Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Mannlíf

Fimmtudagur 6. febrúar 2003 kl. 21:33

Didda og dauði kötturinn frumsýnd við góðar undirtektir

Kvikmyndin Didda og dauði kötturinn var frumsýnd í kvöld í Sambíóunum Keflavík. Myndin sem tekin var upp í gamla bænum í Keflavík fjallar um sögu ungrar stúlku sem fær kröftuga sjón eftir að hafa dottið ofaní lýsistunnu. Stúlkan kemst á snoðir þorpara sem leynast í næsta húsi og lendir í ævintýrum við að upplýsa glæp. Sagan er spennandi og skemmtileg unglingasaga en kvikmyndin sem tekur 80 mínútur í sýningu er stórskemmtileg fjölskyldumynd, uppfull af spennu og húmor. Almennar sýningar hefjast á myndinni á morgun í öllum helstu kvikmyndahúsum.Krakkar af Suðurnesjum eru áberandi hlutverkum í myndinni. Kristín Ósk Gísladóttir 11 ára leikur Diddu sem er aðalsöguhetja myndarinnar. Þá leika tveir vinir úr Keflavík, þeir Einar Orri Einarsson og Davíð Már Gunnarsson, sem verða 14 ára á þessu ári, einnig stórt hlutverk í myndinni en þeir leika félagana Kára og Pétur. Víkurfréttir spjölluðu aðeins við krakkana í tilefni frumsýningar myndarinnar og voru þau öll sammála um það að það hefði verið mjög gaman að leika í myndinni og kynnast nýju fólki. „Þetta var mjög skemmtilega upplifun og var mjög gaman að hitta fræga leikara eins og Stein Ármann og Helgu Brögu sem leika í myndinni“, sagði Einar Orri sem leikur Kára. Davíð Már sem leikur Pétur sagði að atriðin hefðu verið misjafnlega skemmtileg „Mér fannst skemmtilegast að leika í atriðinu þar sem ég og Einar áttum að brjótas inn í hús, þá kom villingurinn upp í okkur. Við höfum verið vinir í mörg ár og því var gaman að leika saman í myndinni“. Aðspurður hvort þeir ættu eitthvað sameiginlegt með strákunum sem þeir léku sagði Davíð að svo væri. „Fyrir utan það að við séum bestu vinir þá erum við nú líka svolitlir prakkarar“ og tók Einar undir það með vini sínum og bætti því við að þeir væru þó ljúfir inn við beinið.
Atriðin voru miserfið og reyndi oft á leikhæfileika krakkana til dæmis þegar þau þurftu að sýna tilfinningar og gráta. Kristín segist hafa fengið það ráð frá framkvæmdastjóra myndarinnar að skera lauk og þá hafi tárin strax byrjað að leka. Davíð sagðist ekki hafa notið „hið sígilda lauktrikk“ heldur bara leikið enda hafi þeir bara þurft að snökta eins og hann orðaði það. Þau sögðu að það hefði verið skemmtilegt að vinna með Steini Ármanni Magnússyni og Helgu Brögu Jónsdóttur enda væru þau mjög fyndin. „Þau eru nú bara venjulegt fólk eins og við hin en það var gaman að vinna með þeim. Þau eru alveg jafn fyndin og skemmtileg og þau líta út fyrir“, sagði Davíð sem leikur Pétur og bætti Kristín því við að hún hefði lært helling af því að leika með þeim.

Nánar um myndina hér á vefnum á morgun.
Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024