Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Mannlíf

Díana Lind er heimakær skemmtikraftur
Díana Lind á skólaslitum Tónlistarskóla Reykjanesbæjar í vor. VF-mynd/pket.
Mánudagur 17. júní 2013 kl. 19:58

Díana Lind er heimakær skemmtikraftur

Fékk hvatningarverðlaun Íslandsbanka. Langar að vinna við að syngja, skemmta mér og gleðja. Smellpassaði í tónlistarlegan suðupott í Reykjanesbæ

Díana Lind Monzon fékk á dögunum hvatningarverðlaun frá Tónlistarskóla Reykjanesbæjar en hún segist sjálf hreinlega ekki getað verið án tónlistar í sínu lífi. Hún hefur fengið að blómstra í Tónlistarskóla Reykjanesbæjar en hún segist aldrei vera glaðari en þegar hún er að syngja og spila. Hún vinnur nú að sálarplötu og hefur fundið sína hillu í lífinu.

Íslandsbanki hefur undanfarin 8 ár veitt hvatningarverðlaun þeim nemanda sem hefur skarað framúr á einhvern hátt og á framtíð fyrir sér á tónlistarsviðinu. Að þessu sinni hlaut Díana Lind, nemandi í klassískum gítarleik, jass-söng og jass-píanóleik verðlaunin. Afhenti Sighvatur Gunnarsson henni viðurkenningu af þessu tilefni. Íslandsbanki mun greiða skólagjöld hennar í Tónlistarskóla Reykjanesbæjar næsta ár.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Tónlistaráhuginn kviknaði snemma en Díana man eftir sér dansandi við tónlist Michael Jackson sem barn en hún var farin að syngja sig sjálfa í svefn sem ungabarn. Díana ólst upp í miðbænum í Reykjavík en hún byrjaði að læra á gítar þegar hún var 12 ára gömul. Söngurinn var alltaf hluti af henni en hún hafði hann svona meira út af fyrir sig.

Hún fluttist til Suðurnesja árið 2010 en þar skráði hún sig til náms í Keili á Ásbrú þar sem hún lauk svo stúdentsprófi. Hún missti fljótlega vinnuna eftir að hún fluttist hingað en hún fór þá að sækja í aðstöðuna sem staðsett er í Virkjun á Ásbrú. Þar fann hún sig vel á ýmsum námskeiðum og lofar starfsemina í hástert. Eftir að hafa dvalið löngum stundum í Virkjun bauðst henni starf hjá Vinnumálastofnun. Skömmu síðar hafði Haraldur Árni Haraldsson skólastjóri Tónlistarskólans samband og spurði hvort hún vildi ekki koma og prófa að kenna við skólann en hún hafði þá nýlega hafið nám þar. „Þannig að ég var þarna komin með sumar- og haustvinnu skömmu eftir að ég missti vinnuna í Reykjavík,“ segir Díana en hún hóf að kenna 1. og 2. bekk tónlist í Akurskóla um haustið. „Ég hafði ekki hugmynd um það að ég væri fær um að vera kennari fyrr en ég prófaði þetta. Ég er ótrúlega þakklát að þau hjá Tónlistarskólanum hafi í raun séð þetta í mér, þetta er alveg ótrúlega skemmtilegt.“

Díana með Sighvati Gunnarssyni, útibússtjóra Íslandsbanka sem gefur Hvatningarverðlaun TR.

Tekið opnum örmum frá fyrsta degi
Áður hafði Díönu ekki fundist tónlist vera praktísk. Hún taldi að maður ætti að læra að smíða eða telja peninga. Eitthvað sem gæti nýst í lífinu. Þau viðhorf hennar hafa nú breyst. Hún átti sjálf alltaf erfitt með að ákveða hvað hún ætlaði að læra þrátt fyrir að vera afbragðs námsmaður. Hún kláraði stúdentsprófið frá Keili þar sem hún útskrifaðist sem semi-dúx. „Mér fannst tónlist ekki vera eitthvað sem maður ætti að leggja fyrir sig. En eftir að ég kom hingað og kynntist tónlistinni hérna þá hef ég fengið að blómstra. Mér var tekið opnum örmum frá fyrsta degi.“

Er ómöguleg án tónlistar
Sjálf hætti Díana tónlistarnámi 16 ára en sá aldur er að hennar sögn mesti brottfallsaldur í tónlist. Hún hætti hins vegar ekki að spila á gítarinn en tónlistin hefur einstök áhrif á skapgerð hennar. „Þegar ég syng og spila, þá er ég glöð. Það er oft sagt við mig þegar ég er orðin eitthvað stirð í skapinu. „Díana mín, viltu ekki aðeins fara að spila og syngja.“ Sem barn hlustaði hún á MTV og Michael Jackson allan liðlangan daginn. „Ég hef alltaf þurft á tónlist að halda. Þetta er eins og að anda fyrir mig, ég er ekkert ég ef ég er ekki í tónlist.“

Tveimur árum áður en Díana fluttist til Reykjanesbæjar hafði hún tekið gítarinn upp aftur og hafið tónlistarnám að nýju. „Ég tók upp þráðinn þar sem frá var horfið. Ég las ennþá nótur og hafði í raun ekki tapað miklu frá því að ég hætti í náminu 10 árum áður,“ segir Díana. Hún sá fram á það að geta ekki sótt nám sitt í Reykjavík og hafði því samband við Tónlistarskóla Reykjanesbæjar. „Mér var hleypt inn og síðan hef ég eiginlega verið húsgagn þar.“ Nú einbeitir Díana sér að eigin námi en hún er að læra tónlistarkennarann í FÍH.

Tónlistarlegur suðupottur í ReykjanesbæHún segist sjá framtíð sína í Reykjanesbæ og sérstaklega í tónlistinni. „Ég get eiginlega ekki ímyndað mér að vera annars staðar. Ég er að fá tækifæri hérna sem ég var ekki að fá í Reykjavík. Hér er mikill metnaður og áhugi og það eru ekki allir tónlistarskólar sem bjóða upp á rokk, djass og blús,“ en Díana hrífst af fjölbreytileikanum í náminu við Tónlistaskóla Reykjanesbæjar. Sjálf var hún að læra klassík, bæði á gítar og í söng í Reykjavík. „Þegar ég kom hingað þá fann ég mig í einhverjum tónlistarlegum suðupotti sem ég smellpassaði í.“

Er svo mikil þversögn - Jing og Jang
Díana segir mikil forréttindi að fá að taka þátt í bæjarlífinu með þessum hætti en hún fer víða með tónlistarskólanum og spilar og syngur. En hefur hún mikla þörf fyrir það að koma fram og skemmta fólki? „Ég er svo mikil þversögn. Alveg jing og jang. Þegar ég er á sviði þá kviknar á einhverju ljósi inní mér og ég brosi út að eyrum. En þegar ég er heima þá finnst mér það voðalega notalegt. Þannig að það mætti segja að ég sé heimakær skemmtikraftur.“ Hún segir að það að vera með öðrum og spila tónlist gefi henni mikið og þá kann hún virkilega að meta þann samhjóð sem myndast. Um þessar myndir er Díana að vinna að plötu með lögum sem hún hefur verið að semja síðustu 10 ár eða svo. Platan verður með sálarívafi en nokkur tökulög verða í nýjum búningi á plötunni í bland við frumsamda efnið. „Fólk hefur svo gaman af því að heyra í mér. Það er fínt að það geti hlustað líka þegar ég vil bara vera heima hjá mér,“ segir Díana og hlær. Hún segist vera spennt fyrir plötunni sem hún vinnur að með Kristjáni Hafsteinssyni vini sínum. Hún segist semja mikið af sínum lögum á Reykjanesbrautinni en þar kemur hún miklu í verk. „Ég hef lært spænsku á Reykjanesbrautinni, hlustað á Hobbitann ásamt því að semja lög.“

Er á réttri braut
„Þegar ég fékk hvatningarverðlaunin þá fannst mér eins og það væri verið að segja við mig „þú ert á réttri braut og við viljum að þú haldir áfram.“ Ég finn að ég er að gera það sem ég á að vera að gera. Ég er bara nýbúin að taka þá ákvörðun að tónlistin sé málið,“ segir Díana sem er að læra að verða tónlistarkennari í FÍH. „Bróðir minn sagði að ég ætti að verða lögfræðingur því ég á auðvelt með bóknám. En mig langar ekki að vinna við að vera reið og rífast og skammast. Mig langar að vinna við að syngja, skemmta mér og gleðja,“ sagði Díana hlæjandi að lokum.

Díana á afmælistónleikum Léttsveitar TR í vor.