Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Mannlíf

Fimmtudagur 4. mars 1999 kl. 22:12

DJÁKNI Í KEFLAVÍKURSÓKN

Sunnudaginn 14. febrúar var Lilja Guðrún Hallgrímsdóttir settur djákni í Keflvíkursókn við hátíðlega athöfn í Keflavíkurkirkju. Djáknar eru nýmæli innan íslensku þjóðkirkjunnar en hafa þó fylgt kristninni alveg frá frumkirkjunni. Guðfræðideild Háskóla Íslands samþykkti 1993 að koma á djáknanámi og hafa 15 djáknar verið vígðir síðan kennsla hófst. Blaðamaður Víkurfrétta fór og hitti Lilju Guðrúnu á starfsstöð hennar í Kirkjulundi fullur forvitni um hvað djákni eiginlega væri og hver nýi djákninn væri? Hvað er djákni og hvert er hlutverk hans innan kirkjunnar? ,,Djákni merkir í raun þjónn Guðs og er honum ætlað að standa vörð um réttindi fólks, hughreysta sjúka og sorgbitna og vera við hlið þeirra sem minna mega sín. Hin eiginlega skilgreining á starfi djákna er kærleiksþjónusta eða fræðslu- og líknarþjónusta.” Hver er nýi djákninn? ,,Ég heiti Lilja Guðrún og er 61 árs gömul. Ég er fæddur Reykvíkingur en hef búið í Garðabæ síðastliðin 30 ár. Faðir minn var útgerðarmaður og átti t.d. í samstarfi við Valdimar Björnsson Keflvíking. Ég er kvænt Árna Norfjörð og eigum við saman 3 uppkomin börn. Sextíu-og-eins árs!! Hvers vegna ákváðstu að þessu stigi lífs þíns að gerast djákn? ,,Ég fór ung í balletnám og vann svo fyrir mér sem dansari, danshöfundur og danskennari. Síðan kenndi ég við leiklistarskóla Leikfélags Reykjavíkur. Á árunum 1978-1982 vann ég sem heilsuþjálfi á Reykjalundi en það starf var mjög gefandi og skildi mikið eftir sig. Í kjölfarið hellti ég mér út í pólitík og sat í bæjarstjórn Garðabæjar í tvö kjörtímabil(1982-1990), var m.a. forseti bæjarstjórnar og formaður S.S.H á því tímabili. Bæjarstjórnin reyndist gríðarlegur skóli, bæði skemmtilegur og erfiður í senn. Eftir að ég hætti í bæjarstjórn hugðist ég taka því rólega og setjast niður fyrir framan sjónvarpið. Brátt ákváð ég að setjast á skólabekk og skráði mig í öldungardeildarnám Verslunarskóla Íslands, svona eiginlega til að hressa upp á ýmislegt. Áhuginn vaknaði fyrir alvöru og1995 útskrifaðist ég sem stúdent þá 58 ára gömul. Djáknanámið hjá Guðfræðideild H.Í vakti strax áhuga minn og hóf ég nám að hausti 1995. Möguleikarnir í djáknanáminu eru tvenns konar, annars vegar 30 eininga nám og hins vegar 90 eininga nám sem líkur með BA gráðu. Ég er ein 5 djákna með BA gráðuna og 13. djákninn (af 15) sem vígður hefur verið hérlendis. Hvers vegna Keflavíkursókn? Starfið var auglýst, ég vissi af byggingu nýs safnaðarheimilis, og fannst afar jákvætt að sóknarnefnd skyldi ákveða að styrkja jafnframt innra starf kirkjunnar með ráðningu djákna og ákváð því að sækja um. Þá þekkti ég til sóknarprestsins, Ólafs Odds Jónssonar, en hann hafði bæði kennt og verið prófdómari við Guðfræðideildina. Hvað gerir þú svo í raun og veru? ,,Ég hef ákveðnum skyldum að gegna við guðsþjónustur og helgihald í samræmi við óskir sóknarprests auk fjölda annarra fastra verkliða f.h. sóknarnefndar í Hvammi, á Hlévangi og í Kirkjulundi. Þá er fræðslustarfsemi kirkjunnar mikilvægur þáttur í starfi mínu og annan hvern fimmtudag kl. 17:30 flytja fagmenn erindi um ýmis vandamál þjóðfélagsins. Í dag flytur Elín Sigríður Jónsdóttir hdl. erindi um vandamál í fjármálum fjölskyldna landsins. Það málefni er eitt af áhugamálum mínum en lokaritgerð mín í námi fjallaði um fjárhagsvanda heimilanna.” Í hádeginu hvern miðvikudag er síðan boðið upp á djáknasúpu í Kirkjulundi að lokinni kyrrðar- og bænastund í kirkjunni. Þar er um að ræða nokkurs konar hádegisstund að hætti nútímamannsins. Fólk mætir um kl. 12:00 og tekur þátt í stuttri dagskrá sem er að því miðuð að veita mönnum skjól frá önnum hversdagsins en kl. 12:30 er farið út í Kirkjulund og þar boðið upp á súpu, salat og brauð gegn vægu gjaldi. Djáknaþjónustan er í mótun og þarfir, viðhorf og hugur fólksins í sókninni kemur til með að hafa mikil áhrif á þróun starfsins.” Blm. þakkaði Lilju viðtalið og hugleiddi, er hann yfirgaf Kirkjulund, að skoða yrði nánar þá fræðslu, stuðning og huggun sem kirkjan byði bæjarbúum því stundum sækti hann heim vantrú á eigin stryrk, framtíðarsýn og trú. jak.
Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024