Diskóið og fjör í Andrews
Með blik í auga er ómissandi þáttur í ljósahátíðinni en segja má að sýningin sé upphafið að hátíðarhöldunum í Reykjanesbæ en hún lokar svo dagskránni á sunnudeginum, svona eins og góð samloka.
Í ár er boðið upp á diskóblik í auga sem er vel til fundið hjá þeim blikurum enda á sú tónlistarstefna marga dygga aðdáendur og vissulega var manni hugsað til Bergáss þar sem dansinn dunaði, kung-fu sýningar voru fastir liður svo ekki sé talað um tískusýningarnar. Mín kona var nú ein af þeim sem þar sýndi föt með vængi í hárinu.
Að venju tekur einvalalið söngvara og hljóðfæraleikara þátt í sýningunni og má þar nefna söngvarana Stefaníu Svavarsdóttur, Jóhönnu Guðrúnu, Pétur Örn og okkar eigin Valdimar sem kom skemmtilega á óvart í diskósmellunum.
Þetta er kraftmikil sýning þar sem keyrslan er mikil allan tímann en að þessu sinni var tónlistin að mestu flutt í syrpum sem gerði allt flæði betra og úrval laga að sjálfsögðu meira. Þá fannst mér gaman að sjá mikinn fjölda dansara frá Danskompaní á sviðinu sem gáfu allt sitt 100% og örugglega mikil hvatning að fá að taka þátt í jafnstórri sýningu.
Það mátti svo heyra saumnál detta í salnum þegar Valdimar mætti á sviðið og flutti lag ABBA The winner takes it all. Þvílíkur flutningur en hann gerði lagi að sínu með lágstemmndri útgáfu sem fær fullt hús stiga.
Kynnirinn Kristján Jóhannsson var minna í sviðsljósinu en áður en hann naut stuðnings frá hinum þekkta útvarpsmanni Sigga Hlö sem einu sinni var frægur. Sú blanda heppnaðist vel en það er alltaf fróðlegt að heyra sögur af tónlistarmönnum og lögunum en Kristjáni tekst alltaf að kitla hláturtaugar gesta.
Þá verð ég að minnast á sviðsmyndina sem var sú glæsilegasta sem ég hef séð á sýningum bliksins.
Það var ekki langt liðið á sýninguna þegar maður var farinn að slá taktinn og dilla sér í sætinu og mér sýndist svo vera um aðra. Takk fyrir okkur.
Páll Ketilsson