára.“

Stígur á stóra sviðið

Emelía fær stóra tækifærið má segja nú í aðdraganda jóla en þá mun hún stíga á svið með Sinfóníuhljómsveit Íslands og leika lag Ingibjargar Þorbergs, Hin fyrstu jól.

„Ég hef ekki spilað áður með Sinfóníuhljómsveit Íslands en ég tók þátt í Ungsveit Sinfóníunnar. Þar sem ég þurfti að fara í áheyrnarprufur til þess að komast í hana. Það var ótrúlega skemmtilegt skref á mínum tónlistarferli,“ segir Emelía Sara.

„Þegar ég var átta ára gömul fór ég með mömmu á tónleika með Sinfóníunni og sagði þá við hana að ég ætlaði að spila í Eldborg með Sinfóníunni þegar ég yrði eldri og það er bara komið að því.“

Og hvernig leggst það í þig að þreyta frumraunina með Sinfóníuhljómsveitinni?

„Það er æðislegt – algjör draumur. Við erum tríó frá ungsveitinni, ég og tveir sellóleikarar, sem spilum eitt lag en ég stefni á að verða fullgildur meðlimur sveitarinnar þegar fram líða stundir.“

Á jólatónleikum Sinfóníuhljómsveitarinnar kemur einnig fram Bjöllukór Tónlistarskóla Reykjanesbæjar en hann er orðinn fastur liður í jólatónleikunum. Þá mun píanóleikarinn Jakob Grybos spila með Sinfóníuhljómsveitinni en hann er einnig nemandi í tónlistarskólanum og er núna við nám í MÍT.