Dóttir matreiðslumeistara reynir að toppa sig á hverju ári
Maren Helga Geirdal er búsett í Reykjanesbæ og býr þar ásamt manni sínum Halldóri og dóttur þeirra Júlíu Dís. Maren starfar hjá Air Iceland Connect en árið 2017 var ansi viðburðarríkt hjá henni og fjölskyldunni.
Hvar verður þú um áramótin?
Ég verð heima hjá mér í Keflavík. Við tókum upp á því fyrir nokkrum árum að vera heima hjá okkur, bara við þrjú. Áramótin áður höfðum við verið heima hjá foreldrum okkar en áttuðum okkur á því að við værum að eyða of miklum tíma í keyrslu og stress, fyrir utan þann hausverk að skipta niður jólum/áramótum svo allar fjölskyldur fengju jafn mikinn tíma.
Hvað ætlar þú að borða um áramótin?
Ég ætla bjóða upp á nautalund og lambafillé þar sem ég get ekki ákveðið mig. Að sjálfsögðu verður almennilegt meðlæti og rjómalöguð villisveppasósa með þar sem hún smellpassar við báða kjötréttina. Ég er dóttir matreiðslumeistara svo ég reyni að toppa mig á hverju ári. Í eftirrétt verður svo Daim-ísterta með Snickers-sósu, það er það eina sem restin á heimilinu biður um.
Strengir þú eða hefur þú strengt áramótaheit?
Ég strengi áramótaheit á hverju ári. Þau hafa nú samt breyst mikið síðustu árin. Ég var alltaf að stefna á að vera duglegri að gera hitt og þetta, grennast, hlaupa lengra, hlaupa hraðar, gera meira á heimilinu og fleira í þeim dúr.
Í dag eru þau einfaldari, áramótaheitin eru einfaldlega að setja fjölskylduna í fyrsta sæti og vera hamingjusöm. Maður á það nefnilega til að rembast í einhverju kapphlaupi við aðra í stað þess að toppa sjálfa sig.
Hvað stendur upp úr á árinu hjá þér?
Þetta ár var frábært í alla staði! Ég byrjaði árið á að fara norður að kenna á vegum IGS, það endaði þannig að ég heillaðist af innanlandsfluginu. Nokkrum vikum síðar bauðst mér vinna hjá Flugfélagi Íslands sem ég tók eftir miklar vangaveltur. Í sumar útskrifaðist stelpan mín úr leikskóla, við maðurinn minn giftum okkur í haust og stelpan byrjaði í skóla. Ég er svo lánsöm að hafa fengið að ferðast mikið og fór t.d í fyrsta skipti til Grænlands sem mér fannst alveg frábært.
Eru einhverjar áramóta/nýárshefðir hjá þér?
Hefðirnar eru enn að mótast hjá mér. Ég hef samt tekið eftir því að hér í Keflavík er mikið lagt í flottar flugeldasýningar í hverri götu. Ég held enn í hefðina frá því ég var barn og deginum er tekið með ró. Það er bröns í hádeginu, göngutúr ef veður leyfir og kría tekin seinni partinn. Ég reyni að vera búin að skreyta svolítið glimmerað á gamlárskvöld og við borðum heldur seint. Við að sjálfsögðu horfum á Skaupið og sprengjum á miðnætti. Númer eitt á miðnætti er að hringja í mömmu, það er eitthvað sem breytist aldrei. Ég er enn að venjast því að vera Skagamaður búandi í Keflavík og þetta símtal á miðnætti við mömmu bjargar ansi miklu. Ég hlakka til að móta mínar hefðir með minni fjölskyldu á næstu árum, þetta er allt svo spennandi.