Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Mannlíf

Dorrit bjargaði hjálparlausum hundi
Samsett mynd. Sesar á Bessastöðum.
Miðvikudagur 25. júlí 2012 kl. 13:43

Dorrit bjargaði hjálparlausum hundi

Forsetafrúin Dorrit Moussaieff hefur verið þekkt fyrir það í gegnum tíðina að sjaldan er lognmolla í kringum hana og jafnan líf og fjör þar sem hún er stödd. Þau hjónin Ingunn Yngvadóttir og Ellert Magnason úr Keflavík fengu svo heldur betur að kynnast hjálpsemi Dorritar um síðustu helgi þegar hún kom hundi þeirra til bjargar. Þannig var það að hundur þeirra hjóna var þá í vörslu hjá foreldrum Ellerts sem búsett eru í Garðabæ. Það er kannski ekki frásögu færandi en hundurinn átti svo sannarlega eftir að lenda í miklum svaðilförum.

Hundurinn, sem er kallaður Sesar slapp einhvern veginn út af heimili hjónanna í Garðabæ og ráfaði þaðan sem leið lá að Garðatorgi fyrir utan verslun Hagkaupa þar í bæ. Vildi þá svo vel til að forsetafrúin sjálf, frú Dorrit Moussaieff var þar stödd í erindagjörðum en Ólafur Ragnar maður hennar einnig, en hann beið í forsetabílnum. Verður hún hundsins vör og sér að hann er þarna einn og yfirgefinn, en Sesar er af gerðinni chihuahua. Hún bregður því á það ráð að taka bara hundinn með sér heim á Bessastaði enda enginn eigandi nálægur og honum augljóslega brugðið.

Ellert eigandi hundsins, er á meðan þessu öllu stendur staddur í Vestmannaeyjum að spila golf. Hann fékk þá símtal á meðan á leik stóð en símanúmer hans er ritað á nafnspjald hundsins. Ellert svarar og þá er á línunni rödd sem ætti að vera flestum Íslendingum kunn. Enginn annar en forsetinn Ólafur Ragnar Grímsson er á hinum enda línunnar og tjáir Ellerti að hann hafi hund hans í vörslu. „Ólafur Ragnar heiti ég, getur verið að þú eigir hund?,“ segir Ingunn Yngvadóttir, hinn eigandi Sesars frá þegar blaðamaður Víkurfrétta sló á þráðinn til hennar en hún segir að þetta hafi hreinlega verið eins og í lygasögu.

Ellert hélt fyrst að einhver væri nú að grínast í honum en hann þekkti þó röddina. Forsetinn sagði honum að hann gæti vitjað hundsins á Bessastöðum þar sem hann væri í góðu yfirlæti. Ellert hringir þá undir eins í Ingunni og spyr hana hvort það geti passað að hundurinn hafi ráfað frá Grafarvoginum, þar sem fjölskyldan er búsett, og alla leið að Bessastöðum. Ingunn er þá sjálf stödd í miðbæ Reykjavíkur þar sem hún er á veitingarstað með vinkonum sínum og tjáir manni sínum að hundurinn sé í pössun í Garðabæ hjá foreldrum hans.

Ellert hringir til foreldra sinna og þau eru þá stödd í Keflavík í veislu. Þau ákveða þá undir eins að rjúka beinustu leið á Bessastaði og vitja hundsins enda orðið ljóst að ekki var um grín að ræða. Þegar þau mættu svo þangað stóð Dorrit með Sesar í fanginu í jogginggallanum eins og ekkert væri sjálfsagðara segir Ingunn frá. Dorrit tjáði þeim hjónum að Sesar hefði alls ekkert viljað að borða hjá henni, meira að segja hundanammi hafi ekki náð að freista hans.

Ingunn er þeim hjónum ákaflega þakklát því hundurinn stóð þarna einn og varnarlaus á bílastæði Garðatorgs og hefði sjálfsagt getað orðið undir bíl eða orðið sér að voða að sögn Ingunnar. „Hún er bara alveg yndisleg og þetta sýnir bara hvernig fólk þau hjónin eru, það hefði sjálfsagt enginn annar en Dorrit gert svona lagað,“ sagði Ingunn og bætti því við að það hefði óneitanlega verið smá mont í hundinum þegar hann var kominn aftur heim til sín. „Það var nú dálítið uppi á honum trýnið verð ég að segja,“ sagði hún og hló, enda óneitanlega skondin saga hér á ferð.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024