Mannlíf

Doddi er uppáhalds útvarpsmaðurinn
Sunnudagur 23. október 2016 kl. 06:10

Doddi er uppáhalds útvarpsmaðurinn

- Páll Valur Björnsson, 1. sæti á lista Bjartrar framtíðar

Hvers vegna ákvaðst þú að fara í framboð?
Vegna þess að ég vildi hafa áhrif til breytinga í íslenskri stjórnmálamenningu, okkar helsta markmið og stefna í Bjartri framtíð var og er að breyta stjórnmálunum. Gera þau markvissari og mannlegri, auka virðingu fólks fyrir Alþingi og fulltrúum sínum sem starfa við þá stofnum. En síðast en ekki síst að berjast fyrir aukinni áherslu á almannahagsmuni á kostnað sérhagsmuna sem alltof lengi hafa stjórnað íslensku samfélagi.

Hvað vilt þú sjá gerast á Suðurnesjum á næsta kjörtímabili?
Það sem ég vil sjá gerast Suðurnesjum á næsta kjörtímabili er að komið verði til móts við þarfir eldri borgara og hér verði fullnægt þörfum fyrir hjúkrunarými. Ég vil ennfremur efla alla grunnþjónustu með höfuðáherslu á málefni barna og þeirra sem höllustum fæti standa,  hlúa að menntun og svo verðum við að koma húsnæðismálum ungs fólka í viðunandi horf svo þau sjái fram á bjarta framtíð hér á svæðinu.

Bílakjarninn sumardekk 2024
Bílakjarninn sumardekk 2024

Hverja telur þú möguleika þíns framboðslista í kjördæminu í kosningunum í lok mánaðarins?
Ég tel þá bara nokkuð góða og er hæfilega bjartsýnn á gott gengi okkar hér í Suðurkjördæmi.

Hvað færð þú þér oftast í morgunmat?
Gríska jógúrt með ferskum jarðaberjum, bönunum, múslí, smá rjóma og svo síróp yfir allt saman. Algert lostgæti.

Hvar lætur þú klippa þig?
Á rakarastofunni Herramönnum í Kópavogi.

Uppáhalds útvarpsmaður?
Það er að sjálfsögðu Suðurnesjamaðurinn knái hann Doddi litli enda ekki hægt annað þar sem að maður kveikir ekki á útvarpinu öðruvísi en að heyra í honum. Hann er snillingur.

Hver væri titill ævisögu þinnar?
Æringi austan af landi, gallaður en með hjarta úr gulli.

Innanlandsflug til Keflavíkurflugvallar?
Að sjálfsögðu á að skoða þann möguleika af fullri alvöru, held reyndar að það yrði til mikillar gæfu fyrir alla landsmenn og ekki síst myndi það hafa góð áhrif á dreifingu ferðamanna um landið.

Fallegasti staður á Suðurnesjum?
Mér finnst Suðurnesin öll falleg en fallegust finnst mér Eldvörpin.

Hver er besta ákvörðun sem þú hefur tekið?
Að hafa hætt að nota áfengi fyrir 20 árum síðan. Klárlega gæfuríkasta og besta ákvörðun sem ég hef og mun taka í lífinu.

Hvað er það neyðarlegasta sem þú hefur lent í?
Hef nú oft lent í neyðarlegum aðstæðum í lífinu en ein sú neyðarlegasta gerðist fyrir mörgum árum síðan. Þá var ég ásamt vini mínum að labba niður Laugarveginn á fallegum sumardegi og þá sá ég á gangstéttinni hinum megin götunnar afar fallega stúlku. Það væri svo sem ekki frásögur færandi nema fyrir þá sök að mér var svo starsýnt á hana að ég gætti ekki að mér og gekk beint á stöðumæli og steinlá í götunni. Frekar neyðarlegt.

Dagblað eða net á morgnana?
Langoftast netið.

Sameinuð sveitarfélög á Suðurnesjum eða áfram eins og nú?
Ég er ansi hræddur um að þetta verði áfram eins og það er nú, enn um sinn. En að sjálfsögðu eigum við að ræða hlutina og skoða kosti þess og galla að sameina sveitarfélögin. Það skaðar engan og kostar ekki neitt.