Dirty Dancing – Sýning sem nær til allra
– Guðný Kristjánsdóttir skrifar leikdóm fyrir Víkurfréttir
Föstudagskvöldið 21.febrúar skellti ég mér ásamt dætrum mínum á sýningu Nemendafélags Fjölbrautaskóla Suðurnesja, Dirty dancing í Andrews. Þessi sýning var sérstök að því leyti að aðgangseyrir rann óskertur til tækjakaupa á HSS og söfnuðust 414.000 krónur sem er frábært.
Ég tek ofan fyrir nemendafélaginu að ráðast í slíka uppfærslu og vil byrja á að óska þeim til hamingju með framtakið sem að sýningunni stóðu. Það þarf kjark og þor til þess að fara af stað með svo veigamikið verk sem Dirty Dancing er og að mörgu ber að huga.
Handritið er einfalt og greinilegt að leikstjórinn hefur stytt það töluvert sem kom þó ekki að sök. Leikarahópurinn stóð sig með mikilli prýði en þar ber af að öðrum ólöstuðum aðalleikarinn Arnar Már Eyfells sem fer með hlutverk Johnny. Arnar bæði leikur vel, syngur sitt lag af mikilli innlifun auk þess að sýna snilldartakta í dansi. Auk Arnars má ég til með að nefna Sölva Elísabetuson sem leikur Njál en hann túlkar sitt hlutverk frábærlega og hótelstýran Katalína er vel leikin af Guðrúnu Elvu Níelsdóttur. Silvía Rut Káradóttir var sannfærandi í sínu hlutverki sem Penny og dans hennar frábær.
Eins og nafn verksins gefur til kynna þá er mikið um dansa og ber að hrósa danshópnum öllum sem fyllti sýninguna lífi með frábærum dönsum og flottum búningum. Ásta Bærings á mikið hrós skilið fyrir sína vinnu sem danshöfundur sýningarinnar.
Ekki er ætlunin að rekja það sem betur mátti fara að mínu mati því í heildina var sýningin skemmtileg og náði til allra áhorfenda. Ég vil að lokum nota tækifærið og hrósa NFS fyrir að ráðast í svona verkefni og koma þannig til móts við þá fjölmörgu hæfileikaríku nemendur skólans sem hafa áhuga á að leika,syngja, dansa og bara yfirleitt koma fram og standa að leiksýningum.
Okkur bæjarbúum ber skylda til að mæta á viðburði sem þessa og styðja þannig við uppbyggingu leiklistarlífs og menningar hér á svæðinu. Við suðurnesjamenn erum rík af hæfileikafólki sem skilar sér í svona uppfærslum.
Hér er öflugt leikfélag starfandi, Leikfélag Keflavíkur, eitt það öflugasta á öllu landinu sem setur árlega á svið tvær stórar sýningar auk þess að taka virkan þátt í hinum ýmsu uppákomum á vegum sveitarfélaganna.
Þann 7. mars mun Leikfélag Keflavíkur frumsýna söngleikinn Ávaxtakörfuna eftir Kristlaugu Maríu Sigurðardóttur og vil ég hvetja alla Suðurnesjamenn til þess að koma á þá sýningu og styðja enn betur við leiklistina hér á svæðinu, það er okkur öllum til heilla.
Guðný Kristjánsdóttir.