Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Mannlíf

Draumastarfið í dag er að vinna með börnum
Föstudagur 25. febrúar 2011 kl. 09:22

Draumastarfið í dag er að vinna með börnum

Arnoddur Magnús Danks, 40 ára grunnskólakennari, starfar við Grunnskóla Sandgerðis en hann er einnig leikari. Hann hefur starfað við Grunnskólann í um tvö ár og líkar mjög vel enda ættaður þaðan. Arnoddur hefur lært ýmislegt um ævina eins og leikarann, kennarann, bardagalistir, skylmingar og margt fleira sem tæki langan tíma að telja upp. Hann bjó í 9 ár í Englandi og starfaði þar sem leikari en kom aftur heim til Íslands árið 2006 eftir mikinn rússibana.

„Ég lærði leikarann í East Fiveteen í Englandi og útskrifaðist með B.A.-gráðu í leiklist. Þá er ég í Félagi íslenskra leikara en var áður í Félagi breskra leikara en ég starfaði sem leikari í Bretlandi og bjó þar í 9 ár,“ sagði Arnoddur.

Oddur Maggi, eins og hann er oft kallaður, lærði sviðsbardagakennarann og hönnuð en það er sérfræðinám eftir leikarann og tekur það þrjú til fimm ár að verða fullgildur kennari. Oddur Maggi tók námið á þremur árum og er sá eini á Íslandi með þessa menntun. „Það sem felst í þessari menntun er að hanna bardagaatriði fyrir kvikmyndir, leikhús og sjónvarp og hvernig á að gera þau án þess að meiða andstæðinginn.“ Einnig er hann með fimmtu gráðu í Seiber- og Foyl skylmingum ásamt því að hafa lært japanskar, rómverskar og miðaldaskylmingar, hnífabardaga og meðferð skotvopna. „Ég tók líka á sínum tíma meistaranámskeið í Jujitsu, akito og mörgu fleira. Lærði aðeins hnefaleika, kickbox og fleiri bardagaíþróttir en eins og margir segja þá kann ég fullt af kínverskum orðum og hvað liggur á bakvið það,“ sagði Arnoddur og hló.

Arnoddur útskrifaðist sem gunnskóla- og framhaldsskólakennari frá Listaháskóla Íslands með meðaleinkunnina 9,09. Hann var ekki duglegur í grunnskóla og frekar erfiður nemandi að hans sögn. „Það er sennilega ástæðan fyrir því af hverju ég er svona góður með krakka sem eiga erfitt uppdráttar í skólanum að ég var einn af þeim þegar ég var nemandi. Ég kenni mikið Riddarahópnum, en það er hópur krakka með greiningar á bakinu og krakkar sem eiga við hegðunarvandamál að stríða en þetta eru mjög viðkvæmir og brothættir einstaklingar og kenni ég þeim aðallega íslensku.“

Draumastarf Arnodds var að verða leikari. „Það er mjög gaman að vera önnur persóna á sviði en það versta er að bransinn er svo leiðinlegur. Það er alltaf ákveðið smjaður fyrir ákveðnum aðilum til að hafa alltaf nóg að gera. Það getur verið þreytandi til lengdar og gafst ég upp á því þó mér hafi gengið mjög vel í Englandi,“ sagði Arnoddur aðspurður hvað draumstarfið hans væri. „Draumastarfið í dag er að vinna með börnum. Kannski að sjá um Stundina okkar, ég veit það ekki. Mér líður vel í Sandgerði og hugsa mér ekkert að fara héðan strax.“ Arnoddur og kærasta hans eiga von á barni í júní og stefna þau á að flytja til Sandgerðis í sumar. „Það er svo gott að vinna hérna og þessi bær er yndislegur svo ég gæti alveg hugsað mér að setjast hérna að,“ sagði Arnoddur að lokum.

[email protected]

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024