Karlakór Kef kertatónleikar
Karlakór Kef kertatónleikar

Mannlíf

Fimmtudagur 6. febrúar 2003 kl. 09:01

Didda og dauði kötturinn frumsýnd í Keflavík í kvöld

Í kvöld verður frumsýnd i Sambíóinu í Keflavík ný íslensk barna- og fjölskyldumynd, Didda og dauði kötturinn, í leikstjórn Helga Sverrissonar. Almennar sýningar hefjast í Háskólabíói og Sambíóunum í Keflavík og á Akureyri föstudaginn 7. febrúar. ÍsMedía framleiðir myndina, sem er gerð eftir handriti Kristlaugar M. Sigurðardóttur, Kikku. Myndin var tekin með stafrænni videotækni í blíðskaparveðri í Keflavík í júní og júlí í sumar.Didda og dauði kötturinn

Didda er níu ára gömul stelpa sem býr í gamla bænum í Keflavík. Hún er gleraugnaglámur og lestrarhestur og finnst fátt skemmtilegra en að sitja uppi í risi í húsinu sínu og lesa góða bók eða fylgjast með nágrönnum sínum og velta fyrir sér hvað þeir eru að sýsla.

Einn daginn leiða njósnirnar hana fram af skúrþaki þannig að hún dettur ofan í lýsistunnu. Skömmu síðar áttar hún sig á því að hún þarf ekki lengur að nota gleraugun. Og að hún er jafnvel farin að sjá betur en allir aðrir, en sá hæfileiki kemur í góðar þarfir þegar Didda fer að eltast við glæpamenn sem hafa rænt hrekkjusvíninu bróður hennar og vini hans.

Í söguna blandast afturgenginn köttur, ægifögur en undirförul sjoppukona (Helga Braga Jónsdóttir), ruglaður rithöfundur (Steinn Ármann Magnússon), pabbi sem er lögga (Kjartan Guðnason), mamma sem er blaðamaður (Sjöfn Evertsdóttir) og margir, margir fleiri.

Steinn Ármann Magnússon, Helga Braga Jónsdóttir, Gunnar Eyjólfsson, Kjartan Guðjónsson og Sjöfn Evertsdóttir fara með helstu hlutverk fullorðinna. Diddu leikur Kristín Ósk Gísladóttir, tíu ára, og strákana tvo, Pétur og Kára, leika Einar Orri Einarsson og Davíð Már Gunnarsson, báðir 11 ára. Þá leikur Árni Sigfússon bæjarstjóri í Reykjanesbæ hlutverk lögregluvarðstjóra.

Didda og dauði kötturinn er byggð á handriti Kikku / Kristlaugar Maríu Sigurðardóttur, en hún er jafnframt aðalframleiðandi myndarinnar.

Helgi Sverrisson leikstýrir og tekur, framkvæmdastjórn og aðstoðarleikstjórn var í höndum Kristjáns Kristjánssonar, Sævar Guðmundsson klippti og tónlistina gerði Ludvig Kári Forberg.

Heiða í Unun syngur titillag myndarinnar, Dauði kötturinn.
Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024