Mannlíf

Draumur að komast að erlendis
Mynd: Helga Erla
Laugardagur 11. ágúst 2012 kl. 12:54

Draumur að komast að erlendis

-Segir hin 16 ára fyrirsæta Hafdís Hildur Clausen sem er með tilboð frá ítalskri Módelskrifstofu

Hafdís Hildur Clausen er 16 ára stúlka úr Keflavík sem er að vekja athygli víða sem fyrirsæta um þessar mundir. Hún hefur verið að vinna í Lífstíl í sumar en í haust ætlar hún að hefja nám í FS. Hún hefur verið í hestaíþróttum frá 6 ára aldri en fjölskylda hennar er á fullu í hestunum. Önnur áhugamál hennar eru dans og körfubolti. Þar nýtist hæðin henni eflaust vel en Hafdís er 1.80 cm á hæð.

Hafdís er á samning hjá Elite Model á Íslandi en hún er einn keppenda í aðþjóðlegri fyrirsætukeppni sem heitir Fresh Faces 2012.  Í október mun Traffic Models og modelmanagement.com velja 10 módel sem komast í lokakeppnina í Barcelona. Val þeirra mun ákvarðast af fjölda atkvæða og hvort að viðkomandi hafi það sem þeir eru að leitast eftir.

Bílakjarninn sumardekk 2024
Bílakjarninn sumardekk 2024


Hafdís var lengi vel í efsta sætinu í Fresh Faces International en hún er í 6. sæti þessa stundina. Til gamans má geta að þeir sem hafa komist í topp 10 í Fresh Faces hafa t.d. náð að landa samningum hjá Prada & Armani, Karl Lagerfeld og fleiri stórum nöfnum.

Hvernig kom það til að þú fórst að fást við fyrirsætustörf?
„Það má eiginlega segja að það hafi byrjað þannig að ég fór í myndatöku hjá áhugaljósmyndara og þar fann ég að þetta var eitthvað sem að ég hafði virkilegan áhuga á.“

Hefurðu áhuga á því að starfa í þessum bransa í framtíðinni?
„Já það er draumur minn að vinna við þetta í framtíðinni. Draumurinn er að fá vinnu við þetta erlendis þar sem að möguleikarnir eru fleiri. Ég er reyndar komin með eitt tilboð hjá módelskrifstofu á Ítalíu sem ég er að skoða í augnablikinu.

Hér að neðan er svo hlekkur þar sem hægt er að greiða Hafdís atkvæði í keppninni.

http://www.modelmanagement.com/model/hafdis-hildur/