Draumastarfið hjá Össur
- Segir dúxinn Aníta Eva sem stefnir á nám í heilbrigðisverkfræði
Úskirftarathöfn Fjölbrautaskóla Suðurnesja fór fram um síðastliðna helgi og voru þar 98 nemendur brautskráðir. Að venju voru ýmsir nemendur verðlaunaðir fyrir góðan árangur en að þessu sinni var það hin 19 ára gamla Keflavíkurmær Aníta Eva Viðarsdóttir sem dúxaði við skólann. Aníta Eva hlaut 9,49 í meðaleinkunn en hún var nánast bara með níur og tíur á skólaferli sínum. Alls urðu tíurnar 27 og níurnar 21.
„Það er frábært að vera loks búin með námið en maður er ekki alveg að átta sig á því að þessu sé lokið,“ sagði Aníta Eva í samtali við Víkurfréttir. Hún segir lífið í FS hafa verið mjög skemmtilegt og þar hafi hún eignast marga góða vini. Hún velti því fyrir sér að fara í Menntaskólann Hraðbraut í Reykjavík en á endanum varð FS fyrir valinu. Hún lauk námi á þremur árum en hún varð 19 ára í febrúar síðastliðnum. Hún segist ekki hafa búist við svona góðum árangri þó svo að vel hafi gengið í náminu. Hún segist hafa metnað fyrir því að ná góðum árangri í skóla og þannig hafi það verið einnig í grunnskóla þar sem henni gekk einnig afar vel í náminu.
Aníta Eva fékk viðurkenningar frá skólanum fyrir góðan árangur í spænsku, ensku, stærðfræði og eðlis- og efnafræði. Aníta Eva fékk gjöf frá Danska sendiráðinu fyrir góðan árangur í dönsku, hún fékk einnig gjafir frá Íslenska stærðfræðafélaginu og Verkfræðistofu Suðurnesja fyrir árangur sinn í stærðfræði og frá Háskólanum í Reykjavík fyrir ágætan árangur í raungreinum. Þær hafa alltaf verið hennar sterkasta hlið.
Jarðfræði frekar en Íslenska
Aníta hlaut meðaleinkunn upp á 9,49 í gegnum skólaferil sinn í FS eins og áður segir en hún var bara með níur og tíur í einkunn ef frá eru taldir tveir áfangar í Íslensku. „Það dró mig aðeins niður en ég lagði mikla áherslu á erfiðan áfanga í jarðfræði þegar ég var að taka annað af þessum íslenskufögum í sumarskóla,“ segir Aníta sem fékk að sjálfsögðu 10 í þeim jarðfræðiáfanga. „Það er nú ekkert áfall að fá einkunnir fyrir neðan níu,“ segir Aníta og hlær.
Hún stefnir á nám í Háskóla Reykjavíkur í haust þar sem hún hyggst leggja fyrir sig heilbrigðisverkfræði. Það hefur verið á stefnuskránni hjá Anítu um nokkurt skeið en hún er að eigin sögn sterkust í raungreinum. Varðandi draumastarfið í framtíðinni þá er það alveg komið á hreint. „Ég held að það væri æðislegt að vinna fyrir Össur. Það er draumastarfið hjá flottu fyrirtæki.“
Aukaæfingar í körfuboltanum í sumarfríinu
Samhliða námi er Aníta á fullu í körfubolta en hún hefur æft með Keflavík upp alla yngri flokka og meistaraflokk. Í haust varð breyting þar á en á þessu tímabili lék hún með Skallagrími í 1. Deildinni. Aníta viðurkennir að körfuboltinn taki frá henni dágóðan tíma og sérstaklega þegar hún lék með liðinu í Borgarnesi í vetur. „Maður verður bara að skipuleggja sig. Við vorum tvær frá Keflavík að spila með Skallagrími og við fengum að æfa hér og keyra svo í leiki.“ Það kom þó lítið niður á námsárangrinum ef marka má einkunnir Anítu.
Í sumar ætlar Aníta að starfa í Landsbankanum í Flugstöðinni en hún ætlar ekki að slá slöku við í körfuboltanum. „Ég ætla að vera dugleg að lyfta og æfa vel í körfuboltanum í sumar. Skotaæfingar verða m.a. á dagskránni,“ en Aníta segist hafa grætt vel á því að spila með Skallagrími í vetur. Samkeppnin í Keflavíkurliðinu er mjög hörð enda er liðið gríðarlega sterkt. Anítu langar að halda áfram í körfunni en hún gerir sér grein fyrir því að hún er að hefja krefjandi nám. „Ég verð að viðurkenna að ég er smá smeyk, en mig langar alls ekki að hætta í körfuboltanum.“
Aníta segist hafa gefið sér tíma fyrir félagslífið í gegnum skólagönguna en þó þurfi stundum að velja og hafna. „Ég hefði nú alveg viljað hitta vinina oftar en maður þarf líka að sinna fjölskyldunni og kærastanum,“ en Aníta segist hafa fengið dyggan stuðning frá fjölskyldunni, kærastanum og bestu vinkonunum og án þeirra væri árangurinn líklega ekki svona góður.