Dorga í höfninni
Þegar vorið skellur á þá hugsar unga fólkið sér til hreyfingar. Það gerðu einmitt Jón Þór og Ragnar sem voru við veiðar niðri á bryggju nú á dögunum. Þegar ljósmyndara Víkurfrétta bar að garði voru þeir í smá basli með eina veiðistöngina sem þeir höfðu fest í þara. Eftir smá átök losnaði veiðistöngin og þeir héldu áfram að veiða.
„Við erum búnir að vera að veiða núna í tæpan einn og hálfan tíma og erum búnir að veiða 13 ufsa en aðeins einn af þeim var nógu stór til að halda,“ sögðu þeir. Ótrúlegt var að þeir höfðu ekki veitt neina marhnúta sem er vinsæl veiði við bryggjuna. Þeir létu kuldann ekkert trufla sig og sögðu bara: „Við látum okkur hafa það,“ en þeir hafa verið að veiða tvisvar sinnum í viku undanfarnar vikur. „Seinasta sumar byrjuðum við að veiða og höfum ekki hætt síðan en þetta er næstum jafnt gaman og tölvuleikir.“ Þeir eru báðir nemendur í Holtaskóla og þeir segjast nota þessa síðustu daga fyrir próf til að skemmta sér við veiðar, en hella sér síðan út í prófalestur. Ljósmyndarinn vildi nú ekkert trufla þá meira því veiðistönginn þeirra hafði aftur lent í þara átökum en losnaði rétt áður en ljósmyndarinn kvaddi.
Myndin: Strákarnir á Keflavíkurhöfn. VF-ljósmynd/Atli Már.